Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Dómsmálaráðherra þarf að draga dómara til ábyrgðar!

Í máli Silju er staðfest að bankinn hafði sagt umrætt veðskuldabréf að fullu greitt árið 2015 og að því hafi í framhaldinu verið aflýst hjá sýslumanni.

Um þetta er ekki deilt og hjá sýslumanni er til ljósrit af skuldabréfinu með dagsetningu og stimpli
Landsbankans sem staðfestir að skuldin sé að fullu greidd.

Landsbankinn telur hins vegar að um “mistök” hafi verið að ræða án þess að geta skýrt þau nánar fyrir dómi og þrátt fyrir að hafa týnt frumriti bréfsins krefur hann Silju um greiðslu skuldar sem hann er búin að aflýsa á bréfi sem hann hefur týnt og getur því ekki framvísað.

Silja neitar að greiða enda benda öll gögn til þess að skuldin sé að fullu greidd og bankinn getur ekki einu sinni framvísað frumriti skuldabréfsins.

Þetta ætti að vera auðunnið mál fyrir Silju.

En ekki á Íslandi. Á Íslandi dæma dómarar nefnilega aldrei neytendum á fjármálamarkaði í vil. Á Íslandi líta dómarar bara til laga ef það hentar skjólstæðingum þeirra, bönkunum.

Frá hruni hafa mörg hundruð mál þar sem reynir á réttindi neytenda á fjármálamarkaði verið flutt fyrir íslenskum dómstólum. Því miður hafa íslenskir dómarar þó aðeins í undantekningartilfellum séð ástæðu til að dæma neytendum í hag í slíkum málum. Á undanförnum árum hafa tugþúsundir goldið fyrir það.

Það að Landsbankinn hafi yfirleitt reynt að sækja mál fyrir dómi á svo veikum grunni og raun ber vitni í umræddu máli, segir sína sögu:
#1 það er til ljósrit af skuldbréfinu stimplað og dagsett af Landsbankanum sem staðfestir að það sé fullgreitt.
#2 ljósritið er hjá sýslumanni sem hefur þegar aflýst skuldinni
#3 Landsbankinn hefur ekki frumritið

Landsbankinn hefur ENGAR sannanir fyrir því að lánið hafi ekki verið greitt en gögn varnaraðila um að það hafi verið greitt eru fjölmörg. Landsbankinn barmar sér yfir því að “mistök” hafi verið gerð og það er nóg fyrir dómstólana sem snúa sönnunarbyrðinni yfir á neytandann sem þegar hefur uppfyllt hana með óvéfengjanlegum hætti. Landsbankinn virðist hins vegar ekki þurfa neinar sannanir fyrir “mistökum” sínum og vinnur málið - enda virðast íslenskir dómstólar ganga út frá því að neytendum beri að greiða fyrir “mistök” banka.

Landsbankamenn vita að dómararnir eru með þeim í liði og munu færa þeim sigurinn með einum eða öðrum hætti. Þess vegna láta þeir reyna á “vonlaus” mál eins og þetta og “trú þeirra” á dómskerfið var enn og aftur staðfest í umræddu máli um leið og Silju var kastað fyrir úlfana.

Ef neytandi ætlar að sækja rétt sinn á Íslandi þarf hann að vera tilbúinn í langa, erfiða og vonlitla baráttu. Það er ekki nóg með að verulega halli á neytendur hvað varðar fjármagn og aðgengi að lögfræðiaðstoð, heldur þurfa þeir líka að mæta fyrir framan dómara sem hlusta í raun ekki á málflutning því þeir eru fyrirfram búnir að gera upp hug sinn. Þeir eru bara á sjálfstýringu að “stimpla mál” fyrir fjármálafyrirtækin.

Það er “tikkað í boxin” og sett upp leikrit til að geta sagt að neytandinn hafi hlotið réttláta dómsmeðferð, en það er ekkert réttlátt við meðferðina. Leikurinn er oft fyrirfram tapaður fyrir neytandann.

Við vitum um fjölmarga dóma þar sem réttindi neytenda hafa verið algjörlega fyrir borð borin og ekki stendur steinn yfir steini í rökstuðningi dómara fyrir niðurstöðu sinni. Það er eitt að tapa dómsmáli, en að tapa því á óréttmætum forsendum og án þess að fullnægjandi rök séu færð fyrir því, er allt annað mál. Hvert og eitt okkar á stjórnarskrárbundinn rétt á réttlátri málsmeðferð og það er stórmál og hreint og klárt mannréttindabrot að vera sviptur þeim rétti - ekki síst af dómstólunum sjálfum!

Hingað og ekki lengra! Það er kominn tími til að dómsmálaráðherra ákæri rangláta dómara og hreinsi til í dómskerfinu. Einhversstaðar þarf að byrja og þar sem margt af því versta sem neytendur hafa orðið fyrir kristallast í máli Silju, væri ágætt að byrja á Boga Hjálmtýssyni héraðsdómara.

Menn sem beita valdi sínu með þeim hætti sem hann gerir eiga ekki að geta setið í skjóli embættis síns og útdeilt ranglæti með þeim hætti sem var gert í umræddu máli.

Hagsmunasamtök heimilanna eru meðvituð um og viðurkenna þrískiptingu valdsins. Samkvæmt lögum eiga dómstólar að skera úr deilumálum og eiga síðasta orðið, en þá verða þeir líka að vera traustsins verðir og dæma eftir lögum. Íslenskir dómarar hafa fallið á svo mörgum prófum og í leiðinni valdið svo miklum skaða að ekki er lengur hægt að setja kíkinn fyrir blinda augað og láta sem ekkert sé.

Nú er mál að linni. Við bendum á að í 1. mgr. 130. gr. almennra hegningarlaga stendur:

“Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.”

Dómstólar verða aldrei betri en dómararnir sem þá skipa og innan raða þeirra eru í dag fjölmörg skemmd epli sem hreinsa þarf burt áður en þau valda meiri skaða en orðið er.

Það er ekki nema um tvennt að ræða: Annað hvort eru íslenskir dómarar skelfilega illa að sér í lögum um réttindi neytenda eða þeir draga taum fjármálafyrirtækja og eru með þeim í liði. Vanhæfir eða spilltir, aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi og dæmin um löglausa dóma orðin of mörg til að framhjá þeim sé litið.

Hagsmunasamtök heimilinna hafa frá hruni barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði og telja augljóst að uppræta þurfi spillinguna sem virðist þrífast meðal íslenskra dómara. Þau bjóða fram aðstoð sína og krefjast þess af dómsmálaráðherra að hún nýti sér valdheimildir sínar sem yfirmaður dómsmála á Íslandi til að taka í taumana.

Góð byrjun væri að ákæra Boga Hjálmtýsson héraðsdómara fyrir stórfelld afglöp í starfi og svipta hann embætti sínu, en það væri bara byrjunin. Hagsmunasamtökin geta bent dómsmálaráðherra á fjölmarga vafasama dóma þar sem brotið hefur verið á réttindum neytenda með grófum hætti.

Traust til dómstóla verður ekki endurreist á meðan dómarar virða hvorki lög né réttindi almennings.
Nú er mál að linni!

Hagsmunasamtök heimilanna munu jafnframt óska eftir fundi með dómsmálaráðherra til að fara yfir þessi mál og önnur sem snúa að meðferð málefna neytenda í réttarvörslukerfinu.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum