Enn einn Evrópudómur um óréttmætar nauðungarsölur
Hagsmunasamtök heimilanna hafa látið gera löggildar íslenskar þýðingar af ýmsum dómum Evrópudómstólsins sem fjalla um nánari skýringar á þeim reglum um neytendavernd og neytendalán sem gilda hér á landi vegna aðildar Íslands að EES. Þessar þýðingar hafa svo jafnframt verið birtar á vefsíðu samtakanna og er markmið þess að sem flestir geti nýtt sér þá í málaferlum vegna neytendalána. Þar á meðal eru dómar í málum C-415/11 (Aziz) og C-169/14 varðandi málsmeðferð við nauðungarsölur á grundvelli neytendalána.
Samtökin hafa nú fengið löggilda þýðingu á enn einum dómi er varðar málsmeðferð við nauðungarsölu, í sameinuðum málum C-537/12 og C‐116/13. Dómurinn ítrekar þær niðurstöður sem komist var að í fyrrnefndu máli C-415/11 og voru enn ítrekaðar í máli C-169/14, að málsmeðferð við nauðungarsölu á heimili neytanda þar sem ekki er gætt jafnræðis milli aðila og ekki hægt að byggja mótbárur á því að um óréttmæta skilmála sé að ræða, brjóti gegn Tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Jafnframt veitir dómurinn leiðbeiningar um mat á því hvort skilmálar um einhliða gjaldfellingu og fullnustu án undangengins dóms séu óréttmætir, og segir að landsdómstóll eigi að framkvæma það mat í slíkum tilvikum.
Hér má skoða og sækja umrædda þýðingu dómsins:
Niðurstaða dómsins er svohljóðandi:
1. Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ber að túlka svo að hún girði fyrir löggjöf í aðildarríki, eins og þá sem um er deilt í aðalmálinu, sem leyfir ekki að dómstóll sá sem meðferð gerðar til fullnustu veðréttar í fasteign heyrir undir geti að eigin frumkvæði eða að beiðni neytanda lagt mat á það, hvort skilmáli í samningi þeim sem umkrafin skuld er risin af og er grundvöllur að réttinum til fullnustu sé óréttmætur, ellegar mælt fyrir um hliðrunarráðstafanir til bráðabirgða sem leitt geti til frestunar eða stöðvunar á fullnustugerðinni, þegar nauðsyn er á slíkri hliðrun til að tryggja fulla skilvirkni hinnar endanlegu niðurstöðu dómstóls þess er fái til meðferðar viðurkenningarmál þar sem neytandinn heldur því fram að skilmálinn sé óréttmætur.
2. Ákvæði 1. málsgr. 3. greinar tilskipunar 93/13 og liða 1(e) og (g) ásamt lið 2(a) í viðauka hennar ber að skilja svo að þau merki að við mat á því, hvort samningsskilmáli sem varðar flýtingu á endurgreiðslu fasteignaveðláns eins og um ræðir í aðalmálinu sé óréttmætur, geti eftirfarandi haft úrslitaþýðingu:
- hvort réttur seljanda eða veitanda til að segja samningi upp einhliða sé háður því að vanefnd verði af hálfu neytanda á skuldbindingu sem hafi grundvallarþýðingu í samningssambandi því sem um er að ræða,
- hvort þessi réttur sé áskilinn í tilvikum þar sem vanefnd þessi sé nægilega alvarleg í ljósi gildistíma samningsins og fjárhæðar lánsins til neytanda,
- hvort þessi réttur feli í sér frávik frá þeim reglum sem við myndu eiga ef ekki væri um atriðið samið milli aðila, þannig að erfiðara verði fyrir neytandann, miðað við þau réttarúrræði sem honum eru tiltæk, að leita til dómstóla og neyta réttar síns til varnar, og
- hvort reglur landslaga veiti kost á viðeigandi og skilvirkum úrræðum er geri neytandanum, sem háður sé slíkum samningsskilmála, kleift að ráða bót á áhrifum hinnar einhliða uppsagnar lánssamningsins.
Það er landsdómstólsins að framkvæma þetta mat með hliðsjón af öllum atvikum hins tiltekna máls sem fyrir honum liggur.
Þessar niðurstöður dómsins styðja enn frekar þær niðurstöður sem komist var að í greinargerð Hagsmunasamtaka heimilanna um fullnustur neytendalána án undangengins dómsúrskurðar sem var birt í nóvember 2013. Greinargerðin var uppfærð í september síðastliðnum og send Alþingi sem fylgiskjal með umsögn samtakanna við frumvarp til laga um tímabundna frestun á nauðungarsölum sem nú eru í gildi, en greinargerðina má einnig sjá hér fyrir neðan.