Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Yfirlýsing stjórnar

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Seðlabankinn undir stjórn Ásgeirs Jónssonar eru að beita í baráttu við verðbólguna, enda gera þær aðgerðir einungis illt verra fyrir allan þorra almennings á Íslandi. 

Það er líka verulega ámælisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa varla sést á undanförnum vikum og mánuðum á meðan Ísland er að ganga í gegnum einhverja verstu efnahagskrísu í tugi ára, að bankahruninu 2008 undanskildu. Þau hafa með þessu skeytingar- og aðgerðaleysi sýnt hug sinn í verki gagnvart heimilum landsins. Annað gildir um Seðlabankastjóra sem virðist hins vegar hafa tekið stjórnina (á landinu) og gripið til harðra aðgerða sem gera ekkert annað en að fórna heimilum landsins í opið gin bankanna, án þess að þau fái nokkra björg sér veitt. Það verður að draga þá ályktun að þögn sé sama og samþykki og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur styðji þessar aðgerðir.

Stóraukin útgjöld

Til vitnis um fáránleika þessara aðgerða má benda á könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní en þá þegar höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 81.916 krónur á einum mánuði. Af því voru 15.250 krónur vegna hækkunar á mat og bensíni á meðan mánaðarlegar vaxtagreiðslur af 40 milljón króna óverðtryggðu láni höfðu hækkað um 66.666 krónur eða fimmfalt það sem verðbólgan kostaði fjölskylduna.

Daginn eftir að RÚV birti þessa frétt hækkaði Seðlabankinn svo vexti um heilt prósentustig í viðbót sem leiddi til þess að vaxtabyrði þessarar sömu fjölskyldu óx á einu bretti um 33.333 krónur og fór upp í 99.999 sem nær sjöfaldaði byrði þessarar fjölskyldu á einu bretti.

Á sama tíma berast fregnir af methagnaði bankanna, heilum 32 milljörðum á fyrri helmingi þessa árs.

Sá hagnaður samsvarar því að hver einasti Íslendingur í 360.000 manna þjóðfélagi hafi lagt tæpar 90.000 krónur í þennan hagnað sem samsvarar 355.000 á hverja fjögurra manna fjölskyldu á hálfu ári. Haldist hagnaður bankanna eins, en vaxi ekki eins og allar líkur eru á, verða þetta 180.000 á mann og 710.000 þúsund á fjölskylduna sem samsvarar meðalmánaðartekjum einnar fyrirvinnu.

Þetta er ekkert annað en gróf upptaka á ráðstöfunarfé og eignum heimilanna.

Það er ljóst að þó verðbólgan sé illviðráðanleg mun meginhluti heimila ráða við hana en hins vegar munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans steypa mörgum fjölskyldum í auknar skuldir, greiðsluerfiðleika og vanskil sem enda munu með aðförum, nauðasamningum eða heimilismissi.

Við hjá HH þekkjum þessi ferli og það þarf ekki hagfræðing til að sjá að fjölskyldur með meðaltekjur eða minna, munu ekki ráða við tuga þúsunda kostnaðarauka á hverjum mánuði, ofan á verðbólgu sem er alveg nóg fyrir flest heimili að takast á við.

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, ykkar verður ábyrgðin ef svo fer sem horfir. Hagsmunsamtök heimilanna vilja minna ykkur á að ykkar hlutverk er að vernda heimilin en ekki að fórna þeim.

Það skiptir máli að sigrast á verðbólgunni en fyrst og fremst þarf að verja þjóðfélagið, heimilin, fyrir afleiðingum hennar! Við hljótum að geta sammælst um að þið hjálpið ekki heimilunum með því að auka á erfiðleika þeirra með því að margfalda mánaðarleg útgjöld undir því yfirskyni að verið sé að verja þau fyrir áhrifum verðbólgu.

Afdrif heimilanna eru alfarið á ykkar ábyrgð og eitt heimili sem bankarnir hirða VEGNA svokallaðra “aðgerða gegn verðbólgunni” er einu heimili of mikið.

Snúið af þessari braut áður en það verður of seint því almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið!

 

f.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum