Aðvörun til fjárfesta: kaupið ekki köttinn í sekknum!
Um þessar mundir stendur yfir útboð á hlutafjáreign Kaupþings í Arion banka. Að undanförnu hafa einnig komið fram hugmyndir um sölu á eignarhlutum ríkisins í stóru viðskiptabönkunum. Af þessu tilefni er rétt að vara fjárfesta við því að kaupa ekki köttinn í sekknum þegar hlutafé íslenskra banka er annars vegar. Margt bendir til þess að eignasöfn þeirra séu stórlega ofmetin og þar innan um leynist ýmsar gallaðar vörur. Eftirfarandi eru nokkur staðfest dæmi um slíkt.
Á síðasta ári þurfti Arion banki að niðurfæra tæpa 5 milljarða af lánum sínum til kísilmálmverksmiðju Sameinaðs sílikons í Helguvík. Virðist ekki allt hafa verið með felldu í rekstri félagsins og er það nú til rannsóknar vegna gruns um margvíslegt misferli, þar á meðal fjársvik. Óvíst er hve margar fleiri slíkar beinagrindur kunna að leynast í skápum stóru viðskiptabankanna.
Þann 8. mars síðastliðinn kvað Hæstiréttur Íslands upp fordæmisgefandi dóm í máli Arion banka þess efnis að bankanum hefði verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta af skuldum einstaklinga á meðan þeir nutu svokallaðs greiðsluskjóls vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Komið hefur fram að það sama hafi tíðkast af hálfu Landsbankans og mögulega fleiri lánveitenda. Vegna dómsins munu þeir þurfa að endurgreiða umtalsverðar fjárhæðir oftekinna vaxta. Samkvæmt árshlutareikningum þeirra hefur ekki verið lagt endanlegt mat á heildaráhrif dómsins, en Hagsmunasamtökum heimilanna er kunnugt um einstök tilvik þar sem slíkar fjárhæðir hlaupa á milljónum króna.
Þann 12. október 2017 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Íslandsbanka þar sem bankanum var talið óheimilt að hækka vexti húsnæðislána á grundvelli endurskoðunarákvæðis sem braut gegn lögum um neytendalán. Samkvæmt ársreikningi bankans hefur hann skuldfært 800 milljónir króna vegna dómsins en hefur þó ekki lokið við endurgreiðslu til allra hlutaðeigandi lántakenda. Alls óvíst er hversu raunhæft mat bankans er á umfanginu en Hagsmunasamtök heimilanna vita um tilvik þar sem þurft hefur að endurgreiða hundruðir þúsunda króna af venjulega húsnæðisláni. Einnig hafa samtökin staðfestar heimildir fyrir því að lán með samskonar skilmálum sé að finna í lánasöfnum Arion banka og Landsbankans, en upplýsingar um mögulegt umfang þeirra liggja ekki fyrir.
Eins og framangreind staðfest dæmi bera vott um eru enn ástæða til efasemda um lögmæti og þar með gæði lánasafna bankanna. Auk þess má nefna að ekki eru öll kurl komin til grafar um vexti lána sem voru með ólögmætri gengistryggingu, fyrningu vaxta og verðbóta auk ýmissa fleiri álitaefna sem eru nú þegar til úrlausnar eða á leiðinni fyrir dómstóla. Er því ljóst að umtalsverð óvissa ríkir enn um raunverulega stöðu bankakerfisins. Að svo stöddu eru því kaup á eignarhlutum í bönkum ekki aðeins áhættusöm, heldur fela þau beinlínis í sér veðmál gegn íslenskum almenningi og heimilum.
Þeirri óvissu sem ríkir um raunverulega stöðu bankanna verður ekki útrýmt nema fram fari rannsókn á þeim aðgerðum sem ráðist var í gagnvart neytendum í kjölfar hruns bankakerfisins og hvernig það var í raun endurreist á herðum heimila landsins.
Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!