Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Fullt út úr dyrum á borgarafundi HH í Háskólabíó

Fullt var út úr dyrum á borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna í Háskólabíó í gærkvöld, þar sem um 1000 manns komu saman. Yfirskrift fundarins var "Verðtryggingin dregin fyrir dóm", og var þar kynnt málsókn gegn Íbúðánasjóði vegna verðtryggðs fasteignaláns sem samtökin standa að baki. Einnig var á fundinum fjallað um frumvarp til laga um neytendalán sem nú liggur fyrir Alþingi og HH hafa gert alvarlega athugasemdir við.

Frummælendur voru Þórður H. Sveinsson hdl. sem greindi frá málsókninni, Pétur H. Blöndal alþingismaður sem hélt erindi til varnar sparifjáreiginum, Guðmundur Ásgeirsson varaformaður HH fyrir hönd stjórnar og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem meðal annars svaraði fyrir þá gagnrýni sem samtökin hafa sett fram á lagafrumvarp um neytendalán,

Egill Helgason, fjölmiðlamaður stjórnaði fundinum og að loknum erindum fengu fundargestir að beina spurningum til frummælenda og þátttakenda í pallborði, en þar sátu alþingismenn frá öllum stjórnmálaflokkum á þingi; Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson og Jón Kr. Arnarson, ásamt þeim Gísla Tryggvasyni talsmanni neytenda og Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness. Líflegar umræður urðu á fundinum og margar góðar fyrirspurnir bárust úr sal.

Í lok fundar var samþykkt eftirfarandi ályktun:  "Almennur fundur í Háskólabíó 13. nóvember 2012 krefst þess að Alþingi tryggi tafarlaust afnám verðtryggingar á lánsfé og að gildandi lög um neytendavernd séu virt".

Opnun formanns HH

Glærur Péturs H Blöndal frá fundinum má sækja hér

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum