Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Bankarnir skulda heimilunum lægri vexti

Bankarnir skulda heimilunum lægri vexti

Aðstöðumunur á milli banka og neytenda er bæði augljós og áþreifanlegur og komi upp ágreiningur þarf því miður sjaldnast að spyrja að leikslokum.

Þessi aðstöðumunur blasir nú við í formi vaxtahækkana. 

Við höfum seðlabanka á Íslandi sem notar stýrivexti til að hafa áhrif á hagkerfið, bæði til að auka eða draga úr þenslu eftir þörfum.

En fyrir hvern eru þessar vaxtastýringar og hvernig eiga þær að hafa tilætluð áhrif ef þær skila sér ekki á lán heimilanna nema til hækkunar?

Þegar stýrivextir seðlabankans lækka er allt annað upp á teningnum. Þá er eins og seðlabankinn og bankarnir séu í sitthvoru hagkerfinu og engar tengingar á milli. 

Þó að bankarnir hafi lækkað vexti hefur samt munað á bilinu 170% - 250% á því sem vextir ættu að vera ef vaxtalækkanir seðlabankans skiluðu sér til neytenda og því sem þeir eru í reynd.

Þessa skuld við neytendur, heimilin í landinu, verða bankarnir að gera upp og greiða!

 

Tölur um vaxtalækkanir 

Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,5%. Síðan þá hafa þeir í skrefum verið lækkaðir niður í 0,75%, en hafa nú nýlega hækkað upp í 1,25%. Stýrivextirnir eru því núna 72% lægri en í byrjun vaxtalækkunarferlisins.

Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu óverðtryggðir vextir íbúðalána hjá bönkunum 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 3,45%, eða um einungis 42,5%.

Ef óverðtryggðir bankavextir hefðu hins vegar þróast á sama hátt og stýrivextir og lækkað um 72% ættu þeir núna að vera um það bil 1,7%.

Verðbólga er nú 4,3% þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera orðnir neikvæðir -0,85%, en eru nú lægstir 1,9% hjá bönkunum.

 

Munurinn á því sem er og því sem ætti að vera

Þegar litið er á mismuninn á tölunum 1,7% og 3,45% þá eru þetta „einungis“ 1,75 prósentustig sem virðist ekki vera mikið. Svona hækkun á mjólkurlítranum myndi ekki hreyfa neitt sérstaklega við okkur enda erum við öllu vön í þeim efnum.

En þegar um er að ræða tugmilljóna króna húsnæðisskuldbindingar okkar skipta þessi prósentustig verulegu máli. Vextirnir eru nú 200% hærri en þeir ættu að vera og lengi vel munaði heilum 250%.

Þrátt fyrir þennan gríðarlega mun er sagt að neytendur eigi að búa sig undir vaxtahækkanir, því núna þegar seðlabankinn hækkar sína stýrivexti um 0,25% er búist við að bankarnir geri það sama. Þeir eiga samt enn eftir að greiða skuld sína við heimilin vegna vaxtalækkana síðasta árs, sem skiluðu sér ekki til þeirra nema í takmörkuðum mæli.

Það er lágmark að þeir geri það áður en stjórnendur þeirra svo mikið sem íhuga hækkun vaxta.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórn Íslands beiti þeim tækjum sem hún hefur til að láta bankana skila vaxtalækkunum síðasta árs til neytenda og banna þeim að hækka vexti frekar fyrr en það hefur verið gert. Stýrivextir seðlabankans eiga ekki að vera eins og hlaðborð fyrir bankana til að velja það sem þeim hentar hverju sinni.

Til hvers er seðlabankinn ef bankarnir þurfa ekki að fylgja fordæmi hans nema þeir vilji það sjálfir og hvernig eiga stýritæki hans að virka þegar svo er?

 

Krefjum bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki!

Látum bankana greiða skuldir sínar við heimilin!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

 

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum