Ný stjórn kosin á aðalfundi HH
Ný stjórn var kosin á aðalfundi HH í gærkvöldi, miðvikudaginn 15. maí sem haldinn var í sal Stýrimannaskólans við Háteigsveg. Stjórn samanstendur af sjö aðalmönnum og sjö varamönnum.
Aðalstjórn skipa: Páll Böðvar Valgeirsson, Pálmey Gísladóttir, Guðrún Harðardóttir, Gunnar Magnússon, Vilhjálmur Bjarnason, Bjarni Bergmann og Róbert Bender.
Varastjórn skipa: Una Eyrún Ragnarsdóttir, Sigrún Jóna Sigurðardóttir, Þórarinn Einarsson, Sigrún Viðarsdóttir, Guðrún Indriðadóttir, Sigrún Birna Jakobsdóttir og Kristján Þorsteinsson.
Starfsmenn samtakanna bjóða nýja stjórn velkomna til starfa og hlakka til þess að vinna með henni á komandi starfsári 2013-2014.
Hækkun félagsgjalda
Tillaga fráfarandi stjórnar að hækkun félagsgjalda í 2.400 kr.- (var áður 1.800 kr.-) var samþykkt á fundinum. Félagsgjöldin verða áfram valkvæð eins og hingað til.
Tillögur um breytingar á samþykktum HH
Meirihluti fráfarandi stjórnar lagði fram tvær breytingatillögur við samþykktir samtakanna. Þær voru eftirfarandi:
1. Eftirfarandi málsgrein bætist við 9. gr. um stjórn:
Misnotkun stjórnarmanns á merki eða nafni samtakanna varðar brottrekstur úr stjórn. Dæmi um slíkt væri notkun af stjórnmálaflokkum og öðrum hagsmunaaðilum sér til framdráttar.
2. Eftirfarandi málsgreinar bætist við 9. gr. um stjórn:
Félagsmaður sem jafnframt gegnir trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök getur ekki boðið sig fram til stjórnarsetu.
Í samþykktum þessum eru stjórnmálasamtök skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Trúnaðarstörf fyrir stjórnmálasamtök eru störf í stjórnum, ráðum og nefndum og önnur sambærileg störf á vegum eða í þágu stjórnmálasamtaka. Formlegir talsmenn stjórnmálasamtaka, frambjóðendur þeirra, starfsmenn og kjörnir fulltrúar teljast einnig gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.
Nú tekur stjórnarmaður að sér trúnaðarstarf fyrir stjórnmálasamtök. Skal hann þá víkja úr stjórn. Ákvæðið gildir einnig um varamenn. Komi í ljós eftir kjör stjórnamanns að upplýsingum hafi verið ábótavant hvað varðar trúnaðarstörf fyrir stjórnmálasamtök skal hann víkja úr stjórn.
Báðar tillögur voru felldar í atkvæðagreiðslu, sú síðari naumlega með aðeins einu atkvæði.
Ályktanir fundarins
Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum, annars vegar er skorað á sveitarstjórnir að hafa afskipti af nauðungarsölum sýslumanna og hins vegar krafist breytinga í húsnæðismálum á þann veg að samfélagið tryggi rétt allra til hóflegs húsnæðis á kostnaðarverði, hvort sem um ræðir kaup- eða leiguíbúðir.
Ályktun um sveitarstjórnir og nauðungarsölur
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 15. maí 2013, skorar á sveitarstjórnir á landsvísu að stemma stigu við nauðungarsölum sýslumanna og öðrum fullnustugerðum gagnvart íbúum sveitarfélaga sinna, í ljósi þess vafa sem uppi er um lögmæti slíkra gerða á grundvelli fjárkrafna sem vafi leikur á um eða samningsákvæða sem að öllum líkindum eru óréttmæt og þar af leiðandi líklega ólögleg. Einkum og sér í lagi er átt við ákvæði sem kveða á um beina nauðungarsölu án undangengis dómsúrskurðar, en slíkt gengur í berhögg við reglur evrópska efnahagssvæðisins um neytendavernd sem fela í sér ótvíræða skyldu dómstóla og úrskurðaraðila að gæta sérstaklega að neytendarétti varðandi lánssamninga.
Starfsmenn sveitarfélaga eru jafnframt hvattir til þess að gæta hófs í kröfulýsingum á hendur einstaklingum og fjölskyldum vegna vangoldinna opinberra gjalda, í tengslum við nauðungarsölur að frumkvæði fjármálafyrirtækja. Loks er athygli sveitarstjórna vakin á þeim möguleika að stemma stigu við heimilisleysi í sveitarfélaginu með ákvörðun talsvert hærri fasteinagjalda fyrir íbúðarhúsnæði sem lögaðilar hafa eignast í kjölfar nauðungarsölu án undangengins dómsúrskurðar, gjaldþrots eða útburðar. Slík gjöld gætu nýst til þess að standa straum af nauðsynlegri velferðarþjónustu sem sveitarfélaginu er skylt að veita fjölskyldum sem orðið hafa heimilislausar vegna óréttmætra fjármálagjörninga.
Ályktun um breytingar í húsnæðismálum.
Undanfarna áratugi hafa linnulítið ríkt hamfarir í húsnæðismálum almennings á Íslandi. Í meira en aldarfjórðung hefur fjármögnun húsnæðis verið í nær stöðugu uppnámi vegna ofurvaxta sem margfalda húsnæðiskostnað almennings.
Húsnæði er grunnþörf sem samfélagið verður að tryggja aðgang allra að. Aldrei hefur verið virkur leigumarkaður sem gert hefur leiguhúsnæði að raunhæfum valkosti í húsnæðismálum. Þess vegna hefur fólk ekki átt annarra kosta völ en kaupa húsnæði. Þannig hefur vaxtakrafa fjármálamarkaðanna hangið eins og fjárkúgun yfir íslenskum almenningi.
Eina leiðin til að losa íslenskan almenning undan þessu oki er að öllum verði tryggt hóflegt húsnæði á kostnaðarverði, með félagslegri fjármögnun, hvort sem um ræðir kaup- eða leiguíbúðir. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að þeirri meginreglu verði komið á að allir hafi rétt til hóflegs húsnæðis á kostnaðarverði án þess að það verði margfaldað með fjárkúgunarkröfu í formi okurvaxta.