Glæpur gegn heimilunum að tengja skuldir þeirra við vísitölu neysluverðs
Fréttatilkynning
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það sé algjörlega óforsvaranlegt að tengja lán heimilanna við vísitölu neysluverðs, ekki síst þegar litið er til þess að ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa skuldbundið sig við það opinbera markmið að hækka vísitöluna um að jafnaði 2,5% á ári.
Þann 30. apríl sl. birtu Hagsmunasamtökin yfirlýsingu með fyrirsögninni “Hindrar Hagstofan lækkun vísitölu?” en nokkrum dögum síðar var fulltrúum samtakanna boðið að hlýða á kynningu hjá Hagstofu Íslands um útreikninga á vísitölu neysluverðs.
Niðurstaða fundarins var í stuttu máli sú að það er ekkert út á vinnubrögð Hagstofunnar að setja. Hjá henni er unnið mjög faglega, samkvæmt viðurkenndum og alþjóðlegum stöðlum og mikill metnaður lagður í að vanda til verksins. Starfsfólk Hagstofunnar á hrós skilið fyrir að bjóða upp á þetta samtal sem var báðum aðilum til gagns.
En þrátt fyrir fagleg vinnubrögð Hagstofunnar var það hins vegar einnig staðfest á fundinum að neytendur eiga litla sem enga möguleika á því að hafa áhrif á þróun vísitölu neysluverðs og allt frá því að mælingar hófust hefur hún aðeins einu sinni lækkað á milli ára og það var löngu áður en verðtrygging var tekin upp í fjárskuldbindingum.
Það er þarna sem hnífurinn stendur í kúnni. Vísitala neysluverðs er rétt reiknuð hjá Hagstofunni og endurspeglar verðlag í landinu með þeim hætti sem henni er ætlað að gera. Ef hún hefði ekki þau miklu áhrif á skuldir heimilanna sem raun ber vitni, væri engin ástæða fyrir Hagsmunasamtökin eða nokkurn annan að hafa áhyggjur af eða fetta fingur út í vísitölu neysluverðs.
Þetta er kjarni málsins og það sem Hagsmunasamtökin reyndu að vekja athygli á með fyrrnefndri yfirlýsingu sinni.
Það er algjörlega út í hött, og í raun glæpur gagnvart íslenskum neytendum, að láta vísitölu sem er hönnuð til að lækka ekki á ársgrundvelli, heldur frekar til að hækka, hafa áhrif á lán heimilanna. Ekki síst því ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa skuldbundið sig við það opinbera markmið að hækka vísitöluna um að jafnaði 2,5% á ári.
Þarna er ekki við Hagstofuna að sakast, sem sinnir sínu hlutverki með sóma, heldur stjórnmálamenn sem hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að brjóta gegn heimilum landsins með þessum hætti og kosið að hunsa ákall neytenda um breytingar á því, svo árum eða áratugum skiptir.
Vísitalan má ekki sveiflast mikið til og Hagstofan notar staðlaðar aðferðir sem alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um til þess að stilla hana af. Það er því vissulega “föndrað” við vísitöluna þannig að hún lækki ekki þó neysla dragist saman, eins og við héldum fram í fyrrnefndri yfirlýsingu.
Hagstofan er hins vegar ekki vandamálið. Vísitala neysluverð er ekki heldur vandamálið.
Vandamálið er að skuldir heimilanna eru tengdar við þennan mælikvarða sem aldrei má lækka á milli ára og veldur því verulegri hækkun á lánum heimila og rýrir bæði eignastöðu þeirra og afkomu.
Engin önnur þjóð notar vísitölu neysluverðs til að mæla verðlag og notar þann mælikvarða einnig til þess að hækka höfuðstól húsnæðislána eftir undirritun lánssamnings.
Það er sjálfsögð krafa að verðtrygging verði afnumin á lánum íslenskra heimila!
Ábyrgðin er stjórnmálamanna!
Hagsmunasamtök heimilanna
Hér má nálgast glærukynninguna sem fulltrúum samtakanna var sýnd. Töluverðar umræður spruttu um einstaka liði og yfirferð hennar tók nær þrjár klukkustundir, þannig að þó að þessar glærur séu góðar gefa þær ekki fulla mynd af öllu sem fram fór í þessu góða samtali.