Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Áskorun frá Hagsmunasamtökum heimilanna til stjórnmálaflokka

Eftirfarandi áskorun hefur verið send stjórnmálaflokkunum frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna alla flokka, sérstaklega þá sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum, á hagsmuni heimilanna.

Allt of oft verða hagsmunir heimilanna, almennings í landinu, að afgangsstærð hjá stjórnmálamönnum.

Það eru hagsmunir heimilanna að verðtrygging sé afnumin á neytendalánum.

Afnám verðtryggingar myndi færa almenningi þá bestu kjarabót sem sögur fara af.

Engin rök eru fyrir því að heimili á Íslandi borgi 92.000 krónum meira af verðtryggða 25 milljóna húsnæðisláninu sínu í hverjum mánuði en heimili í Danmörku af jafnháu láni.

Til að eiga fyrir 92.000 krónum ofan á hverja einustu afborgun lánsins þurfa íslensk heimili að vinna sér inn fyrir 175.000 krónum aukalega í hverjum mánuði!

Orð eins og fjárkúgun, sjálftaka og rán koma óhjákvæmilega upp í hugann í þessu sambandi.

Höfum í huga að allt þetta auka fé fer beint inn í bankana engum til gangs, nema þá vogunarsjóðunum sem eru um það bil að fá þá á silfurfati, komi ný ríkisstjórn ekki í veg fyrir það!

Það er ljóst að afnám verðtryggingar á lánum heimilanna myndi auka ráðstöfunarfé heimilanna til mikilla muna og þannig væntanlega liðka mikið fyrir komandi kjarasamningum.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnmálamenn til að kynna sér það sem Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur sagt um verðtrygginguna og hvernig hún skekkir hagkerfið og dregur verulega úr áhrifamætti þeirra tækja sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða til að halda verðbólgu í skefjum.

Hagsmunasamtök heimilanna beina því til Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins að standa að alvöru velferðarstjórn og afnema/banna verðtryggingu á lánum heimilanna í eitt skipt fyrir öll.

Afnám verðtryggingar myndi lækka húsnæðiskostnað almennings verulega og þar með auka velferð og hagsæld heimilanna með raunhæfum hætti.

Afnám verðtryggingar er ekki flókin aðgerð ekki frekar en setning hennar var. Hún krefst ekki nýs gjaldmiðils, inngöngu í Evrópusambandið eða nokkurs annars.

Það eina sem þarf til að afnema verðtryggingu lána til neytenda er að bæta svohljóðandi setningu við 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001: “Neytendalán og fasteignalán til neytenda falla ekki undir ákvæði þessa kafla.”

Það eina sem til þarf er pólitískur vilji og stjórnmálamenn sem standa í lappirnar og taka þarfir almennings fram yfir þarfir fjármálafyrirtækja.

Þetta þarf ekki að setja í neina nefnd. Staðreyndirnar liggja fyrir og nú er kominn tími á framkvæmdir.

Ný stjórn gæti fært vísitölufjölskyldunni tugþúsunda kjarabætur í hverjum mánuði með einfaldri lagabreytingu.

Heimilin þurfa ríkisstjórn sem skilur að almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

F.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
Vilhjálmur Bjarnason, varaformaður


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum