Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH ræða þjóðaratkvæðagreiðslu við þingflokksformenn

Hagsmunasamtök heimilanna boðuðu þingflokksformenn á fund með stjórn samtakanna til að ræða við þá um að setja kröfugerð samtakanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vildu samtökin þannig kanna vilja þingmanna til að aðstoða við að setja málið á dagskrá og hvetja þingmenn til að sinna hlutverki sínu og sjá til þess að málefnið fái lýðræðislega afgreiðslu. Stjórn HH lýsir yfir ánægju með að allir flokkar sendu fulltrúa á fundinn sem haldinn var seinnipart fimmtudagsins 3. nóvember. Ásamt stjórn HH sátu eftirfarandi fulltrúar þingflokka og þingmaður utan flokka; Þór Saari, Lilja Mósesdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Björn Valur Gíslason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir.

Rætt var um kröfugerð HH um  almennar og réttlátar leiðréttingar á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnám verðtryggingar. Jafnframt var rætt um þann mikla fjölda undirskrifta sem safnast hafa og áframhaldandi undirskriftasöfnun á heimasíðu samtakanna: heimilin.is. Farið var yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru fyrir þingmenn til að setja málið á dagskrá þingsins. Annars vegar er um að ræða þá nálgun að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórn, ákveðnum ráðherra eða ákveðinni þingnefnd væri falið að útfæra og koma á þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar er fyrir hendi sá möguleiki að leggja fram útfært frumvarp til laga um þessa tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu. Báðum valkostum fylgir sá galli að eiga á hættu að daga uppi í nefnd eftir fyrstu umræðu nema samstaða sé á þingi um afgreiðslu málsins. Samtökin telja því mikilvægt að fá sem flesta þingmenn til að gerast meðflutningsmenn málsins. Til vara sjá samtökin þann möguleika að leita til forseta Íslands, því samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar hefur forsetinn heimild til að láta leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga.

Stjórn samtakanna fór þess á leit við þingmenn að þeir myndu færa þingflokkum sínum fregnir af fundinum og kanna undirtektir við að setja kröfugerðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórn HH mun fylgja málinu eftir í næstu viku og kanna afstöðu flokkanna.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum