Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Verðtryggð lán eru aldrei hagstæð

Verðtryggð lán eru aldrei hagstæð

Í desembermánuði sendu samtökin frá sér aðvörun til neytenda vegna aðgerða og yfirlýsinga Íslandsbanka um verðtryggð lán. Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna varaði við áróðursherferð bankans í Reykjavík síðdegis, þar sem fjallað er um verðtryggð lán sem samkeppnishæfan valkost við óverðtryggð lán eftir lækkun vaxta. Samtökin fordæma yfirlýsingar sem eru til þess fallnar að blekkja neytendur, því verðtryggð lán eru aldrei hagstæðari valkostur í samanburði við óverðtryggð lán. Verðtryggð lán eru einfaldlega aldrei hagstæð. Þau fordæma ekki síður umfjöllun í Viðskiptablaðinu um hlýjan faðm verðtryggingarinnar frá 12. desember, þar sem gefið er í skyn að verðtrygging lána gefi heimilum öryggi sem hægt sé að líkja við hlýjan faðm. Samlíkingin er liður í áróðursherferð bankans.

 

Hér geta félagsmenn og aðrir hlustað á viðtal við formann HH í Reykjavík síðdegis:

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma boð banka í hlýjan faðm verðtryggingarinnar

 

Fréttatilkynning samtakanna frá 15. desember, 2021:

Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

 

Umfjöllun í Viðskiptablaðinu um verðtryggð lán:

Hlýr faðmur verðtryggingarinnar

 

 

Lesa áfram...
Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

Fréttatilkynning 15. desember 2021

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma aðgerðir og yfirlýsingar Íslandsbanka sem eru til þess gerðar að blekkja neytendur til að velja eða skipta yfir í verðtryggð lán að nýju. Neytendur skulu hafa það í huga að bankar eru almennt ekki með hagsmuni neytenda í huga heldur eru hagsmunir þeirra sjálfra og þeirra fjárfesta, ávallt í forgrunni. Í hartnær fjörtíu ár hafa bankarnir makað krókinn á verðtryggðum lánum heimilanna sem hækka og hækka í allt að 25 ár þrátt fyrir að samviskusamlega sé greitt af þeim. 

Eftir þann tíma tekur höfuðstóll lánanna svo smám saman að lækka, hafi lántakandi yfirleitt ráðið við hækkandi afborganir fram að því. En jafnvel þá hækka afborganir áfram í veldisvexti því aðeins þannig næst að greiða niður stórhækkaðan höfuðstól á tilskildum tíma.

Lesa áfram...
Sjálfboðaliðar sem unnu þrekvirki

Sjálfboðaliðar sem unnu þrekvirki

Fréttatilkynning samtakanna frá 6. desember: Í tilefni af alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans (5. desember) vilja Hagsmunasamtök heimilanna þakka fyrir og vekja athygli á starfi sjálfboðaliða á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna eftir hrun. Eftir gjaldþrot bankanna 2008 og þegar stofnanir samfélagsins brugðust stigu sjálfboðaliðar í stjórn og aðrir velunnarar samtakanna inn í neyðina og veittu stuðning. 

Starf þeirra var umfangsmikið og í raun þrekvirki í mikilli neyð fólks í mörg ár. 

Hagsmunasamtök heimilanna eru þekkt fyrir þátttöku sína í opinberri umræðu um ýmis hagsmunamál heimilanna í hruninu. Það sem minna eða jafnvel lítið sem ekkert hefur verið fjallað um, er stuðningur og aðstoð samtakanna við heimili og fjölskyldur sem stóðu varnarlaus gagnvart ofurvaldi ríkisins og fjármálafyrirtækja. Lengi vel var sú vinna eingöngu innt að hendi af sjálfboðaliðum í stjórn samtakanna. Síðar tók starfsmaður þeirra við lögfræðilegri aðstoð og þjónustu við félagsmenn. Það er staðreynd að fjölmörg heimili glíma enn við langtíma afleiðingar gjaldþrota bankanna sem ekki hefur verið fjallað nægilega vel um á opinberum vettvangi. 

Stofnanir brugðust í efnahagshruninu, (sjá nánar).

 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Lesa áfram...
Stofnanir brugðust í hruninu

Stofnanir brugðust í hruninu

Það er skýr afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna, að öll heimili eigi rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri lögfræðiráðgjöf og réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Afstaða samtakanna byggir á reynslu þeirra af efnahagshruninu og langvarandi áhrifum gjaldþrota bankanna 2008 á lífsskilyrði félagsmanna og annarra sem til samtakanna hafa leitað. 

Fólk var varnarlaust

Á árunum eftir hrun var eignarréttur fólks lítilsvirtur og fjölskyldur sem neyddust til að selja heimili sín festust í kjölfarið á ómannvænum leigumarkaði til langs tíma, án lánstrausts. Þetta fólk hafði þó ekkert rangt gert. Lán stökkbreyttust eftir gjaldþrot bankanna og hækkun greiðslubyrðar var mörgum ofviða en það sem meira var, bankarnir og lánastofnanir beittu ófyrirséðri hörku við innheimtu lána og gjaldfellingu þeirra. Stjórnkerfið og stofnanir eins og Alþingi og Umboðsmaður skuldara brugðust þessum fjölskyldum. Þrátt fyrir að lánveitendum væri skylt að gera upp eftir nauðungarsölur miðað við fullt markaðsverð fasteigna kröfðu þeir lántakendur engu að síður um meintar eftirstöðvar lána og skráðu fólk á vanskilaskrá til margra ára. Fólk var varnarlaust. Óteljandi álitamál fóru í gegnum dómskerfið og kærunefndir, með takmörkuðum árangri fyrir lántakendur og eini raunverulegi stuðningurinn var á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna. Langvinn áhrif hrunsins á lífsskilyrði stórs hóps félagsmanna hafa hvorki verið viðurkennd né rannsökuð. Enn leita félagsmenn í ráðgjöf til að leysa úr þessum langtímavanda, þó mikið vatn hafi runnið til sjávar.

Lesa áfram...
Vaxtahækkanir eru ekkert lögmál og engin þörf á þeim

Vaxtahækkanir eru ekkert lögmál og engin þörf á þeim

Hagsmunasamtök heimilanna senda áskorun til  ríkisstjórnarinnar og lánveitenda um að halda aftur af vaxtahækkunum.

Samtökin vekja athygli á hvernig heimilin eru nú sem oftar, gjörsamlega berskjölduð fyrir vaxtaákvörðunum lánastofnana.

Eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki í ársbyrjun hafa meginvextir Seðlabanka Íslands verið hækkaðir þrisvar, um 0,25 prósentustig í hvert skipti. Flestir lánveitendur hafa fylgt þeim hækkunum dyggilega eftir með sambærilegum hækkunum á vöxtum húsnæðislána og þannig lagt auknar fjárhagslegar byrðar á stærstan hluta íslenskra heimila.

Lesa áfram...
Svik á svik ofan

Svik á svik ofan

Alþingismenn á Íslandi halda áfram að svíkja þjóðina og verja hagsmuni fjármálakerfisins. Hvergi á Vesturlöndum, nema á Íslandi er verðtrygging á fasteignalánum eða öðrum neytendalánum heimilanna. Lán með svipaða eiginleika hafa víðast  hvar verið bönnuð vegna neytendaverndarsjónarmiða. Hér halda hins vegar alþingismenn belti og axlaböndum á fjármálakerfinu á kostnað almennings. Verðtrygging lána og húsaleigu bitnar verst á lág- og millitekjuhópum og er því fátækragildra.

Lesa áfram...
Svör framboða við spurningum um málefni heimilanna

Svör framboða við spurningum um málefni heimilanna

Nú í aðdraganda Alþingiskosninga 2021 beindu Hagsmunasamtök heimilanna spurningum til stjórnmálaflokka um afstöðu þeirra til ákveðinna málefna sem snerta hagsmuni heimilanna. Við birtum nú þau svör sem hafa borist frá þeim tíu sem hafa lagt fram framboðslista á landsvísu, í stafrófsröð eftir heiti framboðs. Nokkur framboð hafa ekki svarað og eitt svaraði ekki fyrri hluta spurninganna, en þögn þeirra er metin sem svo að þeir hafi kosið að "skila auðu" um viðkomandi málefni. Vonandi geta þau svör sem hafa borist gagnast félagsmönnum samtakanna til að móta kosningavilja sinn.


Fyrst koma 6 krossaspurningar þar sem svarmöguleikarnir voru já eða nei.

1. Er þitt framboð fylgjandi því að fella heimildir til verðtryggingar lána til neytenda brott úr lögum?

 • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands.
 • Nei: Samfylkingin, Viðreisn:

2. Er þitt framboð fylgjandi því að lögfesta rétt neytenda með eldri verðtryggð lán til að fá þeim breytt í óverðtryggð lán án íþyngjandi kostnaðar og skilyrða?

 • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands.
 • Nei: Viðreisn.

3. Er þitt framboð fylgjandi því að afnema stimpilgjöld vegna kaupa á íbúðarhúsnæði?

 • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

4. Er þitt framboð fylgjandi því að Alþingi skipi Rannsóknarnefnd sem verði falið að vinna skýrslu um áhrif bankahrunsins og afleiðinga þess á heimilin og afdrif þeirra í kjölfarið, sem kalla mætti “Rannsóknarskýrslu heimilanna”?

 • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

5. Er þitt framboð fylgjandi því að Ísland undirriti og fullgildi valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi?

 • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

6. Er þitt framboð fylgjandi endurskoðun á lögum um nauðungarsölu, aðför og öðrum lögum á tengdum sviðum, til að bæta réttarstöðu neytenda gegn kröfuhöfum?

 • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

Samanlagður fjöldi krossaspurninga sem hvert framboð svaraði játandi:

 • Flokkur fólksins: 6
 • Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn: 6
 • Píratar: 6
 • Sósíalistaflokkur Íslands: 6
 • Samfylkingin: 5
 • Viðreisn: 4

Eftirfarandi framboð skiluðu auðu við krossaspurningunum:

 • Framsóknarflokkurinn
 • Miðflokkurinn
 • Sjálfstæðisflokkurinn
 • Vinstri hreyfingin - grænt framboð

Næst koma 4 efnisspurningar sem framboðin gátu svarað hvernig sem þau vildu.

7. Hvernig telur þitt framboð best að tryggja nægilegt framboð viðunandi íbúðarhúsnæðis á hóflegu verði fyrir meðal- og lágtekjufólk?

Flokkur fólksins:

 • Tryggja þarf nægt framboð á byggingarlóðum fyrir íbúðarhúsnæði.
 • Íbúðalóðir eiga að vera seldar á kostnaðarverði, húsnæði er lífsnauðsyn sem á ekki að vera háð duttlungum markaðsbrasks.
 • Skipulags- og byggingareglugerðir mega ekki fela í sér og íþyngjandi skilyrði sem auka byggingarkostnað að óþörfu.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

 • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

 • Byggja fleiri íbúðir.
 • Tryggja framboð á félagslegu húsnæði, nemendaíbúðum og dvalarúrræðum fyrir eldra fólk.

Samfylkingin:

 • Efla almenna íbúðarkerfið með mun fleiri stofnstyrkjum til sveitarfélaga, stéttarfélaga og óhagnaðardrifinna félagasamtaka.

Sósíalistaflokkur Íslands:

 • Við munum byggja 30.000 félagslegar íbúðir á næstu tíu árum.

Viðreisn:

 • Með því að binda gengi krónunnar við evru er hægt að ná vöxtum niður og skapa heilbrigðara vaxtaumhverfi í líkingu við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Með bindingu krónunnar við evru skapast fyrirsjáanleiki sem gerir verðtryggingu óþarfa, líkt og í öðrum löndum. Hún mun því hverfa í kjölfarið.
 • Samhliða þessu þarf að tryggja nægilega uppbyggingu nýrra íbúða til að umframeftirspurn skapist ekki á markaðnum og þrýsti verðum upp. Fullnægjandi byggingarmagn næst með því að skipulag taki mið af raunverulegri þörf og með því að tryggja að regluverkið sé ekki of íþyngjandi. Þetta tvennt er til þess fallið að gera húsnæðismarkaðinn aðgengilegri fyrir meðal- og lágtekjufólk.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

 • VG hefur talað fyrir áframhaldandi uppbyggingu og eflingu almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána.
 • Til að tryggja nægilegt framboð af mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum þarf aukinheldur að fjölga úrræðum til að koma til móts við ólíkar þarfir fólks.
 • Til greina kemur að opna á möguleikann á búsetuskyldu í húsnæði í þéttbýli að tilteknum skilyrðum uppfylltum, eins og þekkist í nágrannalöndum okkar.
 • Útgangspunkturinn á að vera að húsnæði sé mannréttindamál og að öll þurfum við þak yfir höfuðið.
 • Hið opinbera þarf að setja kraft og fjármagn á komandi árum til að efla þessi kerfi en einnig er mikilvægt að líta til þátta eins og samgangna svo að hagstætt húsnæðisverð étist ekki upp í hærri samgöngukostnaði. Hagstjórnin þarf einnig að halda áfram að vera skynsöm til að tryggja gott atvinnustig og skikkanlegt vaxtastig í landinu og að vaxtastigið skili sér til neytenda.

8. Hvernig telur þitt framboð best að tryggja húsnæðisöryggi heimila í eigin húsnæði og á leigumarkaði og verja þau fyrir óvæntum áföllum á borð við efnahagskreppu, atvinnuleysi, slys, sjúkdóma eða annað sem getur skert greiðslugetu þeirra?

Flokkur fólksins:

 • Enginn á að vera sviptur heimili sínu vegna aðstæðna sem hann hefur ekki stjórn á eða er valdur að.
 • Leita þarf leiða til að hjálpa fólki yfir tímabundna erfiðleika sem geta komið upp á lífsleiðinni, svo sem vegna slysa, veikinda, atvinnuleysis og annarra ófyrirséðra atburða.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

 • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

 • Stöðugleiki í efnahagsmálum til þess að gerðir samningar standist.
 • Nægt framboð á íbúðum.
 • Að tillitssemi sé ríkjandi viðhorf þegar kemur að húsnæðisöryggi fólks.

Samfylkingin:

 • Með húsnæðisbótum sem taka tillit til aðstöðu fólks og fjölskyldustærðar.

Sósíalistaflokkur Íslands:

 • Við munum byggja 30.000 félagslegar íbúðir á næstu tíu árum.

Viðreisn:

 • Með því að stuðla að heilbrigðu vaxtaumhverfi drögum við úr fasteignakostnaði allra, bæði í eigin húsnæði og á leigumarkaði. Það gefur fólki aukið ráðstöfunarfé og svigrúm til að mæta óvæntum áföllum. Fjölskyldur í landinu eiga ekki að borga fyrir það að við höldum uppi sveiflukenndum og dýrum gjaldmiðli.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

 • Líkt og fram kom í ofangreindu svari telur VG það mikilvægt að halda áfram að efla félagslegu húsnæðiskerfin eins og almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlánakerfið og halda áfram að fjölga úrræðum.
 • Það er einnig lykilatriði halda áfram að efla félagslegu framfærslukerfin þannig að öryggisnetið sé nógu þétt til að grípa fólk og tryggja framfærslu þess í hvers konar áföllum.

9. Hvernig telur þitt framboð best að styrkja réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði?

Flokkur fólksins:

 • Það er grundvallaratriði að efla og styðja við óháð samtök sem berjast fyrir réttindum og heildarhagsmunum neytenda á fjármálamarkaði. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ein verið að gera þetta í rúman áratug eins og hægt er í sjálfboðavinnu gegn til dæmis SFF og öðru ofurvaldi lánastofnana og allra þeirra sem lána og höndla með peninga sem eru með fullt af fólki á góðum launum við að berjast gegn réttindum neytenda og almennings í landinu.
 • Komi í ljós að óréttmætir skilmálar séu í stöðluðum samningum eiga þeir skilmálar að falla sjálfkrafa niður og ekkert annað að koma í staðinn, svo að fjármálafyrirtækið sem samdi skilmálana finni fyrir afleiðingum gjörða sinna. Þetta kemur fram í þeim lögum sem við erum búin að innleiða en hefur ekki verið virt af stjórnvöldum eða dómskerfinu hingað til, því miður.
 • Tryggja þarf rétt neytenda sem verða fyrir barðinu á óréttmætum viðskiptaháttum að fá tjón sitt bætt að fullu þannig að tjónvaldurinn finni fyrir því.
 • Auka þarf aðgang neytenda og samtaka þeirra að dómstólum og öðrum viðeigandi réttarúrræðum til að leita réttar síns vegna ólögmætrar háttsemi.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

 • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

 • Gott samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit og aðrar eftirlitsstofnanir.
 • Skýr viðurlög við brotum.
 • Svo þurfum við öfluga Neytendastofu, Neytendasamtök og meira gagnsæi í öllum neytendamálum.

Samfylkingin:

 • Með lagasetningu sem tryggir neytendavernd á fjármálamarkaði og með kröfum á fjármálafyrirtæki um skýrar upplýsingar til neytenda.
 • Fleiri tegundir banka, s.s. samfélagsbanka og viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingabanka hins vegar leiðir til samkeppni á fjármálamarkaði til hagsbóta fyrir neytendur. Ríkjandi fákeppni á fjármálamarkaði bitnar á neytendum.

Sósíalistaflokkur Íslands:

 • Með nýrri neytendalöggjöf sem takmarkar vald fjármálafyrirtækja til að ákvarða einhliða kjör og kostnað.

Viðreisn:

 • Neytendamál hafa verið hornreka í íslenskri stjórnsýslu. Við þurfum að styðja við eftirlitsstofnanir á sviði neytendamála, eins og Neytendasamtökin, og tryggja að löggjöfin sé sanngjörn.
 • Aðstöðumunur neytenda og fjármálastofnana er mikill og við getum unnið gegn honum m.a. með því að tryggja að innheimtukostnaður sé innan eðlilegra marka, með því að gera neytendum kleift að sækja bætur vegna samkeppnislagabrota og með því að fjölga þeim verkfærum sem neytendum standa til boða, t.d. með því að heimila hópmálsóknir.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

 • VG hefur í sinni neytendastefnu að auka neytendavernd meðal annars á fjármálamarkaði og talað fyrir heildstæðri löggjöf á sviði neytendamála. Í þeim efnum má til dæmis líta til nágrannalanda okkar.
 • Mikilvægt er að skapa fyrirsjáanleika og festu fyrir neytendur og að þeir sitji ekki í súpunni við áföll heldur að áhættunni sé skipt á sanngjarnan hátt og að fjármálastofnanir hafi það að leiðarljósi að aðstoða fólk í að vinna sig í gegnum vanda.

10. Hvað telur þitt framboð mikilvægast að gera til að tryggja öllum óháð stétt og stöðu að lágmarki nægilega framfærslu til að lifa hófsömu og mannsæmandi lífi?

Flokkur fólksins:

 • Þetta eru nokkur af stefnumálum flokksins sem svara þessari spurningu ágætlega:
 • Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust.
 • Skattleysismörk verði hækkuð í 350.000 kr. á mánuði.
 • Við munum koma á nýju almannatryggingakerfi, sem tryggir lágmarksframfærslu. Komum í veg fyrir að óskiljanlegar og víxlverkandi skerðingarreglur læsi fólk í fátæktargildru.
 • Við munum hækka frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna frá 25.000 kr. upp í 100.000 kr.
 • Við ætlum að leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna.
 • Við ætlum að heimila öllum öryrkjum sem treysta sér til, að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga og án þess að örorka þeirra sé endurmetin.
 • Fyrir frekari upplýsingar sjá stefnumál flokksins á www.flokkurfolksins.is

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

 • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

 • Það er margt sem þarf að passa saman til þess að halda jafnvægi hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar þannig að þær standi rúmlega undir framfærslu.
 • Það þarf heilbrigðan húsnæðismarkað þar sem meira að segja fólk á lágmarkslaunum geta eignast húsnæði.
 • Það þarf stöðugleika til þess að viðhalda kaupmætti.
 • Það þarf hágæða heilbrigðisþjónustu þar sem fólk þarf ekki að velja á milli heilsu og að eiga fyrir mat.
 • Það þarf aðgengilegt menntakerfi sem býður öllum upp á tækifæri til þess að læra og gera meira.
 • Það er engin töfralausn. Það þarf stöðugt að viðhalda þessu jafnvægi.

Samfylkingin:

 • Öflug stéttarfélög sem semja um mannsæmandi laun. Verja rétt launafólks á vinnumarkaði og vinna gegn brotum á vinnumarkaði.
 • Barnabætur hækkaðar þannig að barnafólk með meðaltekjur fái óskertar barnabætur.
 • Tryggja að lífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun en mikill munur er þar á núna.
 • Efla húsnæðisbótakerfið sem tekur tillit til fjölskyldustærðar.
 • Peningastefna Seðalabankans og efnahagsstefna ríkisstjórnar togi vagninn í sömu átt til að halda verðbólgu niðri og vöxtum lágum.
 • Innganga í ESB og skipta krónunni út fyrir evru er mikið hagsmuna mál fyrir heimilin í landinu.

Sósíalistaflokkur Íslands:

 • Við viljum að ellilífeyrir og örorkubætur fylgi ávallt lágmarkslaunum þar til opinbert framfærsluviðmið hefur verið lögfest.

Viðreisn:

 • Eitt stærsta hagsmunamál neytenda að halda vöxtum og verðbólgu í skefjum og koma á stöðugleika í gengismálum. Það verður best gert með því að byrja á því að festa gengi krónunnar við evru. Þannig getum við dregið úr húsnæðiskostnaði og matarkostnaði heimilanna.
 • Því til viðbótar þarf að tryggja jaðarsettum hópum, á borð við lífeyrisþegum og atvinnulausum, fullnægjandi stuðning. Viðreisn berst fyrir því að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum og að dregið sé verulega úr skerðingum.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

 • Það þarf að leggja áherslu á ýmis atriði til að tryggja öllum nægilega framfærslu til að lifa mannsæmandi lífi.
 • Til að mynda er mikilvægt að halda áfram hækka laun þeirra lægst launuðu í samfélaginu í kjarasamningum sem og að hækka atvinnuleysisbætur.
 • Það skiptir jafnframt miklu máli að samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða sé þannig að fólk hafi mannsæmandi framfærslu hvort það sem er á örorkulífeyri eða ellilífeyri og fari ekki niður fyrir ákveðin mörk í þeim efnum. Líkt og í kjarasamningum þarf að huga að því að hækka framfærslu þeirra sem lægstu framfærsluna hafa.
 • Í atvinnumálum er mikilvægt að skapa verðmæt störf hér á landi, til dæmis í grænum atvinnugreinum og öðrum þekkingargeirum en einnig með því að vinna hráefni eins og fisk að mestu leyti hér á landi.
 • Halda þarf áfram byggingu hagkvæms húsnæðis í almenna íbúðakerfinu og efla það kerfi áfram svo allir geti haft aðgang að leiguhúsnæði á viðráðanlegum og sanngjörnum kjörum með fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi að leiðarljósi. Að sama leyti þarf að efla hlutdeildarlánakerfið.
 • Það má einnig segja að hagstjórnin öll þurfi að halda áfram að miða að því að bæta líf fólksins í landinu og skapa velsældarhagkerfi þar sem litið er til ýmissa ólíkra þátta þegar hagsæld og lífsgæði eru mæld í stað þess að einblína eingöngu á hagvöxt.

Eftirfarandi framboð skiluðu auðu við efnisspurningunum:

 • Framsóknarflokkurinn
 • Miðflokkurinn
 • Sjálfstæðisflokkurinn
Lesa áfram...
Fólk leitar til samtakanna vegna hrunskulda

Fólk leitar til samtakanna vegna hrunskulda

Viðtal við formann Hagsmunasamtaka heimilanna í Reykjavík síðdegis - 26. ágúst síðastliðinn hefur vakið athygli. Fólk hefur í kjölfarið leitað til samtakanna eftir ráðgjöf og nýir félagsmenn hafa bæst í hópinn. Í viðtalinu vakti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Ásthildur Lóa Þórsdóttir athygli á því að ennþá sé fólk fast á vanskilaskrá vegna gamalla hrunskulda.

Oftar en ekki er um að ræða einstaklinga sem misstu heimili sitt í hruninu. Húsnæðið var selt á uppboði undir markaðsverði og jafnvel þó bankinn sé fyrir löngu búinn að fá greitt að fullu upp í sína kröfu, þá er fólk ennþá fast á vanskilaskrá og fær enga fyrirgreiðslu. Hrunið er því miður enn að hafa áhrif á lífsskilyrði fólks sem missti eigur sínar vegna gjaldþrota bankanna. Það er fyrir löngu orðið tímabært að þessir einstaklingar endurheimti líf sitt. 

Samtökin hafa lengi vakið athygli á málefnum þessa hóps en mætt daufum eyrum. Við munum halda áfram að halda málefnum þeirra á lofti, ásamt öðru sem úr þarf að bæta í viðskiptum venjulegs fólks á fjármálamarkaði.

Reykjavík síðdegis: Margir sem fóru illa út úr hruninu komast ekki af vanskilaskrá - Reykjavík síðdegis 26. ágúst

 

Hagsmunasamtök heimilannaLesa áfram...
Óháð ráðgjöf og réttindagæsla á fjármálamarkaði

Óháð ráðgjöf og réttindagæsla á fjármálamarkaði

Sendu okkur fyrirspurn á  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  ef þú þarfnast óháðrar ráðgjafar vegna viðskipta þinna við fjármálastofnanir.

Hagsmunasamtök heimilanna bjóða félagsmönnum og öðrum sem til samtakanna leita óháða lögfræðiráðgjöf á fjármálamarkaði.

Við leggjum áherslu á að svara öllum fyrirspurnum og eins fljótt og kostur er. 

Í mikilvægum lánaviðskiptum, eins og fasteignalánum þarf venjulegt fólk að hafa aðgang að óháðri ráðgjöf án aðkomu bankanna. 

Einokun bankanna í ráðgjöf á fjármálamarkaði er tímaskekkja. Þú átt rétt á óháðri ráðgjöf. Ekki hika við að hafa samband.

 

Réttindagæsla á fjármálamarkaði

Samstaða og samtakamáttur vega þungt í mikilvægum réttindamálum og bættum kjörum. Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 í kjölfar gjaldþrota bankanna. Síðan þá hafa samtökin staðið vörð um réttindi heimilanna í viðskiptum á fjármálamarkaði með baráttu í margvíslegum hagsmunamálum. Einn veigamikill hlekkur í starfsemi samtakanna hefur einmitt verið aðstoð og ráðgjöf til félagsmanna. Samtökin stefna að því að efla og styrkja þá starfsemi og vilja nú bjóða aðild að samtökunum og með því aðgang að óháðri ráðgjafaþjónustu. Árgjald Hagsmunasamtaka heimilanna er 4.900 krónur og er valkvætt. Aðild er því eins hagstæð og sveigjanleg og nokkur kostur er. 

Við viljum því bjóða þér að skrá þig í samtökin. Það getur þú gert hér: Félagaskráning í Hagsmunasamtök heimilanna.

Við erum 8.400 og viljum verða miklu fleiri!Lesa áfram...
Bankarnir skulda heimilunum lægri vexti

Bankarnir skulda heimilunum lægri vexti

Aðstöðumunur á milli banka og neytenda er bæði augljós og áþreifanlegur og komi upp ágreiningur þarf því miður sjaldnast að spyrja að leikslokum.

Þessi aðstöðumunur blasir nú við í formi vaxtahækkana. 

Við höfum seðlabanka á Íslandi sem notar stýrivexti til að hafa áhrif á hagkerfið, bæði til að auka eða draga úr þenslu eftir þörfum.

En fyrir hvern eru þessar vaxtastýringar og hvernig eiga þær að hafa tilætluð áhrif ef þær skila sér ekki á lán heimilanna nema til hækkunar?

Þegar stýrivextir seðlabankans lækka er allt annað upp á teningnum. Þá er eins og seðlabankinn og bankarnir séu í sitthvoru hagkerfinu og engar tengingar á milli. 

Þó að bankarnir hafi lækkað vexti hefur samt munað á bilinu 170% - 250% á því sem vextir ættu að vera ef vaxtalækkanir seðlabankans skiluðu sér til neytenda og því sem þeir eru í reynd.

Þessa skuld við neytendur, heimilin í landinu, verða bankarnir að gera upp og greiða!

 

Tölur um vaxtalækkanir 

Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,5%. Síðan þá hafa þeir í skrefum verið lækkaðir niður í 0,75%, en hafa nú nýlega hækkað upp í 1,25%. Stýrivextirnir eru því núna 72% lægri en í byrjun vaxtalækkunarferlisins.

Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu óverðtryggðir vextir íbúðalána hjá bönkunum 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 3,45%, eða um einungis 42,5%.

Ef óverðtryggðir bankavextir hefðu hins vegar þróast á sama hátt og stýrivextir og lækkað um 72% ættu þeir núna að vera um það bil 1,7%.

Verðbólga er nú 4,3% þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera orðnir neikvæðir -0,85%, en eru nú lægstir 1,9% hjá bönkunum.

 

Munurinn á því sem er og því sem ætti að vera

Þegar litið er á mismuninn á tölunum 1,7% og 3,45% þá eru þetta „einungis“ 1,75 prósentustig sem virðist ekki vera mikið. Svona hækkun á mjólkurlítranum myndi ekki hreyfa neitt sérstaklega við okkur enda erum við öllu vön í þeim efnum.

En þegar um er að ræða tugmilljóna króna húsnæðisskuldbindingar okkar skipta þessi prósentustig verulegu máli. Vextirnir eru nú 200% hærri en þeir ættu að vera og lengi vel munaði heilum 250%.

Þrátt fyrir þennan gríðarlega mun er sagt að neytendur eigi að búa sig undir vaxtahækkanir, því núna þegar seðlabankinn hækkar sína stýrivexti um 0,25% er búist við að bankarnir geri það sama. Þeir eiga samt enn eftir að greiða skuld sína við heimilin vegna vaxtalækkana síðasta árs, sem skiluðu sér ekki til þeirra nema í takmörkuðum mæli.

Það er lágmark að þeir geri það áður en stjórnendur þeirra svo mikið sem íhuga hækkun vaxta.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórn Íslands beiti þeim tækjum sem hún hefur til að láta bankana skila vaxtalækkunum síðasta árs til neytenda og banna þeim að hækka vexti frekar fyrr en það hefur verið gert. Stýrivextir seðlabankans eiga ekki að vera eins og hlaðborð fyrir bankana til að velja það sem þeim hentar hverju sinni.

Til hvers er seðlabankinn ef bankarnir þurfa ekki að fylgja fordæmi hans nema þeir vilji það sjálfir og hvernig eiga stýritæki hans að virka þegar svo er?

 

Krefjum bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki!

Látum bankana greiða skuldir sínar við heimilin!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

 

 

Lesa áfram...
Hver er afstaða seðlabankastjóra til verðtryggingar?

Hver er afstaða seðlabankastjóra til verðtryggingar?

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur svo sannarlega komið með ferskan andblæ inn í æðstu stjórn peningamála hér á landi eftir að hann tók við embættinu. Engu að síður hefur verið nokkuð erfitt að lesa úr yfirlýsingum hans skýra afstöðu með eða móti verðtryggingu lána til neytenda. Þó er ljóst að Ásgeir er vel meðvitaður um andúð þorra almennings á verðtryggingunni.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu 1. júlí sl. sagðist Ásgeir “vona að við séum að komast á þann stað núna að sá árangur sem við höfum náð í bar­áttunni við verð­bólgu leiði til þess að [óverðtryggð] nafn­vaxta­lán geti tekið við” af verðtryggðum lánum. Hann sagðist þó sjá fyrir sér að það gerðist með náttúrulegum hætti, en sæi samt ekki tilganginn með því að banna verðtryggð lán. Þessi ummæli hafa vakið furðu margra, þar á meðal Hagsmunasamtaka heimilanna, og vakið ýmsar spurningar.

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtryggð lán flokkast sem lán með neikvæðri afborgun (e. negative amortisation) eða að vegna neytendaverndarsjónarmiða eru lán sem hafa slíka eiginleika bönnuð í 25 ríkjum Bandaríkjanna og þarlendar stofnanir og félagasamtök hafa varað sérstaklega við þeim? Veit seðlabankastjóri ekki að lán með slíka eiginleika eru einnig bönnuð í mörgum Evrópulöndum? Telur seðlabankastjóri þessar aðgerðir stjórnvalda þeirra ríkja vera tilgangslausar?

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtryggð lán auka hættuna á fjármálalegum óstöðugleika með því að auka hlutfall spákaupmennskulántakenda (e. speculative borrowers)?

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtrygging lána heimilanna þvælist fyrir peningastefnu seðlabankans og gerir honum þannig erfiðara að ná verðbólgumarkmiði sínu? Veit seðlabankastjóri ekki að þetta knýr seðlabankann til þess að beita stýrivaxtatæki sínu af meiri hörku en ella sem leiðir til hærra og óstöðugra vaxtastigs en ef lán heimilanna væru almennt óverðtryggð?

Veit seðlabankastjóri ekki að hærra og óstöðugra vaxtastig vegna útbreiðslu verðtryggðra lána ýtir undir vaxtamunarviðskipti og gjaldeyrisbólur sem gera gengi krónunnar óstöðugra en ella? Veit hann ekki að vegna mikils vægis innfluttra vara í vísitölu neysluverðs leiðir óstöðugra gengi til óstöðugri verðbólgu og gerir seðlabankanum erfiðara en ella að hemja slíkar sveiflur?

Veit seðlabankastjóri ekki að verðtrygging ýtir undir útlánagetu banka og eykur þannig peningamagn í umferð sem myndar vítahring víxlverkunar verðbólgu og peningalegrar þenslu?

Hagsmunasamtök heimilanna telja reyndar að seðlabankastjóri viti flest af því sem hér hefur verið rakið og hafa því óskað eftir fundi með honum til að ræða nánar um skaðleg áhrif verðtryggingar á heimilin og hagkerfið.

Lesa áfram...
Formenn HH og VR funduðu með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra

Formenn HH og VR funduðu með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra

Þann 7. júní sl. áttu formenn Hagsmunasamtaka heimilanna og VR fund með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.

Þau Ásthildur Lóa og Ragnar Þór greindu ráðherrunum frá áhyggjum sínum af stöðu heimilanna í hækkandi verðbólgu vegna afleiðinga heimsfaraldursins og fóru fram á að ráðherranir myndu beita þeim aðgerðum sem þeir ráða yfir til að tryggja að þær afleiðingar muni ekki skella af fullum þunga á heimilum landsins.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum