Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Hver er afstaða seðlabankastjóra til verðtryggingar?

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur svo sannarlega komið með ferskan andblæ inn í æðstu stjórn peningamála hér á landi eftir að hann tók við embættinu. Engu að síður hefur verið nokkuð erfitt að lesa úr yfirlýsingum hans skýra afstöðu með eða móti verðtryggingu lána til neytenda. Þó er ljóst að Ásgeir er vel meðvitaður um andúð þorra almennings á verðtryggingunni.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu 1. júlí sl. sagðist Ásgeir “vona að við séum að komast á þann stað núna að sá árangur sem við höfum náð í bar­áttunni við verð­bólgu leiði til þess að [óverðtryggð] nafn­vaxta­lán geti tekið við” af verðtryggðum lánum. Hann sagðist þó sjá fyrir sér að það gerðist með náttúrulegum hætti, en sæi samt ekki tilganginn með því að banna verðtryggð lán. Þessi ummæli hafa vakið furðu margra, þar á meðal Hagsmunasamtaka heimilanna, og vakið ýmsar spurningar.

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtryggð lán flokkast sem lán með neikvæðri afborgun (e. negative amortisation) eða að vegna neytendaverndarsjónarmiða eru lán sem hafa slíka eiginleika bönnuð í 25 ríkjum Bandaríkjanna og þarlendar stofnanir og félagasamtök hafa varað sérstaklega við þeim? Veit seðlabankastjóri ekki að lán með slíka eiginleika eru einnig bönnuð í mörgum Evrópulöndum? Telur seðlabankastjóri þessar aðgerðir stjórnvalda þeirra ríkja vera tilgangslausar?

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtryggð lán auka hættuna á fjármálalegum óstöðugleika með því að auka hlutfall spákaupmennskulántakenda (e. speculative borrowers)?

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtrygging lána heimilanna þvælist fyrir peningastefnu seðlabankans og gerir honum þannig erfiðara að ná verðbólgumarkmiði sínu? Veit seðlabankastjóri ekki að þetta knýr seðlabankann til þess að beita stýrivaxtatæki sínu af meiri hörku en ella sem leiðir til hærra og óstöðugra vaxtastigs en ef lán heimilanna væru almennt óverðtryggð?

Veit seðlabankastjóri ekki að hærra og óstöðugra vaxtastig vegna útbreiðslu verðtryggðra lána ýtir undir vaxtamunarviðskipti og gjaldeyrisbólur sem gera gengi krónunnar óstöðugra en ella? Veit hann ekki að vegna mikils vægis innfluttra vara í vísitölu neysluverðs leiðir óstöðugra gengi til óstöðugri verðbólgu og gerir seðlabankanum erfiðara en ella að hemja slíkar sveiflur?

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtrygging ýtir undir útlánagetu banka og eykur þannig peningamagn í umferð sem myndar vítahring víxlverkunar verðbólgu og peningalegrar þenslu?

Hagsmunasamtök heimilanna telja reyndar að seðlabankastjóri viti flest af því sem hér hefur verið rakið og hafa því óskað eftir fundi með honum til að ræða nánar um skaðleg áhrif verðtryggingar á heimilin og hagkerfið.

Lesa áfram...

Rangfærslur í Silfrinu

Hagsmunasamtök heimilanna harma rangfærslur í Silfrinu og senda því frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Helga Guðrún Jónasdóttir, frambjóðandi til embættis formanns VR, var gestur í Silfrinu á RÚV í gær, sunnudaginn 28. febrúar. Þar hélt frambjóðandinn því fram að það væri rangt að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefði gerst brotleg við lög með því að ákveða að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána í maí 2019.

Hið rétta er að með því að taka sér geðþóttavald til að hækka vexti sjóðfélagalána umfram það viðmið sem lá þeim til grundvallar, braut stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gegn lögum um neytendalán og réttindum sjóðfélaga sinna, sem eru margir hverjir félagsmenn í Hagsmunasamtökum heimilanna. Á vettvangi samtakanna varð strax ljóst að ákvörðunin væri í andstöðu við lög um neytendalán og var því komið á framfæri við Ragnar Þór Ingólfsson formann VR, ásamt því að beina formlegri kvörtun til Neytendastofu yfir hækkuninni og þeim skilmálum sem hún byggðist á.

Með ákvörðun nr. 59/2019 dags. 19. desember 2019 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga um neytendalán og tók þannig undir kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna. Lífeyrissjóðurinn áfrýjaði þeirri ákvörðun ekki heldur kaus að una henni, leiðrétta vextina og endurgreiða þá vexti sem höfðu verið ofteknir af sjóðfélögum frá því að hækkunin kom til framkvæmdar. Þannig viðurkenndi stjórn lífeyrissjóðsins að hækkunin hefði verið andstæð lögum, eins og samtökin byggðu kvörtun sína á.

Hagsmunasamtök heimilanna harma ofangreindar rangfærslur og gagnrýna slíkan málflutning, sem gengur gegn lögbundnum réttindum neytenda og er til þess fallinn að gera lítið úr því mikilvæga starfi sem er unnið á vettvangi samtakanna til að verja þau réttindi. Að mati samtakanna fara hagsmunir félagsmanna þeirra, félagsmanna í VR, sem og neytenda almennt, algjörlega saman þegar kemur að vörnum gegn því að auknar álögur séu lagðar á heimili þeirra með geðþóttaákvörðunum sem brjóta í bága við gildandi lög í landinu. Það skýtur því óneitanlega skökku við að frambjóðandi til embættis formanns slíkra samtaka skuli tala gegn réttindum félagsmanna með þessum hætti.

Það er afar mikilvægt að allir sem bjóða sig fram til að gegna störfum í þágu almennings, gæti þess í hvívetna að byggja málflutning sinn á réttum upplýsingum og staðreyndum.

Hagsmunasamtök heimilanna

Lesa áfram...

Vaxtahækkun Arion banka var óheimil

Fréttatilkynning

Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að vaxtahækkun Arion banka á tilteknum flokki húsnæðislána hafi brotið gegn neytendaverndarlögum. Ákvörðunin á rætur að rekja til kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir hönd félagsmanns sem ofgreiddi vexti af tveimur húsnæðislánum í rúm fjögur ár, frá því að Arion banki hækkaði þá í apríl 2015. Sjá niðurstöðu hér.

Lesa áfram...

Hræðsluáróður um óverðtryggð lán

Fréttatilkynning

Nýlega hafa bæði varaseðlabankastjóri og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun talið ástæðu til að vara við því að breytilegir vextir óverðtryggðra lána geti hækkað. Rétt eins og það sé ekki augljóst hvað orðið “breytilegir” þýðir eða neytendur geri sér ekki grein fyrir því að slíkar breytingar geti orðið bæði til hækkunar og lækkunar.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum