Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Sala Íslandsbanka - Fjármálaeftirlit

Íslenska ríkið eignaðist Íslandsbanka 2015 og sumarið 2021 fór fram almennt útboð á hlutabréfum ríkisins í bankanum. Í marsmánuði 2022 var hlutur ríkisins aftur til sölu en með tilboðsfyrirkomulagi ætluðu hæfum fjárfestum, í lokuðu útboði í umsjón Bankasýslu ríkisins. Seinna söluferli Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnt. Fjölmargir Alþingismenn kröfðust þess að rannsóknarnefnd yrði skipuð til að fara yfir ferlið. Ríkisstjórnin hafnaði því en fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Jafnframt réðst fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) í athugun á háttsemi söluaðilanna. Samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar 9. janúar 2023 kemur fram í frummati FME að bankinn kunni að hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglna við framkvæmd sölunnar.  

Formaður stjórnar og alþingiskonan Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur gagnrýnt seinna söluferli bankans harðlega, bæði á Alþingi og á opinberum vettvangi. Í nýlegri grein fjallar Ásthildur Lóa um undirlægjuhátt yfirvalda í garð fjármálafyrirtækja í aðsendri grein í Heimildinni. Hún heitir: Að brjóta lög í sátt við yfirvöld. Hér er grein formanns Hagsmunasamtaka heimilanna:

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Íslandsbanki er nú í einhverskonar sáttameðferð hjá Fjármálaeftirlitinu. Enn hefur hvorki verið upplýst um eðli eða alvarleika brota Íslandsbanka, en sagan sýnir að lögbrot fjármálafyrirtækja lúta allt öðrum lögmálum en lögbrot allra annarra og að refsingar, jafnvel fyrir stórfelld brot, hafa verið fáránlega vægar eða jafnvel engar.

Fórnarlömbunum refsað fyrir lögbrot

Á árunum fyrir hrun buðu bankar og önnur fjármálafyrirtæki upp á ólögleg lán. Fjölmargir létu blekkjast og gengu í gildruna. Stjórnendur bankanna og „kerfið“ vissu alveg að gengistryggð lán voru ólögleg. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, ríkisstjórnin og aðrir innan stjórnkerfisins létu þau engu að síður afskiptalaus og gerðu engar athugasemdir við veitingu þeirra svo árum skipti. 

Að auki leyfði Seðlabankinn bönkunum að bókfæra gengislánin sem „erlenda eign“ þannig að þegar einhver gekk í gildruna og tók t.d. 30 milljón króna lán, var lánið skráð sem „erlend eign“ hjá Seðlabankanum. Þannig jókst lánshæfi bankanna stöðugt á erlendum mörkuðum. Þeim mun fleiri ólögleg lán sem þeir veittu, þeim mun meira fé höfðu þeir til að fjárfesta í leikfangaverslunum og hótelkeðjum erlendis, eins gáfulegt og það nú var.

„Kerfið“ vissi af glæpnum og leyfði honum að viðgangast og að lokum skiptu fórnarlömb glæpsins þúsundum, enda var almenningur aldrei upplýstur um að gengislán væru í raun ólöglegir fjármálagjörningar.

Þegar upp komst um glæpinn var það ekki fyrir árvekni yfirvalda, heldur vegna baráttu venjulegs fólks og grasrótarsamtaka eins og Hagsmunasamtaka heimilanna. Glæpurinn var staðfestur en enginn hefur þurft að svara fyrir hann. Fjármálafyrirtækin hafa ekki greitt eina krónu í sektir, hvað þá í skaðabætur til fórnarlamba sinna, og engum innan fjármálakerfisins hefur verið refsað.

Þessum stórfellda glæp var þvert á móti snúið upp á fórnarlömbin. Þeim hefur verið refsað grimmilega fyrir að vera fórnarlömb. Mörg þeirra hafa aldrei borið sitt barr síðan og munu jafnvel aldrei ná sínum fyrri styrk.

Eftir stærsta kennitöluflakk sögunnar fengu „nýju“ bankarnir þessi lán afhent fyrir slikk en innheimtu alveg upp í topp. Þannig festu þau tugi þúsunda fórnarlamba glæpa sinna í skuldafeni og fjármálafyrirtæki hirtu heimilin miskunnarlaust af þeim sem stóðu ekki undir óhóflegum innheimtuaðgerðum, en þeir skiptu þúsundum.

Bankarnir hafa þannig, með blessun nokkurra ríkisstjórna og allra eftirlitsaðila, hagnast verulega á þessum grófu lögbrotum. Fórnarlömb glæpsins hafa hins vegar aldrei átt sér viðreisnar von gegn ofurefli peninga og valds og alla tíð hefur þeim verið neitað um réttlæti.

 

Ásthildur Lóa í mótmælunum við Austurvöll í apríl 2022

 

Drómi - ekki með innheimtuleyfi í fullkominni sátt við FME

Kannski muna einhverjir Dróma. Fyrirtækið varð fljótlega alræmt fyrir að ganga einstaklega harkalega fram í innheimtuaðgerðum gagnvart þeim lántakendum sem þáverandi fjármálaráðherra hafði afhent Dróma á silfurfati.

Á meðan Drómi sendi fjölda heimila, þar á meðal mitt eigið, í uppboðsferli, kom smá babb í bátinn. Árið 2012 var nefnilega bent á að Drómi væri ekki með innheimtuleyfi. FME hóf rannsókn sem lauk undir árslok 2013. Niðurstaða rannsóknarinnar staðfesti þetta og rúmum mánuði síðar voru lánasöfnin færð til Arion banka eða Hildu og Dróma var í kjölfarið slitið.

En allan þennan tíma starfaði Drómi án innheimtuleyfis. Hann hélt áfram að innheimta skuldir af mikilli hörku og óbilgirni og setti fjölda skuldara í nauðungarsöluferli.

 FME skuli ekki hafa stöðvað Dróma strax og rannsókn hófst er kapítuli út af fyrir sig, en eftir stendur að þetta er stórfellt og alvarlegt brot og því voru góð ráð dýr. Svo fór að Drómi hóf sáttameðferð hjá Fjármálaeftirlitinu, eins og Íslandsbanki gerir nú.

Fjármálaeftirlitið „sló létt á hendina“ á Dróma og þau sættust heilum sáttum. Drómi var látinn greiða leyfisgjöldin sem hann hafði ekki greitt. Ekki krónu meira. Engin refsing, engar afleiðingar, bara látinn borga það sem hann hafði trassað að borga.

Engar aðfarir þessa leyfislausa fyrirtækis voru afturkallaðar, hvað þá bætt fyrir þær. Fjölskyldur þær, sem Drómi hafði hirt heimilin af með ólöglegum hætti, fengu engar bætur fyrir og engar aðfarir eða nauðungarsölur voru dregnar til baka.

Fólk fremur lögbrot, ekki fyrirtæki

Núna er Íslandsbanki í sáttaferli vegna lögbrota en ekki hefur verið gefið upp hver þau eru. Hitt er ljóst að þau eru annars vegar nógu alvarleg til að athugasemdir hafa verið gerðar og hins vegar til að Íslandsbanki taldi nauðsynlegt að láta „markaðinn“ vita, því þau gætu haft áhrif á hlutabréfaverð og traust fjárfesta til bankans.

Sennilega verða eftirmálar litlir sem engir og „sáttin“ í formi einhverskonar fjársekta sem Íslandsbanki mun ekki finna fyrir og þar með ekki læra neitt af, enda getur „banki“ ekki lært af reynslu.

En „banki“ getur ekki heldur framið lögbrot.

Ef lögbrot voru framin í aðdraganda sölunnar á Íslandsbanka, þá voru þau framin af fólki, einstaklingum sem vinna hjá bankanum.

Þegar í ljós kemur hver framdi brotið, þarf að finna út hvort hann hafi gert það að eigin frumkvæði eða vegna þess að einhver hærra settur gaf honum fyrirmæli um að brjóta lög.

Hafi viðkomandi starfsmaður fengið skipun um að fremja lögbrot, getur það dregið úr ábyrgð hans, en þar ættu að gilda sömu lög og öðrum tilfellum þegar fólk fremur lögbrot vegna þvingunar. Hver sá sem biður annan um að fremja lögbrot í sína þágu hefur þá auk þess gerst brotlegur, enda vitorðsmaður.

Síðan þarf að rekja hvaðan skipunin kom og bæði er sjálfsagt og eðlilegt að fólk í svona starfsemi sæti persónulegri ábyrgð á lögbrotum sínum, alveg eins og við þurfum öll að gera ef við brjótum af okkur.

Lögbrot eiga að fara sína leið í kerfinu, alveg sama hvort þau eru framin af starfsmanni fjármálafyrirtækis eða „Jóa út í bæ“.

Að minnsta kosti væri eðlilegt að hin brotlegu myndu missa starf sitt og jafnframt verða svipt starfsleyfi sínu á fjármálamarkaði.

Það eru engin rök fyrir því að aðrar reglur gildi um starfsfólk á fjármálamarkaði en fólk í öðrum stéttum. Ef „ég“ væri send út í bæ á vegum fyrirtækis og væri tekin fyrir of hraðan akstur á leiðinni, þá er það ég sem fæ sektina og ef ég væri undir áhrifum væri það ég sem missti prófið. Ekki fyrirtækið sem sendi mig.

Hver er ábyrgð æðstu stjórnar Íslandsbanka? Hver er ábyrgð bankastjórans?

Er hún eins og alltaf, ENGIN þegar á reynir?

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum