Að verja heimilin með því að merja þau
Vextir hafa hækkað um 633% en launþegar eiga að sýna „skynsemi“ í launakröfum.
„Eigi skal höggva“, sagði Snorri Sturluson áður en hann var veginn. Þau orð eiga vel við núna því vaxtahækkun Seðlabankans í morgun er enn einn rýtingur í bakið á heimilum landsins. Aftur skal hoggið í sama knérunn og aftur eru það þau sem minnst hafa og mest skulda sem verst verða úti.
Vaxtahækkanir eru ekki lögmál og alls í ekki í þeim mæli sem Seðlabanki Íslands er að leyfa sér að beita þeim á þessum tímum. Heimili landsins munu langflest standa undir hækkandi vöruverði vegna verðbólgunnar, en þegar „lækningin“ margfaldar byrðar hennar, er hætt við að eitthvað láti undan.
Það er staðreynd að vextir á Íslandi hafa hækkað um 340% á einu ári og 633% frá því þeir voru lægstir í maí í 2021.
340% - 633% hækkun vaxta á rétt rúmlega einu ári!
Fólkið sem tekur þessar ákvarðanir og fer á sama tíma fram á „skynsemi“ í kjaraviðræðum haustsins, er með margfaldar meðaltekjur, skuldar þess vegna væntanlega lítið og finnur því lítið fyrir þessum hækkunum í eigin ranni. Margt af því ber hins vegar beina ábyrgð á því að staðan sé með þeim hætti sem raun ber vitni, sérstaklega varðandi húsnæðismarkaðinn, en er sátt við að velta þeim vanda yfir á varnarlaus heimilin sem eru enn og aftur saklaus fórnarlömb ákvarðana þessa sama fólks.
Þetta er fólkið sem hefur misst öll tengsl við raunveruleika þeirra sem eru á meðallaunum, svo ekki sé minnst á stöðu þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.
Á Norðurlöndunum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, er þessu öðruvísi farið. Þar er allt gert til að koma í veg fyrir að heimilin finni fyrir verðbólgunni í vaxandi húsnæðiskostnaði. Seðlabankar þar hafa vissulega neyðst til að hækka vexti eitthvað, en fara eins varlega í það og þeim er unnt því þar eru stjórnvöld meðvituð um að þeirra hlutverk sé að verja heimilin á meðan íslenskum stjórnvöldum finnst í lagi að merja þau. Á þessu tvennu er risastór munur.
Miðað við breytingar dagsins eru stýrivextir á Norðurlöndunum þessir:
- Ísland 5,5%
- Danmörk -0,1%
- Noregur 1,75%
- Svíþjóð 0,75%
- Finnland 0,5%
Að meðaltali er munurinn á milli stýrivaxta á Íslandi og hinum Norðurlöndunum a.m.k. 615%.
Til ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands
Hagsmunasamtök heimilanna vilja í allri vinsemd benda ríkisstjórn og Seðlabanka Íslands á að aðgerðir þeirra gegn verðbólgunni eru mikið verri en verðbólgan sjálf. Við hvetjum þau til að taka frekar upp sértækar aðgerðir gagnvart þeim sem eru að kaupa sér fasteignir því auknar álögur á þau sem eru ekki í neinum slíkum hugleiðingum hafa engin áhrif á fasteignamarkaðinn. Í stuttu máli, hættið að hækka vexti og auka álögur á heimilin, dragið til baka þær hækkanir sem þegar eru orðnar, leyfið heimilunum að „sigla í gegnum verðbólguna“ án þess að gera bara illt verra og þá munu kjaraviðræður haustsins vafalítið ganga betur fyrir sig.
Til stéttarfélaganna
Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir eindregnum stuðningi við stéttarfélögin sem munu leiða kjaraviðræður haustsins. Launþegar eru heimilin og eins og sakir standa eru stéttarfélögin síðasta vígið sem stjórnvöld yrðu að brjóta til að valta endanlega yfir heimili landsins. Samtökin hvetja leiðtoga þeirra til að semja af þeirri skynsemi sem felst í því að tryggja að launþegar geti haft í sig og á og staðið undir vaxandi húsnæðiskostnaði heimilanna.
Til þeirra sem óttast framtíðina
Hagsmunasamtök heimilanna vilja senda þeim fjölskyldum sem óttast framtíðina hlýjar kveðjur. Hugur okkar er ekki síst hjá þeim sem eru föst á leigumarkaði, því þeirra staða er fyrir löngu orðin verulega slæm en þar er því miður fátt til ráða.
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna munum aldrei hætta að berjast og vitum hvað það er að standa frammi fyrir ofurvaldi leigusala, banka og annarra kröfuhafa.
Það má leita til okkar með því að senda okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og við munum hafa samband. Það er því miður ekki víst að við getum hjálpað öllum en við þekkjum réttindi neytenda á fjármálamarkaði betur en nokkrir aðrir og getum veitt óháða ráðgjöf sem er svo sannarlega ekki í boði hjá þjónustufulltrúum í bönkum. Látið alls ekki plata ykkur yfir í verðtryggð lán, leitið frekar til okkar og við munum leita allra leiða til að þið getið komist hjá því.
Að lokum, til heimilanna í landinu: Nú þurfum við að standa saman. Við erum ekki fóður fyrir fjármálakerfið!
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Ekki er hægt að taka Danmörku með í þennan útreikning því þar eru stýrivextir neikvæðir, en ef miðað er við 0,05% útlánsvexti danska seðlabankans eru stýrivextir á Íslandi 10.900% hærri en það (já þið lásuð rétt)!