Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Áskorun til peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Áskorun til peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Eftirfarandi áskorun hefur verið send peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands: 

Fyrir hönd VR, Verkalýðsfélags Akraness og Hagsmunasamtaka heimilanna, vilja undirrituð biðla til peningastefnunefndar seðlabankans og um leið seðlabankastjóra, að hækka ekki álögur á heimilin þrátt fyrir aukna verðbólgu.

Ekki auka álögur á heimilin í vaxandi verðbólgu

Vaxtahækkanir geta í einhverjum tilfellum verið réttlætanlegar til að slá á verðbólgu en það á ekki við þegar verðbólgan stafar aðallega af utanaðkomandi aðstæðum sem ekki verða raktar hér, auk skorts á húsnæði sem valdið hefur mikilli hækkun húsnæðisverðs.

Hækkun húsnæðisverðs er sannanlega innlendur vandi, en þá ber að hafa tvennt í huga:

  • Skortur á húsnæði er ekki fólkinu í landinu að kenna. Sá skortur stafar t.d. af allt of lítilli uppbyggingu og skammsýni bæði sveitastjórna og ríkisstjórna undanfarinna ára, í þessum málaflokki. Það getur ekki verið réttlætanlegt að velta afleiðingum þessarar skammsýni yfir á heimili landsins.
  • Einungis lítið brot þjóðarinnar er á húsnæðismarkaði á hverjum tíma. Það getur ekki verið réttlætanlegt að velta þessum vanda yfir á alla sem skulda húsnæðislán enda, eins og áður er rakið, eiga heimili landsins enga sök á ástandinu.

Þegar verðbólga stafar fyrst og fremst af þáttum eins og heimsfaraldri og stríði út í heimi, getur hækkun vaxta hér á landi ekki haft nokkur áhrif á hana.

Það eina sem hækkun vaxta gerir er að auka á byrðar heimilanna auk þess að beina fjármunum þeirra, algjörlega að ástæðulausu, beint í yfirfullar fjárhirslur bankanna.

Hvað varðar batnandi „eiginfjárstöðu heimilanna“ þá stafar hún ekki af því að skuldir heimilanna hafi lækkað, heldur því að matsverð eigna hafi hækkað. Matsverð skiptir í raun engu máli fyrr en eign er seld og jafnvel ekki þá, því markaðurinn hefur hækkað að sama skapi, auk þess sem rétt er að minna á að ráðstöfunarfé heimilanna eykst ekki með hækkandi matsverði þó fasteignagjöld geri það.

Við förum því fram á að Seðlabankinn verji heimilin fyrir áhrifum verðbólgunnar og beiti frekar öðrum stýritækjum sem hann ræður yfir, sem hljóta að vera einhver, en aðalmálið er að auka ekki álögur á heimili landsins.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR

Vilhjálmur Birgisson formaður Verklýðsfélags Akraness


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum