Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Neytendavernd á fjármálamarkaði

Neytendavernd á fjármálamarkaði

Hagsmunasamtök heimilanna hafa hlotið styrk frá Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu til verkefnisins Neytendaréttur á fjármálamarkaði - ráðgjöf, stuðningur og hagsmunagæsla. Um er að ræða styrk frá ráðuneytinu af safnliðum fjárlaga 2022 að upphæð 3.000.000 kr.

Í umsókn Hagsmunasamtaka heimilanna um styrk til ráðuneytisins var sótt um styrk og brautargengi fyrir hagsmunagæslu lántakenda og lögfræðilegri ráðgjöf því öll heimili eiga rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Skilyrðislaus hagsmunagæsla og óháð ráðgjöf er brýnust í alvarlegum greiðsluerfiðleikum og álitamálum, ekki síst ef nauðungarsala heimilis gæti verið yfirvofandi.

Þetta er skýr afstaða samtakanna og byggir á reynslu þeirra af efnahagshruninu. Í umsókninni var afstaða samtakanna kynnt en hún hefur verið kynnt ráðuneytinu áður, því samtökin hafa leitað hófanna nú um nokkurt skeið um þjónustusamning við starfsemina. Öllum fjárstuðningi er tekið fagnandi en stjórn samtakanna mun halda áfram að leita að traustum stuðningi við ráðgjafarþjónustu Hagsmunasamtaka heimilanna og brautargengi sem mun efla neytendavernd á fjármálamarkaði á Íslandi. 

 

Félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

 

Félags- og vinnumarkaðsráðherra bauð styrkþegum í ár að vera viðstaddir athöfn og veita styrkjum viðtöku, föstudaginn 8. apríl á Hilton Reykjavík Nordica. Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna veitti styrknum móttöku fyrir hönd samtakanna og var fulltrúi þeirra á meðal annarra styrkþega og frumkvöðla af vettvangi félagasamtaka. Ásthildur Lóa heldur áfram að gegna hlutverki formanns stjórnar, eftir að hafa gengt því farsællega síðastliðin ár. Hún hefur eindreginn stuðning stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna í sínu starfi.

Síðast en ekki síst er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna einnig Alþingismaður fyrir Flokk fólksins og sem alþingismaður hefur hún sýnt það í verki fyrir hvaða málstað hún brennur og starfar. Allir stjórnarmenn samtakanna starfa að málefnum heimilanna á fjármálamarkaði af hugsjón og starfið er ólaunað. Markmiðið er og hefur verið að efla neytendavernd á fjármálamarkaði á víðum grunni.

Hagsmunasamtök heimilanna

 

 

8. apríl 2022/ Félags- og vinnumálaráðuneytið:

Félags- og vinnumarkaðsáðherra veitir styrki til frjálsra félagasamtaka

 


© Hannað af Filmís