Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Réttur neytenda til úrræða vegna greiðsluerfiðleika

Réttur neytenda til úrræða vegna greiðsluerfiðleika

Greiðslumat á hvorki að hindra úrræði til að lækka greiðslubyrði né endurfjármögnun

Komið hefur fram í fréttum að dæmi séu um að fólk í greiðsluerfiðleikum geti ekki lækkað greiðslubyrði húsnæðislána ef það kemst ekki í gegnum greiðslumat. Því miður virðist vera tilhneiging til að kenna gildandi reglum um greiðslumat um þetta sem að sumra mati geta verið nokkuð strangar.

Fyrir utan þá augljósu þversögn sem felst í hærri greiðslubyrði en lánveitandi sjálfur telur neytanda ráða við og að honum sé svo neitað um úrræði til að draga úr henni er það líka raunin að í slíku tilviki er viðkomandi lánveitandi líklega ekki að fara réttilega eftir gildandi lögum og reglum.

Vissulega er það meginreglan samkvæmt 20. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 að lánveitandi skuli meta lánshæfi og greiðslugetu neytanda áður en samningur um fasteignalán er gerður og samkvæmt 22. gr. að hann skuli aðeins veita fasteignalán ef hann telur líklegt að neytandi geti staðið í skilum með lánið að teknu tilliti til niðurstöðu lánshæfis- og greiðslumats.

Aftur á móti eru gerðar ýmsar undanþágur frá þessu í 23. gr. sömu laga en þær sem hér skipta mestu máli eru að ekki er skylt að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat vegna:

  • Endurfjármögnunar eða framlengingar fasteignalána sem hækkar ekki greiðslubyrði.
  • Skilmálabreytinga fasteignalána sem leiða ekki til meira en 20% hækkunar á greiðslubyrði.
  • Skilmálabreytinga fasteignalána, þ.e. frestunar greiðslna eða breyttrar greiðsluaðferðar, sökum þess að neytandi á í greiðsluerfiðleikum.

Jafnframt kemur skýrt fram í reglum Seðlabanka Íslands um hámark greiðslubyrðar og veðsetningarhlutfalls fasteignalána að þær gilda ekki vegna endurfjármögnunar sökum greiðsluerfiðleika neytenda.

Ef lánveitandi hafnar þrátt fyrir þetta umsókn neytanda um endurfjármögnun eða skilmálabreytingu vegna greiðsluerfiðleika virðist starfsfólk hans ekki hafa lesið lögin um fasteignalán til neytenda nógu vel því samkvæmt 38. gr. þeirra skal neytanda veitt færi á að óska eftir úrræðum, svo sem endurfjármögnun eða skilmálabreytingu láns, sem gætu leyst greiðsluerfiðleika hans, áður en lánveitandi krefst nauðungarsölu fasteignarinnar, sem annars yrði líklega afleiðing vanskila.

Þetta leggur þá skyldu á lánveitanda að vinna með neytenda til að forðast greiðsluerfiðleika eða leysa úr þeim áður en allt fer í óefni en ekki gegn honum og er með öllu óheimilt að hafna beiðni neytanda um slík úrræði. Þá er greiðslumat með tilheyrandi aukakostnaði í raun algjör óþarfi og á alls ekki að vera nein hindrun. Lánveitandi sem neitar að bjóða neytanda í greiðsluerfiðleikum úrræði sem gætu leyst þann vanda er því einfaldlega brotlegur við lög.

Neytendur sem standa frammi fyrir brotum á þessum lögbundnum réttindum sínum geta leitað aðstoðar Hagsmunasamtaka heimilanna við að leita réttar síns og ættu jafnframt að tilkynna Neytendastofu sem hefur opinbert eftirlit með framkvæmd laga um fasteignalán til neytenda um slík brot.

Loks má þess geta að dugi engin úrræði sem lánveitandi getur boðið upp á til að leysa vanda neytanda er hægt að leita greiðsluaðlögunar eða nauðasamninga ef allt um þrýtur. Þegar umsókn um slíkt úrræði er tekin til meðferðar er óheimilt að krefjast nauðungarsölu á heimili umsækjanda á meðan samninga er leitað. Ekki gefst þó svigrúm til að rekja þetta nánar hér í smáatriðum enda er það efni í annan pistil.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum