Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Vaxtastuðningur dropi í hafið

Vaxtastuðningur dropi í hafið

Vaxtastuðningur ríkisstjórnarinnar er í skötulíki eins og annar „stuðningur“ hennar við heimilin. Hann er í fyrsta lagi varla upp í nös á ketti í samanburði við þann gríðarlega vaxtakostnað sem hefur verið lagður á skuldug heimili landsins og í öðru lagi er honum ráðstafað beint til lánveitenda sem greiðsla inn á höfuðstól fasteignalána.

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu strax í umsögn sinni um málið að upphæðin greiddist sjálfkrafa inn á höfuðstól húsnæðislána sem lækkar greiðslubyrði þeirra mjög lítið. Sem dæmi myndu mánaðarlegar greiðslur af dæmigerðu 50 milljón króna óverðtryggðu láni aðeins lækka um á bilinu 1.300-2.300 krónur með þessu.

Þetta er dropi í hafið og mun ekki bjarga miklu fyrir heimili sem glíma við greiðslubyrði sem hefur hækkað um hundrað sinnum hærri upphæðir á mánuði. Stjórnvöld ættu miklu frekar að einbeita sér að því að lækka vaxtagjöld heimilanna en að færa almannafé aftur til skattgreiðenda með svona sjónhverfingum og kalla það “stuðning”.

Skynsamlegra að skipta stuðningnum á afborganir

Heimili sem eru í vanda vegna vaxtahækkana glíma flest við greiðsluvanda en ekki laka eiginfjárstöðu í fasteign sinni. Með því að velja það að ráðstafa þessum stuðningi inn á afborganir láns í stað þess að greiða hann inn á höfuðstól, er hægt að létta greiðslubyrði næstu mánaða.

Einstaklingar geta mest fengið 150.000 krónur og hjón 250.000. Sé þessum upphæðum skipt niður á afborganir frá 1. september og út árið myndu afborganir einstaklinga lækka um 37.500 á mánuði og hjóna um 62.500 krónur á mánuði. Sennilega munar flest heimili um það.

Rétt er að vekja athygli þeirra sem vilja ráðstafa upphæðinni til lækkunar afborgana og auka þannig ráðstöfunartekjur sínar á síðari hluta ársins 2024 á því að það þarf að velja sérstaklega því ef ekkert er valið fer hún sjálfkrafa inn á höfuðstól lánsins með hæstu eftirstöðvarnar.

Vilji lántakandi samt sem áður ráðstafa upphæðinni inn á höfuðstól er skynsamlegast að velja það lán sem er með hæstu vextina en það eru oftast viðbótarlán með lægri eftirstöðvar en grunnlán.

7 milljarðar af almannafé til lánastofnana

Með glórulausum vaxtahækkunum sínum hefur Seðlabankinn flutt fé heimilanna yfir til lánveitenda á meðan ríkisstjórnir undanfarinna mánaða hafa staðið aðgerðarlausar hjá.

Þar sem heimilin standa augljóslega ekki undir þessum glæpsamlegu vaxtahækkunum, þykist ríkisstjórnin svo koma til móts við heimilin með sérstökum vaxtastuðningi sem fer beint til lánveitenda í stað þess að koma heimilum í greiðsluvanda að gagni.

Þetta er í raun styrkur frá ríkinu til lánastofnana upp á 7 milljarða af fé okkar allra.

Væri ekki bara nær að leysa þetta heimatilbúna og óþarfa vandamál og sleppa þessum ríkisstyrk til lánveitenda, með því að lækka einfaldlega vextina?


_______________________________________________

LEIÐBEININGAR UM RÁÐSTÖFUN VAXTASTUÐNINGS

Ef sá sem á rétt á sérstökum vaxtastuðningin gerir ekki neitt verður upphæðinni sjálfkrafa ráðstað inn á höfuðstól þess láns sem er með hæstar eftirstöðvar. Þetta er ekki endilega hagstæðast fyrir alla og sumir gætu viljað ráðstafa stuðningnum öðruvísi en þá er mikilvægt að velja það sérstaklega. Til að velja aðra ráðstöfun þar að innskrá sig á þjónustusíðu skattsins og opna umsóknareyðublaðið. Þar er hægt að velja um eftirfarandi þrjá möguleika:

- Ráðstöfun inn á höfuðstól láns

- Ráðstöfun inn á afborganir láns

- Ekkert lán er til staðar

Athugið að ef fasteignalán er ekki lengur til staðar, t.d. vegna uppgreiðslu láns án þess að annað lán hafi verið tekið í staðinn, fellur sérstakur vaxtastuðningur niður.

Þegar hakað hefur verið við ráðstöfun þarf svo þar fyrir neðan að velja á hvaða lán skuli ráðstafa stuðningnum. Ef viðkomandi lán kemur ekki fram í listanum t.d. ef það var tekið eftir síðustu áramót og kom því ekki fram á skattframtali, er hægt að skrá það sem nýtt lán með því að velja lánastofnun og slá inn lánsnúmer.

Athugið að ef valið er að ráðstafa inn á afborganir láns og um fleiri en eitt lán er að velja er rétt að gæta þess að velja lán sem er með það háar afborganir að upphæðin nýtist að fullu, því ef hún er ekki fullnýtt í árslok fellur það sem eftir stendur af vaxtastuðningnum niður. Samkvæmt lögum á stuðningurinn að koma til greiðslu eftir miðjan ágúst og má því ætla að hann dreifist á síðustu fjórar afborganir ársins. Það ætti því að vera tiltölulega einfalt að áætla hvort upphæðin muni nýtast að fullu miðað við fjárhæð mánaðarlegra afborgana viðkomandi láns.

Athugið að ef valið er að ráðstafa inn á höfuðstól láns og um fleiri en eitt lán er að velja er alltaf hagstæðast að velja það lán sem ber hæstu vextina. Ef ekkert er valið sérstaklega fer upphæðin sjálfkrafa inn á það lán sem er með hæstar eftirstöðvar en það er ekki endilega hagstæðast. Sem dæmi er algengt að tekin séu grunnlán fyrir stærstum hluta kaupverðs fasteignar upp að tilteknum mörkum og þau eru þá á hagstæðustu vöxtum sem bjóðast, en svo séu tekin viðbótarlán fyrir þeim hluta kaupverðs sem er umfram þau mörk og þau eru alltaf á hærri vöxtum en grunnlánin. Í slíkum tilvikum er því mikilvægt að velja viðbótarlánið eða það sem ber hæsta vexti ef um fleiri lán er að ræða.

Nánari upplýsingar um sérstakan vaxtastuðning eru á heimasíðu Skattsins.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum