Opið bréf til fjármála- og efnahagsráðherra
Álit Hagsmunasamtaka heimilanna á hugmyndum um sölu á hlutafé ríkisins í Íslandsbanka
Hagsmunasamtök heimilanna leggjast alfarið gegn þeirri ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að fallast á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka, að svo stöddu.
Afstaða samtakanna byggist fyrst og fremst á því að ástæða þess að íslenska ríkið á tvo af þremur stóru bönkunum og þar með meirihluta bankakerfisins, er fordæmalaust fjármálahrun árið 2008 sem hafði geigvænlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Fleiri en 10.000 heimili misstu húsnæði sitt og tugþúsundir eru enn í sárum eftir þann hildarleik sem hófst í kjölfar hrunsins.
Fjármálahrunið er sagt hafa verið rannsakað, en við lestur á þeim skýrslum sem hafa verið gefnar út um þær rannsóknir kemur í ljós að þær eiga það allar sameiginlegt að endapunktur þeirra miðaðist við hrunið. Aftur á móti hefur engin slík rannsókn farið fram á atburðum sem gerðust eftir hrunið og skelfilegum áhrifum þeirra á heimili landsins. Samtökin hafa um árabil barist fyrir því að skipuð verði rannsóknarnefnd sem vinni slíka rannsókn og skili af sér Rannsóknarskýrslu heimilanna.
Rannsóknarskýrsla heimilanna er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að gera upp við hrunið og leitast við að græða þau sár sem það skildi eftir sig, að því marki sem kostur er. Án slíkrar rannsóknar og réttmætra viðbragða við niðurstöðum hennar, er hin raunverulega staða fjármálakerfisins óvissu háð því ekki eru öll kurl komin til grafar. Sem dæmi eru enn að koma upp mál þar sem lánastofnanir hafa orðið uppvísar að því að hlunnfara viðskiptavini og þurft að endurgreiða háar fjárhæðir.
Það kemur ekki til greina að selja neitt af eignarhlutum ríkisins í bönkum fyrr en að undangenginni ítarlegri rannsókn og birtingu Rannsóknarskýrslu heimilanna og uppgjöri við þá sem urðu fyrir tjóni vegna framferðis nýju bankanna sem voru stofnaðir á brunarústum hrunbankanna og hinna ýmsu afkvæma þeirra. Tækifæri sem þetta til að endurskipuleggja fjármálakerfið í þágu almennings er ekki víst að komi aftur og það verður að vera í forgangi fyrir einkavæðingarhugmyndum.
Aðrar hugmyndir en einkavæðing hafa ekki heldur verið teknar til nægilega vel ígrundaðrar umræðu. Sem dæmi gæti komið til greina að nýta arð ríkisins af bönkunum til að gera heilt við þá sem fóru illa út úr hruninu án þess að eiga sök á því. Eða breyta þeim í samfélagsbanka sem yrðu reknir þannig að hagnaður af þeim kæmi fram í betri kjörum frekar en mikilli arðsemi af rekstri. Slíkar hugmyndir þarf að taka til umræðu og leggja á þær mat, ekki síður en einkavæðingarhugmyndir.
Margt skýtur skökku við þær hugmyndir sem nú eru uppi um einkavæðingu Íslandsbanka að hluta. Tímasetningin virðist miða að því að koma þessari hrinu einkavæðingar af stað fyrir kosningar í haust, sem er í besta falli grunsamlegt. Öllu verra er þó að talsmenn einkavæðingarinnar hafa ekki fært fram neinar haldbærar ástæður fyrir henni, heldur aðeins hugmyndafræðilegar kenningar.
Hvers vegna að selja (núna eða yfir höfuð)?
Margvíslegar ástæður og markmið með hugmyndum um sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka eða öðrum bönkum hafa verið sett fram sem koma ekki heim og saman við nánari skoðun.
Ekki hlutverk ríkisins að reka banka
Þetta eru ekki rök heldur fullyrðing byggð á þeirri hugmyndafræði að allt sem geti verið einkarekið, eigi að vera það. Öllum er frjálst að hafa slíka lífsskoðun, en þeir sem aðhyllast hana hafa aldrei fært rök fyrir því hvers vegna það sé endilega verra að ríkið eigi banka sem þjóni samfélaginu.