Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Vörum við ríkisafskiptum og höfnum óvissu í vaxtamálum

Vörum við ríkisafskiptum og höfnum óvissu í vaxtamálum

Hagsmunasamtök heimilanna gjalda varhug við þeim viðbrögðum stjórnvalda við dómi Hæstaréttar Íslands í svokölluðu vaxtamáli, að efna til samráðs við Seðlabanka Íslands um að búa til einhverskonar „ríkisvaxtaviðmið“ fyrir verðtryggð lán á breytilegum vöxtum sem á eftir að dæma um.

Dómurinn sem var kveðinn upp 14. október síðastliðinn fjallaði um skilmála í óverðtryggðu láni um breytilega vexti. Fleiri dómsmál um slíka skilmála bíða meðferðar, meðal annars um verðtryggð lán og dómur í einu þeirra er væntanlegur í næsta mánuði. Að svo stöddu er því ótímabært og óábyrgt að draga afgerandi ályktanir og taka ákvarðanir um viðbrögð við dómi sem er ekki enn fallinn.

Viðbrögð stjórnvalda minna nú óþyrmilega á viðbrögð þáverandi stjórnvalda við dómum Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggingar lána í júnímánuði 2010. Þá eins og núna opinberuðust einhver umfangsmestu lögbrot síðari tíma hér á landi. Þá eins og núna töldu stjórnvöld sig þurfa að bregðast við því að hinir brotlegu hefðu hlotið dóm fyrir brot sín með því að “hjálpa” þeim að halda starfsemi sinni áfram undir yfirskini lögmætis. Þá höfðu slík viðbrögð af hálfu stjórnvalda skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir tugþúsundir heimila sem enn liggja óbætt hjá garði. Sporin hræða!

Þá eins og núna bera hinir brotlegu og stjórnvöld þeim við hlið fyrir sig meintri ”óvissu” sem var þá og er núna engin að mati Hagsmunasamtaka heimilanna. Morgunljóst er að árum og áratugum saman hafa bankar og aðrir lánveitendur notað ólöglega skilmála um breytilega vexti sem þeir sömdu sjálfir einhliða og þeir einir eiga að sæta ábyrgð fyrir þau lögbrot. Málshöfðun brotaþola (neytenda) til að leita réttar síns og dómur um brotin breytti engu um þessar staðreyndir nema því að nú eru þau brot á allra vitorði. Þolendur bera enga ábyrgð á því, engum má kenna um nema hinum brotlegu.

Þá eins og núna er ekki heldur nein “óvissa” um afleiðingar brotanna. Hinir brotlegu eiga einfaldlega að endurgreiða neytendum allt fé sem þeir hafa oftekið af þeim á grundvelli hinna ólöglegu skilmála og láta umsvifalaust af frekari oftöku fjár með ólöglegri notkun þeirra. Þá eins og núna er frumskylda stjórnvalda að framfylgja lögum og knýja hina brotlegu til að bæta að fullu allt það tjón sem þeir hafa valdið þolendum brotanna en alls ekki að bjóða hinum brotlegu neina sérmeðferð.

Þá eins og núna er verulega hætta á því að ótímabær og fljótfærnisleg viðbrögð stjórnvalda verði litið á sem einhverskonar skilaboð til dómstóla um “æskilega” niðurstöðu í málum sem á eftir að dæma í. Slík afskipti handhafa framkvæmdarvalds af dómsvaldi brjóta beinlínis í bága við stjórnarskrárbundna þrígreiningu ríkisvaldsins og eru til þess fallin að vega að grunnstoðum réttarríkisins.

Heimilin eiga ekki að vera fóður fyrir bankana!

Sjá til hliðsjónar grein formanns frá 24. október: Ein­faldar lausnir á vaxtamálavanda bankanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum