Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Landsfundurinn styður kröfur HH

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti ályktun um fjármál heimilanna.
Í henni segir meðal annars:

  • Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða lög nr. 151/2010 sem ríkisstjórnin setti í kjölfar ólöglegu gengislánanna. Lagasetningin hefur aukið á óvissu, kallað á málaferli og skaðað stöðu lánþega. …
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. …
  • Landsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með sama hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, sem getur leitt til að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar. Verðtrygging neytendalána á ekki að vera valkostur í nútímasamfélagi.

Afstaða landsfundarmanna er í fullu samræmi við niðurstöður könnunar sem HH létu nýlega framkvæma. Í könnuninni kom meðal annars fram að 79% af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu Alþingiskosningum eru hlynnt afnámi verðtryggingar og 83% af kjósendum flokksins eru fylgjandi almennri niðurfærslu lána.

Þingmenn flokksins ættu því ekki að þurfa að velkjast í vafa um hver vilji Sjálfstæðismanna er í þessum efnum.  Nú verður forvitnilegt að sjá hvort forystan leiðir fram vilja fundarins eða ekki sérstaklega í ljósi nýlegra ummæla formannsins um að "verðtryggingin sé ekki vandamálið, heldur verðbólgan".

Bæði Framsóknarflokkurinn og Hreyfingin taka undir kröfur HH og ber að geta þess að báðir stjórnarflokkar hafa ályktað í þá veru að lán beri að leiðrétta og verðtyggingu að afnema, en svo virðist sem forystan sé treg til framkvæmda.

Hagsmunasamtök heimilanna vinna nú út frá þverpólitískri nálgun sinni að því að fá þingmenn til þess að leggja fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ríkisstjórnin hefur ekki tekið nein skref í áttina að því að leiðrétta lán með almennum hætti og afnema verðtrygginguna.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum