Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Umræðufundur um stöðu heimilanna - upptaka

Umræðufundur um stöðu heimilanna - upptaka

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir umræðufundi um stöðu heimilanna í Iðnó snemma á árinu. Samtökin kölluðu til opins fundar og pallborðsumræðu baráttufólks fyrir bættum fjárhag heimilanna í efnahagslegum ólgusjó, þá ekki síst í húsnæðismálum. Fundurinn var tekinn upp og hér vill stjórn samtakanna deila upptökunni með félagsmönnum, velunnurum og samstarfsfólki á YouTube rás samtakanna. Efni fundarins var meðal annars hæg uppbygging hagkvæmra íbúða fyrir almenning og leigumarkaður sem er sannarlega ekki leigjendavænn. Síðast en ekki síst var rætt um verðtryggingu lána og slæma stöðu lántakenda í íbúðakaupum sem standa frammi fyrir sífelldum hækkunum á greiðslubyrði vaxta og oftar en ekki höfuðstóls þar að auki.  Fyrirhyggju með almannahag að leiðarljósi skortir og hefur lengi skort í þessum málaflokkum. 

Í pallborði voru: Ragnar Þór Ingólfsson (VR), Guðmundur Hrafn Arngrímsson (Samtök leigjenda), Marinó G. Njálsson (samfélagsrýnir), Vilhjálmur Birgisson (VLFA) og Ásthildur Lóa Þórsdóttir (alþingismaður og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna). Framsöguræður fluttu Vilhjálmur, Marinó G. Njálsson, Guðmundur Hrafn og Ragnar Þór.

Upptaka: Heimilin í fyrsta sæti - Iðnó 28. febrúar 2023

  

Húsnæðismarkaður fyrir almenning?

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður samtaka leigjenda og stjórnarmaður hjá samtökunum fjölluðu um húsnæðismál. Formaður VR sagði frá reynslu sinni og annarra á vegum VR af uppbyggingu hagkvæmra íbúða en leit hans að stuðningi við uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum fyrir almenning hefur gengið hægt. Eftir margra ára vinnu eru þó metnaðarfull verkefni að líta dagsins ljós. Guðmundur Hrafn Arngrímsson greindi frá starfi sínu hjá samtökum leigjenda og baráttu sinni fyrir sanngjarnari leigumarkaði á Íslandi. Hans sýn á leigumarkaðinn er að hann lúti nánast engum takmörkunum eða verndandi regluverki fyrir leigjendur. Leigumarkaðurinn sé fyrst og fremst hagfelldur leigusölum og fjárfestum.

 

Þensluhvetjandi hagkerfi og heimilin borga

Marinó G. Njálsson, upplýsingatæknisérfræðingur og fyrrum stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna fjallaði um eiginleika verðtryggðra lána og útreikning vísitölu neysluverðs sem verðbætur slíkra lána taka mið af. Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi sagði frá baráttu sinni fyrir afnámi verðtryggingar. Á meðan hann rifjaði upp langa sögu um loforð stjórnmálamanna um afnám verðtryggingar minnti hann á hættuna sem nú felst í verðtryggðum lánum, þar sem höfuðstóllinn hækkar sífellt í hárri verðbólgu. Lántakendum er boðið upp á sama óstöðugleika með breytilegum vöxtum óverðtryggðra lána. Hann leggur áherslu á að ná þurfi fram lækkun vaxta og stöðugleika í lánaumhverfi heimilanna. Það er löngu tímabært að setja heimilin í fyrsta sæti!

Hlustið, horfið og deilið!

Hagsmunasamtök heimilanna

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum