Skaðabótamál höfðað vegna verðtryggðra neytendalána
Skaðabótamál hefur verið höfðað vegna verðtryggðra neytendalána og vanrækslu á upplýsingaskyldu fjármálastofnana um kostnað vegna verðtryggingar.
Sérstaða málsins felst í því að á hvorn veginn sem málið fer verður niðurstaðan Hagsmunasamtökum heimilanna í vil. Aðeins þarf að fá úr því skorið hvort innleiðing Alþingis á þeim neytendarétti sem um ræðir í málinu hafi verið röng sem gerir Alþingi ábyrgt eða þá að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 hafi verið rangur sem gerir Hæstarétt og dómskerfið ábyrgt.
Málið er höfðað vegna hins fyrrnefnda dóms Hæstaréttar Íslands þar sem reyndi á afleiðingar þess að við lántöku höfðu ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif verðtryggingar á lánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum um neytendalán. Þrátt fyrir að EFTA-dómstólinn teldi að taka yrði mið af áhrifum verðtryggingar við útreikning lánskostnaðar, ákvað Hæstiréttur Íslands hins vegar að túlka íslensk lög þveröfugt þannig að ekki hefði þurft að veita neinar upplýsingar um kostnað af völdum verðtryggingar.
Hvort sem um er að ræða ranga túlkun Hæstaréttar eða að íslensk lög hafi verið í beinni andstöðu við tilskipun EES um neytendalán, eru slík brot gegn EES reglum almennt skaðabótaskyld. Hefðu þær reglur sem um ræðir komist rétt til framkvæmda hefði átt að vera óheimilt að innheimta þann kostnað sem ekki var réttilega upplýst um. Tjón lántakenda er bein afleiðing þess að þeir hafi ekki notið þeirrar verndar sem í þessu átti að felast þegar á reyndi. Fyrir dómi er því krafist skaðabóta sem nema öllum aukakostnaði sem greiddur hefur verið vegna verðtryggingar viðkomandi láns.
Málarekstur þessi er beint framhald af dómsmáli sem var fyrst höfðað árið 2012 og hefur nú leiðst í þennan farveg. Markmið Hagsmunasamtaka heimilanna með þessum málarekstri hefur verið að ná fram fordæmisgefandi dómi um fulla leiðréttingu ólögmætrar verðtryggingar. Allar líkur eru á því að fordæmisgefandi dómur um þetta úrlausnarefni geti haft verulega þýðingu fyrir neytendur sem tóku almenn neytendalán frá og með árinu 1994 og þar með talin húsnæðislán frá og með 2001.
Þar sem mál þetta hefur nú verið höfðað fyrir héraðsdómi má búast við því að í kjölfarið muni það hljóta hefðbundna málsmeðferð í dómskerfinu. Hagsmunasamtök heimilanna munu eins og hingað til senda frá sér tilkynningar um framvindu málsins eftir því sem tilefni gefst til á hverju stigi og leitast sérstaklega við að halda félagsmönnum sínum upplýstum um framgang mála.
Loks má minna á að tekið er við framlögum í málskostnaðarsjóð Hagsmunasamtaka heimilanna með millifærslum á reikningsnúmer 1110-05-250427 kt. 520209-2120. Öll framlög stór sem smá hjálpa til við að veita þessari hagsmunabaráttu heimilanna framgöngu.