Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Fagleg vinnubrögð eða fúsk Hagfræðistofnunar Háskólans?

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) voru boðuð á fund Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir hádegi í dag þann 17. janúar. Á fundinum voru niðurstöður og greining Hagfræðistofnunar kynntar fulltrúum HH og afhent afrit af skýrsludrögum. Skýrslan er 20 blaðsíður og hefur verið beðið eftir niðurstöðum frá í nóvember. Í tvo mánuði hefur Hagfræðistofnun unnið í skýrslunni sem er meingölluð frá upphafi til enda og vert væri að spyrja hvað þetta ævintýri hafi kostað skattborgara? HH var gefinn sólarhringur til að bregðast við og gera athugasemdir við skýrsluna áður en hún fer í birtingu. Í stuttu máli má segja að sólarhringsfresturinn einn og sér sé efni í sérstaka gagnrýni og getur hver maður séð að slíkt er varla svara vert þegar gefið var til kynna af hálfu stjórnvalda að skýrslan yrði unnin þannig að HH fengi aðgang að Hagfræðistofnun til að koma á framfæri spurningum og síðan gefið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og gagnrýni áður en skýrslan birtist.

Sólarhringsfresturinn verður að auki sérefni í gagnrýni þegar skýrsludrögin eru lesin og kemur í ljós að fjölmargar athugasemdir þarf að gera við þau. Eins ber að taka fram að fulltrúar HH lögðu fram fjölmargar spurningar um viðfangsefnið áður en vinnan við skýrslugerð hófst og er fæstum þeirra svarað.

Stjórnvöld og Háskólinn höfðu kjörið tækifæri til að sýna almenningi fram á réttar tölur með því að skipa fyrir um að fulltrúar Hagfræðistofnunar fengju aðgang að öllum gögnum um afslætti og yfirfærslu lánasafna frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju með því að skýra fyrir bankastjórnendum að bankaleynd nær ekki yfir slík gögn, heldur er bankaleynd ætlað að vernda persónuupplýsingar sem koma hvergi fram í slíkum gögnum sem gefa heildaryfirsýn yfir stöðu bankanna.

Skýrslan skilar ekki því sem henni var ætlað; að eyða óvissunni um svigrúm bankanna út frá þeim afslætti sem þeir fengu af lánasöfnum við yfirfærslu frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þvert á móti, þá eru skýrsludrögin ekki til annars en að valda frekari talnamengun. Þá er rétt að taka fram að Hagfræðistofnun leggur ekkert mat á það hvernig bankarnir hafa verið að skrifa upp hagnað í bókum sínum upp á 164 milljarða til samans frá hruni (sem HH hafa ítrekað bent á að er að hluta til tilkominn vegna afsláttar sem þeir fengu en ekki af eðlilegri viðskiptastarfsemi).

Skýrslan er engan veginn birtingarhæf að mati samtakanna. Samtökin munu gera mjög margar alvarlegar athugasemdir við skýrsludrögin - sem þó er engin trygging fyrir að fáist birtar. Ætli Hagræðistofnun og stjórnvöld sér að birta skýrsluna eins og hún er núna mun orðspor þeirra bíða hnekki. Þess má geta í því samhengi að "virtir hagfræðingar" hafa samið langar og ítarlegar lofgjörðir um íslenskt efnahagslíf og stöðu banka sem ekki var fótur fyrir.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum