Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Heimilin á óvissutímum

Heimilin á óvissutímum

Ávarp formanns til félagsmanna í nýlegu fréttabréfi HH

Það er í algjörum forgangi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna á þessum tímum að verja heimilin fyrir afleiðingum Covid-19. Krafa okkar er sú að enginn, ekki ein einasta fjölskylda, eigi að missa heimili sitt vegna aðstæðna sem þær bera enga sök á. Þetta höfum við fjallað um í ræðu og riti en eins og sjá má á listanum neðst í þessu fréttabréfi yfir verkefni HH síðan veiran kom upp, höfum við ekki legið á liði okkar. 

Það er miður að enn sem komið er höfum við enga tryggingu fyrir því að þessari sjálfsögðu kröfu okkar verði mætt. Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvort heimilin verði varin eða ekki og við erum að gera okkar besta til að setja þrýsting á stjórnvöld um að taka þá ákvörðun.

Þó að fullvissan sem við viljum fá fyrir heimilin sé ekki enn fengin, erum við samt alls ekki búin að gefast upp, og munum aldrei gefast upp!

Samtökin hafa, eins og svo margir aðrir, þurft að skipta um gír á þessu ári. Það hefur ekki enn fengist réttlæti fyrir þá sem brotið var á eftir hrun. Sú barátta er ekki gleymd, en hins vegar má segja að hún sé geymd um þessar mundir, því núna erum við fyrst og fremst í varnarbaráttu, því hvað sem öðru líður mega skelfingarnar sem áttu sér stað í kjölfar bankahrunsins, alls ekki endurtaka sig!

Það er staðreynd að enginn er að berjast fyrir hagsmunum heimilanna nema HH. Auðvitað skiptir barátta annarra, eins og t.d. verkalýðsfélaga, máli fyrir heimilin, en barátta þeirra er samt á öðrum grunni. Hvað varðar hagsmuni og réttindi neytenda á fjármálamarkaði, standa HH ein og hvergi er viðlíka þekking á þeim málum eins og innan vébanda samtakanna.

Við þurfum ykkar stuðning. Allir stjórnarmenn sinna störfum sínum fyrir HH í sjálfboðastarfi fyrir utan önnur störf. Aðstöðumunur okkar annars vegar og hins vegar hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja (SFF) er gríðarlegur en ef ekki væri fyrir HH væri engin fyrirstaða fyrir þau til að valta yfir heimilin.

Á tímum sem þessum eru sterk samtök neytenda á fjármálamarkaði jafnvel enn mikilvægari en annars.

Takk fyrir þinn stuðning.

Kær kveðja,
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður.

 


Hagsmunasamtökin hafa ekki legið á liði sínu í baráttunni fyrir heimilin frá því að Covid faraldurinn hófst. Hér fyrir neðan má sjá nokkuð af því sem samtökin hafa gert:

Tilkynningar á vefsíðu samtakanna: Guð blessi heimilin - aftur? - Tími til aðgerða er núna! - ÍTREKUN - Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki

 

Yfirlit yfir helstu verkefni HH síðan COVID-19 faraldurinn braust út: 

Frá 11. mars til 28. október

  

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Með kveðju frá Hagsmunasamtökum heimilanna

 

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum