Svartur fimmtudagur fyrir „réttarríkið“ Ísland
Fimmtudagurinn 26. nóvember var svartur dagur fyrir hagsmuni almennings á Íslandi, en þann dag kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli nr. 243/2015, og undirstrikaði með honum að á Íslandi er réttarríkið í molum. Umrætt mál var höfðað fyrir atbeina Hagsmunasamtaka heimilanna til að leita úrlausnar um ólögmæti verðtryggðra neytendalána samkvæmt skýrum ákvæðum íslenskra laga. Stjórnarskráin kveður á um að dómendum sé skylt að fara einungis eftir lögunum í embættisverkum sínum. Er því algjört hneyksli að það skuli ekki hafa verið gert í þessu tilviki og Hæstiréttur hafi þannig grímulaust farið þvert gegn þessum grundvallarreglum réttarríkisins.
Málatilbúnaðurinn byggðist af hálfu neytenda á lögum um neytendalán, sem kveða á um skyldu lánveitenda til að veita ítarlegar og skýrar upplýsingar um allan kostnað vegna neytendalána. Vernd neytenda á að felast í því að vanræki lánveitendur upplýsingaskyldu, sé þeim óheimilt að innheimta frekari kostnað en þann sem var réttilega upplýst um. Varðandi verðtryggingu liggja fyrir ótvíræð álit Neytendastofu, áfrýjunarnefndar neytendamála, framkvæmdastjórnar ESB og EFTA-dómstólsins, um að það brjóti í bága við evrópskar reglur og íslensk lög um neytendalán að undanskilja verðbætur frá upplýsingagjöf um lánskostnað með því að miða við fráleitar forsendur um 0% verðbólgu.
Þrátt fyrir að í þessu tilviki hafi verið um að ræða algjöran skort á flestum þeim upplýsingum sem skylt er að veita, einkum og sér í lagi um verðbætur, taldi Hæstiréttur í dómi sínum að slík vanræksla skipti ekki máli og hefði engin áhrif á samninga um neytendalán. Með því hafa skýr fyrirmæli í löggjöf frá Alþingi um neytendalán verið höfð að engu og í reynd dæmd ómerk. Það er ekki síst alvarlegt því lögunum var sérstaklega ætlað að uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins vegna EES-samningsins. Þannig hefur Hæstiréttur í raun fellt alla sök vegna ólögmætrar verðtryggingar neytendalána á íslenska ríkið, en slík brot þjóðríkja og æðstu dómstóla þeirra gegn EES-reglum leiða almennt af sér skaðabótaskyldu viðkomandi ríkis. Í því samhengi má benda á að umfang ólögmætra áfallinna verðbóta á lán íslenskra heimila hleypur á hundruðum milljarða króna.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa ávallt talið lánveitendur eiga að bera ábyrgð á því að hafa brotið lög með lánveitingum sínum, en að á hinn bóginn sé fullkomlega óréttmætt að fella bótaskyldu vegna þess á skattgreiðendur. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvaða sjónarmið ráði för hjá dómstólum sem með slíkum hætti fara úr vegi sínum til þess að varpa sökinni yfir á þolendur afbrota í stað gerenda. Helsta ályktunin sem dregin verður af því er að á Íslandi sé alls ekki réttarríki við lýði. Þessi dómur og fjöldi annarra dóma af sama toga, sýna rækilega fram á knýjandi nauðsyn þess að ráðist verði í algjöra uppstokkun dómskerfisins. Jafnframt þarf að nýta það tækifæri sem þá mun gefast til að endurskipa dómstólana aðilum sem eru slíku starfi vaxnir, því það getur ekki gengið í nútímaþjóðfélagi að jafnvel æðstu dómstólar fari ítrekað þvert gegn skýrum og skjalfestum vilja löggjafans.
Neytendur: gefumst ekki upp fyrr en réttlætið nær fram að ganga, og sökin verður send þangað sem hún á heima, en bætur fyrir hana til heimilanna og neytenda á íslenskum fjármálamarkaði!