Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Eiga bankar að hagnast á Covid-19?

Eiga bankar að hagnast á Covid-19?

Hvernig mun samfélagið líta út þegar þjóðfélagið rís upp eftir Covid?

Hvað hefur þá orðið mikil eignatilfærsla frá heimilum og fyrirtækjum til bankanna? 

Hvernig komum við í veg fyrir að eignatilfærslan verði eins og eftir bankahrunið 2008?

Er það ekki sjálfsögð krafa að í svona erfiðleikum, deili bankarnir kjörum með okkur hinum?

 

Mögulegar efnahagslegar afleiðingar af Covid - 19 

Ef svo fer sem horfir gætu grunnstoðir samfélagsins veikst enn frekar og stórfelld eignatilfærsla orðið að raunveruleika vegna kórónukreppunnar. Formenn VR og Hagsmunasamtaka heimilanna fóru yfir þessi mál í grein sem birtist á visir.is: “Þarf endilega að fleygja einhverjum útbyrðis í þetta sinn?” Þar benda þau Ragnar Þór og Ásthildur Lóa meðal annars á þann kostnað sem óhjákvæmilega fellur á þjóðfélagið ef mistökin sem gerð voru í kjölfar bankahrunsins verða endurtekin varðandi heimilin og fyrirtækin. “Skaðinn sem þetta fólk varð fyrir er ekki aðeins þeirra eigin, heldur þjóðfélagsins alls. Fyrir utan „óbeinan skaða“ sem felst í lélegri heilsu, niðurbroti og brostnum vonum, skaða sem aldrei verður metin til fjár, er líka til skaði sem hægt er að mæla í beinhörðum peningum.”

Í niðurlagi greinarinnar fara þau yfir hver græðir og hver tapar eftir því hvort fjármálafyrirtækjunum er áfram hyglað á kostnað almennings.

Þarna koma þau í raun að kjarna allra þeirra mála sem við stöndum frammi fyrir og hvernig þjóðfélagið kemur til með að líta út eftir Covid-19, eftir því hvaða leið ríkisstjórnin velur.

Við birtum hér niðurlag greinarinnar en hvetjum ykkur til að lesa hana alla: 

 

Hver græðir og hver tapar? 

Förum aðeins yfir hvernig þjóðfélag við viljum sjá þegar allt fer að færast í eðlilegt horf. 

Hver tapar og hver græðir ef þúsundir missa heimili sín eins og eftir síðasta hrun?
  • Bankarnir græða og geta kannski stækkað bátinn sinn með öðru þilfari með enn betra útsýni.
  • Fjölskyldur myndu tapa og standa uppi heimilislausar með tilheyrandi afleiðingum.
  • Leigufélög myndu fá íbúðir þessara fjölskyldna á „sérstökum kjörum“ og gætu farið að mala gull á fjölskyldum sem hafa misst heimili sín. Leigufélög og „fjárfestar“ myndu græða.
  • Þjóðfélagið tapar, því hvert á allt þetta fólk að fara? Finna þyrfti alls konar (kostnaðarsamar) leiðir og „félagslega pakka fyrir viðkvæma hópa“ í von um að það komi aftur undir sig fótunum.
  • Fjölskyldur/einstaklingar væru niðurbrotnar og í sárum sem erfitt er að vinna sig upp úr. Skaði þeirra væri mikill, bæði fjárhagslegur og óbætanlegur. 

Er þetta þjóðfélagið sem við viljum þegar loksins sér til sólar? Eða gætum við gert þetta öðruvísi í þetta sinn og haldið öllum á floti og í bátnum. 

 

Hver tapar og hver græðir ef enginn missir heimili sitt vegna Covid-19?
  • Bankarnir tapa ekki en munu ekki græða jafn mikið og annars. Þannig leggðu þeir sitt af mörkum vegna ástandsins.
  • Fjölskyldur héldu heimilum sínum og gætu komið sér aftur á fætur þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Þó það tæki sumar þeirra kannski smá tíma þá væru þær í öruggu skjóli á meðan.
  •  Þjóðfélagið myndi græða, því færri myndu þurfa á félagslegri aðstoð að halda og færri myndu veikjast vegna álagssjúkdóma.
  • Börn myndu „græða“. Börn búa við mismunandi aðstæður sem við sem samfélag höfum ekki alltaf stjórn á, en alveg sama hvernig á það er litið er ekki hægt að setja verðmiða á öryggi barna og vellíðan og þessu getum við stjórnað. Þetta skiptir öll börn máli en ekki síst þau sem þegar standa höllum fæti og það er lágmark að stjórnvöld geri aldrei slæmt ástand verra með aðgerðum sínum.

Í grunninn á það sama við um fyrirtækin. Ef þau eða starfsemi þeirra færist á færri hendur gætum við horft fram á aukið atvinnuleysi og erfiðleika, sem einnig munu kosta þjóðfélagið mikla fjármuni. Með því að gefa aðeins eftir af gjöldum og kostnaði, gætu ríkið, bankar og sveitarfélög, gefið þeim tækifæri til að rísa aftur sterkari þegar vorar á ný og það hlýtur að vera okkur öllum til hagsbóta.

 

Eftir vetur kemur vor

Það má líkja ástandinu núna við vetur þegar allt leggst í dvala. En á eftir vetri kemur vor og þá þurfum við öll, bæði heimili og fyrirtæki, að geta teygt okkur upp úr moldinni í átt til sólar án þess að það komi einhver og stígi á okkur og kæfi lífið. Við verðum öll að fá tækifæri til að vaxa upp á ný án þess að þá leggist á okkur kröfur vegna „Force Majeure“ ástands sem ekkert okkar ber neina sök á.

Það er ekki ásættanlegt að þá bíði bankarnir og týni upp alla græðlingana og geti svo selt þá og hagnast á þessum fordæmalausa ástandi.

Auðvitað þarf einhverjar útfærslur en ef velferð okkar allra er í forgangi, þá leysast alls konar flækjur af sjálfu sér á leiðinni.

Ef hins vegar markmiðið er að verja fjármálafyrirtækin og fjárfestana með öllum ráðum, er voðinn vís og þá verður langt þangað til að það grænkar aftur á Íslandi.

Við erum öll þess virði að fá okkar pláss um borð!

"Stóra spurningin er hvort við ætlum að sigla þessari þjóðarskútu saman, öll í sama bátnum, eða láta það afskiptalaust þó einhverjum sé ýtt fyrir borð?"

Við eigum öll að vera í sama bátnum!

 

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

 

 

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum