Fyrsta lögbann sinnar tegundar
Í gær tók sýslumaðurinn í Reykjavík fyrir fyrstu lögbannsbeiðni sinnar tegundar, á grundvelli laga nr. 141/2001 til verndar heildarhagsmunum neytenda. Var það beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og talsmanns neytenda (TN) um að lagt yrði lögbann vegna vörslusviptinga án atbeina handhafa opinbers valds, þ.e. án heimildar dómara eða sýslumanns. Sýslumaður gerði kröfu um tryggingu að fjárhæð 3.000.000 kr. og féll ekki frá henni þrátt fyrir rökstudd mótmæli HH og TN í þá veru að trygging ætti ekki við í slíkum málum auk þess sem beiðnin lyti aðeins að því að farið væri að lögum. Sýslumaður hefur heimild til þess að víkja frá tryggingarkröfu ef réttmæti lögbanns er "tvímælalaust í ljósi atvika." Neitaði hann að rökstyðja afstöðu sína í því efni.
Röksemdir HH og TN fyrir því að tryggingargjald ætti ekki við eru eftirfarandi;
1. Lagaheimild skortir enda segir í 2. ml. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 141/2001:"Um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest gilda almennar reglur að öðru leyti". Þarna er ekki vísað til efnisskilyrðis fyrir lögbanni um tryggingu og því engin lagaheimild fyrir hendi. Reglur um að undantekningarreglur beri að skýra þröngt hníga að sömu niðurstöðu.
2. Jafnvel þótt lagaheimild væri fyrir hendi er tilgangur tryggingar (eins og bankaábyrgðar) ljóslega sá að tryggja greiðslugetu sem ekki verður efast um í tilviki ríkisaðila á borð við embætti talsmanns neytenda. Greiðsluvilji er ekki vandamál enda bótaréttur gerðarþola skýr vegna málskostnaðar og annars tjóns ef lögbann yrði ekki staðfest.
3. Með vísan til röksemda í fyrra tölvuskeyti formanns Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) er trygging andstæð tilgangi laga nr. 141/2001 enda virðast engin dæmi um slíkt í evrópskri réttarframkvæmd eins og kom fram í áðursendum gögnum
4. Með vísan tiil neðangreindra röksemda í tölvuskeyti formanns HH er rétt að sýslumaður falli hvað sem öðru líður frá því að sett verði trygging enda hagsmunir umbjóðenda gerðarbeiðenda miklum mun meiri og skýrari en hagsmunir gerðarþola og réttmæti lögbannsgerðarinnar gegn löglausum vörslusviptingum tvímælalaust í ljósi atvika, sbr. 5. tl. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.
HH og TN höfnuðu tryggingarkröfu sýslumanns og munu bera ákvörðun hans undir dómara.