Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Glæpsamlegt áhlaup á varnarlaus heimili

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri aðför að heimilum landsins sem Seðlabankinn stendur fyrir.

Á einu ári hefur Seðlabankinn aukið mánaðarlega greiðslubyrði heimilanna um 130 – 200.000 kr. í hverjum mánuði og það er augljóst öllu sæmilega skynsömu fólki, að heimili með meðaltekjur eða minna munu ekki standa undir þessum álögum til lengdar.

Það má líkja aðgerðum Seðlabankans við það að kveikja í húsi til að losna við köngulóavef.

Allar aðgerðir Seðlabankans eru verðbólguhvetjandi, því hvert fara ört hækkandi álögur á fyrirtæki, annað en út í verðlagið? Og hvert fer aukinn húsnæðiskostnaður heimilanna annað en beint inn í húsnæðislið vísitölu neysluverðs?

Og hvert fer fjármagn heimilanna annað en inn í troðfullar hirslur bankanna sem nú fitna eins og púkinn á fjósbitanum? Þar er sko veisla.

Það er hreinlega pínlegt að hlusta á gaslýsingar Seðlabankastjóra þegar hann reynir að sannfæra fólkið í landinu um að þessar verðbólguhvetjandi aðgerðir séu þeim til góðs og gerðar til að verja kjarabætur þeirra frá því að brenna upp á verðbólgubáli, því að á sama tíma tekur hann margfalt hærri fjárhæðir af fólkinu og afhendir bönkunum á silfurfati.

Skynsemin er víst ekki meiri en Guð gefur og maður skyldi ætla að nóg væri af henni innan veggja Seðlabankans, en þá ber að líta til þess hversu einsleitur hópurinn sem skipar peningastefnunefndina er. Þau koma öll úr fjármálageiranum og setja hagsmuni hans alltaf í forgang, eins og sjá má á vaxtahækkunum síðasta árs.

Lesa áfram...

Fátækragildra verðtryggðra lána

Í síðasta tölublaði Stundarinnar (September 2022) var fjallað um áhrif vaxtahækkana á lántakendur og viðhorf þeirra og sérfræðinga til stöðunnar á húsnæðismarkaði. Í umfjöllun Stundarinnar koma fram sjónarmið sem að jafnaði eru ekki ofarlega í umræðu um húsnæðismál eða verðtryggð lán. Úttekt Stundarinnar gefur innsýn í fjárhagslegt og félagslegt misrétti sem lítið sem ekkert hefur verið fjallað um hingað til, en Hagsmunasamtök heimilanna þekkja mætavel.

Aldrei aftur verðtryggt lán

Það kemur þeim hagfræðingum sem Stundin ræddi við ekki á óvart að lántakendur haldi tryggð við óverðtryggð lán þrátt fyrir miklar hækkanir vaxta. Heilt yfir er það mat sérfræðinganna sem Stundin ráðfærir sig við að fólk sé að halda í óverðtryggð lán í lengstu lög og því hafi færri fært sig yfir í verðtryggð lán en kannski mátti búast við. Staðan gæti þó breyst og lántakendur gætu í auknum mæli þurft að færa sig yfir í verðtryggð lán, til að létta greiðslubyrðina (tímabundið).

Skýr samhljómur virtist vera meðal viðmælenda, bæði sérfræðinga og leikmanna um að verðtryggð lán séu lakasti kosturinn í íbúðarkaupum.

Lesa áfram...

Vaxtahækkanir og skyldur lánveitenda

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á upplýsingaskyldu lánveitanda í tengslum við vaxtahækkanir. Þegar Seðlabanki Íslands hækkar meginvexti sína (stýrivexti) fylgja oftast í kjölfarið hækkanir á útlánsvöxtum hjá fjármálastofnunum. Þær eru mismiklar og háðar mati hverrar fjármálastofnunar fyrir sig, en lögum samkvæmt verður þó að vera gagnsæi um slíkar ákvarðanir og forsendur þeirra. Samtökin hafa gagnrýnt vaxtahækkanir seðlabankans og lánveitenda. Burtséð frá þeirri gagnrýni lúta lánveitendur lögum og reglum sem þeir eiga að fylgja við framkvæmd þessara hækkanna.

Lesa áfram...

Að verja heimilin með því að merja þau

Vextir hafa hækkað um 633% en launþegar eiga að sýna „skynsemi“ í launakröfum.

„Eigi skal höggva“, sagði Snorri Sturluson áður en hann var veginn. Þau orð eiga vel við núna því vaxtahækkun Seðlabankans í morgun er enn einn rýtingur í bakið á heimilum landsins. Aftur skal hoggið í sama knérunn og aftur eru það þau sem minnst hafa og mest skulda sem verst verða úti.

Vaxtahækkanir eru ekki lögmál og alls í ekki í þeim mæli sem Seðlabanki Íslands er að leyfa sér að beita þeim á þessum tímum. Heimili landsins munu langflest standa undir hækkandi vöruverði vegna verðbólgunnar, en þegar „lækningin“ margfaldar byrðar hennar, er hætt við að eitthvað láti undan.

Lesa áfram...

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Yfirlýsing stjórnar

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Seðlabankinn undir stjórn Ásgeirs Jónssonar eru að beita í baráttu við verðbólguna, enda gera þær aðgerðir einungis illt verra fyrir allan þorra almennings á Íslandi. 

Það er líka verulega ámælisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa varla sést á undanförnum vikum og mánuðum á meðan Ísland er að ganga í gegnum einhverja verstu efnahagskrísu í tugi ára, að bankahruninu 2008 undanskildu. Þau hafa með þessu skeytingar- og aðgerðaleysi sýnt hug sinn í verki gagnvart heimilum landsins. Annað gildir um Seðlabankastjóra sem virðist hins vegar hafa tekið stjórnina (á landinu) og gripið til harðra aðgerða sem gera ekkert annað en að fórna heimilum landsins í opið gin bankanna, án þess að þau fái nokkra björg sér veitt. Það verður að draga þá ályktun að þögn sé sama og samþykki og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur styðji þessar aðgerðir.

Stóraukin útgjöld

Til vitnis um fáránleika þessara aðgerða má benda á könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní en þá þegar höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 81.916 krónur á einum mánuði. Af því voru 15.250 krónur vegna hækkunar á mat og bensíni á meðan mánaðarlegar vaxtagreiðslur af 40 milljón króna óverðtryggðu láni höfðu hækkað um 66.666 krónur eða fimmfalt það sem verðbólgan kostaði fjölskylduna.

Lesa áfram...

Tryggjum að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana!

Áskorun - Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent ríkisstjórn Íslands áskorun um að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkanna.

Ríkisstjórnin kynnti í lok síðustu viku aðgerðir til handa þeim sem verst eru staddir vegna þeirrar verðbólgu sem nú geisar og fyrirsjáanlegra vaxtahækkana bankanna. Hún tók jafnframt ákvörðun um að ráðast ekki í neinar aðgerðir fyrir þá sem þurfa að greiða af húsnæðislánum.

Afleiðingar heimsfaraldurs og stríðs

Frá upphafi heimsfaraldursins hafa Hagsmunasamtök heimilanna kallað eftir vernd fyrir heimilin; að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldurs enda ekki á valdi einstaklinga eða fjölskyldna að hafa áhrif á afleiðingar hans. Sama á nú við um afleiðingar stríðsátaka í Úkraínu.

Lesa áfram...

Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!

Seðlabankinn hækkaði meginvexti sína um 1 prósentustig í gær eða um  36% og flestir gera ráð fyrir að bankarnir fylgi í kjölfarið og hækki vexti á húsnæðislánum og öðrum neytendalánum.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna bankana á að þegar meginvextir Seðlabankans lækkuðu á síðasta ári, þá fylgdu lækkanir bankanna ekki eftir í sama hlutfalli.

Almennt hafa vextir bankanna að undanförnu verið 40%-75% hærri en meginvextir Seðlabankans. Þannig að þegar meginvextir Seðlabankans hafa verið 2,75% hafa vextir bankanna á húsnæðislánum verið í kringum 4,7% á óverðtryggðum íbúðalánum. Að undanförnu hafa vextir bankanna þannig verið um 42% hærri en meginvextir Seðlabankans.

En þá komum við að því sem gerðist, eða gerðist ekki, þegar viðmiðunarvextir Seðlabankans fóru niður í 0,75%. Þá hefðu vextir bankanna átt að fylgja hlutfallslega með og fara niður í rétt rúmlega 1% á óverðtryggðum lánum.

Lesa áfram...

Bankarnir skulda heimilunum lægri vexti

Aðstöðumunur á milli banka og neytenda er bæði augljós og áþreifanlegur og komi upp ágreiningur þarf því miður sjaldnast að spyrja að leikslokum.

Þessi aðstöðumunur blasir nú við í formi vaxtahækkana. 

Við höfum seðlabanka á Íslandi sem notar stýrivexti til að hafa áhrif á hagkerfið, bæði til að auka eða draga úr þenslu eftir þörfum.

En fyrir hvern eru þessar vaxtastýringar og hvernig eiga þær að hafa tilætluð áhrif ef þær skila sér ekki á lán heimilanna nema til hækkunar?

Þegar stýrivextir seðlabankans lækka er allt annað upp á teningnum. Þá er eins og seðlabankinn og bankarnir séu í sitthvoru hagkerfinu og engar tengingar á milli. 

Þó að bankarnir hafi lækkað vexti hefur samt munað á bilinu 170% - 250% á því sem vextir ættu að vera ef vaxtalækkanir seðlabankans skiluðu sér til neytenda og því sem þeir eru í reynd.

Þessa skuld við neytendur, heimilin í landinu, verða bankarnir að gera upp og greiða!

 

Tölur um vaxtalækkanir 

Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,5%. Síðan þá hafa þeir í skrefum verið lækkaðir niður í 0,75%, en hafa nú nýlega hækkað upp í 1,25%. Stýrivextirnir eru því núna 72% lægri en í byrjun vaxtalækkunarferlisins.

Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu óverðtryggðir vextir íbúðalána hjá bönkunum 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 3,45%, eða um einungis 42,5%.

Ef óverðtryggðir bankavextir hefðu hins vegar þróast á sama hátt og stýrivextir og lækkað um 72% ættu þeir núna að vera um það bil 1,7%.

Verðbólga er nú 4,3% þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera orðnir neikvæðir -0,85%, en eru nú lægstir 1,9% hjá bönkunum.

 

Munurinn á því sem er og því sem ætti að vera

Þegar litið er á mismuninn á tölunum 1,7% og 3,45% þá eru þetta „einungis“ 1,75 prósentustig sem virðist ekki vera mikið. Svona hækkun á mjólkurlítranum myndi ekki hreyfa neitt sérstaklega við okkur enda erum við öllu vön í þeim efnum.

En þegar um er að ræða tugmilljóna króna húsnæðisskuldbindingar okkar skipta þessi prósentustig verulegu máli. Vextirnir eru nú 200% hærri en þeir ættu að vera og lengi vel munaði heilum 250%.

Þrátt fyrir þennan gríðarlega mun er sagt að neytendur eigi að búa sig undir vaxtahækkanir, því núna þegar seðlabankinn hækkar sína stýrivexti um 0,25% er búist við að bankarnir geri það sama. Þeir eiga samt enn eftir að greiða skuld sína við heimilin vegna vaxtalækkana síðasta árs, sem skiluðu sér ekki til þeirra nema í takmörkuðum mæli.

Það er lágmark að þeir geri það áður en stjórnendur þeirra svo mikið sem íhuga hækkun vaxta.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórn Íslands beiti þeim tækjum sem hún hefur til að láta bankana skila vaxtalækkunum síðasta árs til neytenda og banna þeim að hækka vexti frekar fyrr en það hefur verið gert. Stýrivextir seðlabankans eiga ekki að vera eins og hlaðborð fyrir bankana til að velja það sem þeim hentar hverju sinni.

Til hvers er seðlabankinn ef bankarnir þurfa ekki að fylgja fordæmi hans nema þeir vilji það sjálfir og hvernig eiga stýritæki hans að virka þegar svo er?

 

Krefjum bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki!

Látum bankana greiða skuldir sínar við heimilin!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

 

 

Lesa áfram...

Heimilin eiga inni allt að 250% vaxtamun

Fréttatilkynning

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að bankarnir dragi vaxtaokur og vaxtahækkanir sínar til baka og geri þeir það ekki að eigin frumkvæði grípi stjórnvöld til þeirra úrræða sem þau geta til að stöðva þessa ósvinnu. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka kröfu sína fyrir hönd heimilanna í landinu um að bankarnir taki á sig byrðarnar með öðrum í samfélaginu og benda á þá staðreynd að heimilin eiga inni hjá bönkunum allt að 250% vaxtamun á húsnæðislánum.

Neytendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að sú lækkun nái strax fram að ganga.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það er ólíðandi að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa, ekki síst í núverandi árferði.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum