Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Eiga bankarnir alltaf að vera stikkfrí?

Eiga bankarnir alltaf að vera stikkfrí?

Aðalfundur 2022 - ávarp formanns á aðalfundi 23. febrúar

Við í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna höfum stundum haft það á orði að samtökin ættu ekki að vera til; að það ætti ekki að vera þörf fyrir samtök sem þessi. En nú þegar þjóðfélagið og heimurinn allur hefur verið í greipum farsóttar og afleiðingar hennar á efnahagslífið hafa verið áberandi í opinberri umræðu í tvö ár má færa rök fyrir því að þörfin fyrir þau hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en nú síðan þau voru stofnuð. 

Þörfin eftir hrunið var mikil. Þá tók ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir þá meðvituðu ákvörðun að fórna heimilunum og Hagsmunasamtök heimilanna tóku til varna fyrir þau. Því skal haldið til haga að hefðu Hagsmunasamtök heimilanna ekki verið til staðar hefði enginn tekið til varna fyrir heimilin. Augljóslega var þá, eins og alla tíð síðan, við ofurefli að etja og að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín, VEGNA stjórnvalda sem með aðgerðum sínum, eða eftir atvikum aðgerðarleysi, festu heimilin í gildru bankanna, þar sem þau gátu enga björg sér veitt. Þetta vitum við sem störfum á vettvangi Hagsmunasamtakanna því mörg okkar lentu í þessum hakkavélum bankanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir smíðaði fyrir þá.

Ef við lentum ekki sjálf í þessari skelfingu höfum við horft upp á og orðið vitni að aðförum bankanna gegn ástvinum og fylgst með einhverjum þeirra þúsunda mála sem hafa komið á borð HH. Við vitum hvað getur gerst og við sjáum viðvörunarmerkin, jafnvel þegar enginn annar virðist sjá þau eða vilja viðurkenna stöðuna eins og hún er.

 

Núna blikka öll viðvörunarljós eins og jólatré á sterum

Þau hafa blikkað lengi, að minnsta kosti frá upphafi faraldurs þegar Hagsmunasamtökin sáu fyrst hvert stefndi, vöruðu við verðbólgunni sem framundan væri og kröfðust þess að heimilin yrðu varin. Fyrsta aðvörunin og krafa um vernd fyrir heimilin var nánar tiltekið send frá okkur 11. mars 2020 (Viðspyrnu er þörf fyrir hagkerfið og heimilin / RÚV: Ekki minnst einu orði á heimilin). Hún vakti mikla athygli og var fylgt eftir með Áskorun til Ríkisstjórnar Íslands og Alþingismanna.

Til að gera langa sögu stutta, þá var gert lítið úr áhyggjum okkar. Bæði fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri sögðu ábúðarmiklir að engin hætta væri á verðbólgu, því Seðlabankinn hefði sett sér verðbólgumarkmið og myndi standa vörð um það. Þetta vekur upp spurningar um af hverju verðbólga hafi nokkurn tímann verið á Íslandi fyrst Seðlabankinn þarf ekki annað en að setja sér markmið til að hún verði ekki. Síðan hefur allt ræst sem Hagsmunasamtökin vöruðu við og staða heimilanna versnar stöðugt. 

Það er umhugsunarefni út af fyrir sig, að grasrótarsamtök sem rekin eru af sjálfboðaliðum og samtals einu stöðugildi, spái betur fyrir um efnahagshorfurnar en Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og allar hagdeildir bankanna geta gert, en nóg um það hér. Eftir stendur sú staðreynd að EKKERT, ekki nokkur skapaður hlutur, hefur verið gerður til að verja heimilin fyrir efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs. 

Það hefur hins vegar verið tryggt og varið á alla kanta, að bankarnir fái sitt og miklu meira til. Vissulega hefur verið gripið til aðgerða til að verja fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjumissi og Hagsmunasamtökin fagna því. Þannig aðgerðir hljóta alltaf að skila sér til einhverra heimila sem verða þá síður fyrir tekjumissi en það er ekki SÚ vörn fyrir heimilin sem við erum fara fram á. Til að verja heimilin þarf að setja þak á húsnæðiskostnað heimilanna. Það þarf að gera þá kröfu á fjármálastofnanir að þær séu þátttakendur í samfélaginu og að fjármagnsöflin lagi óhóflegar kröfur sínar um hagnað að ástandinu í þjóðfélaginu, í stað þess að nýta sér það til hagnaðar og standa svo eins og gráðugir úlfar sem bíða þess að feitir bitar falli þeim í skaut. 

Mjög margir hafa orðið fyrir tekjumissi á þessum tveimur árum og hjá mörgum fyrirtækjum og einstaklingum er staðan virkilega alvarleg. Væri ekki allt í lagi að bankarnir myndu finna eitthvað fyrir kreppunni á sama hátt og allir aðrir? Eiga þeir alltaf að vera stikkfrí? Og það er ekki nóg með að þeir séu stikkfrí, þeir hafa aldrei hagnast jafn mikið og í einni verstu kreppu sem heimurinn hefur gengið í gegnum. Viðbrögð Seðlabankans við þessu felast í því að auka álögurnar á heimilin með því að hækka vexti. Það er í fyrsta lagi mjög vafasamt að vaxtahækkanir nái yfirlýstum árangri, sem er að sögn að slá á verðbólgu.

En það er klárt að hún nær þeim árangri sem engin talar um, sem er sá að færa eignir heimilanna hratt og örugglega í hendur bankanna. Þessar vaxtahækkanir eru ekkert annað en hrein og klár eignatilfærsla. Sú “eiginfjárstaða” heimilanna, sem fjármálaráðherra hreykir sér af, byggist á því að húsnæðisverð hefur hækkað og heldur áfram að hækka, svo mikið að það að geta búið sér heimili er að verða að lúxus fyrir útvalda. Þessi “eiginfjárstaða” byggir ekki á því að skuldir heimilanna við bankanna séu að lækka eins og ætti að vera viðmiðið. Þegar “eiginfjárstaða” heimilanna batnar eingöngu vegna verðhækkunar á húsnæðisverði þannig að hlutfall skulda, gagnvart uppskrúfuðu húsnæðisverði lækkar, án þess að fjárhagslegar skuldbindingar heimilanna taki nokkrum breytingum, er eitthvað mikið að og þessi staða hlýtur að leiða okkur í ógöngur áður en langt um líður. 

Eina „lausn­in“ sem heim­il­unum er boðið upp á til að standa undir þessum hækk­unum lána sem Seðla­bank­inn er að færa bönk­unum á silf­ur­fati, er að nota sér­eigna­sparn­að­inn sinn til að greiða niður skuldir og létta á greiðslu­byrði. Það að þessi leið sé í boði sem „lausn“ sýnir betur en flest annað hversu skakkt kerfið er. Með því er verið að færa sér­eign­ar­sparnað ein­stak­linga, sem á að létta þeim lífið á efri árum, beint í vasa bank­anna og gera hann um leið aðfararhæfan.

Þetta er ótrú­lega skamm­sýn hugs­un. Að því sögðu er ekki furða að fólk nýti sér það úrræði, margir eiga ekki ann­arra kosta völ, en að þessa „lausn“ þurfi til svo fólk geti staðið undir skuld­bind­ingum sín­um, leiðir í ljós þá staðreynd að þetta kerfi stendur ekki undir sér og hlýtur að riða til falls áður en langt um líð­ur, en þá verða bank­arnir löngu búnir að hala inn sinn góða feng, og aðrir sem munu sitja uppi með skað­ann. Auk þess er vert að hafa í huga að í öðrum sið­mennt­uðum löndum getur fólk gert hvort tveggja, greitt af hús­næði sínu OG safnað til efri áranna.

 

Staðan núna

Svona er staðan nú þegar Hagsmunasamtök heimilanna gera upp starfsemi síðasta árs á aðalfundi samtakanna árið 2022. Enn er beðið eftir sértækum aðgerðum fyrir heimilin enda hafa fram til þessa, einu raddirnar sem gagnrýna milljarða ágóða bankanna eða vaxtahækkanir þeirra komið frá Hagsmunasamtökunum og örfáum aðilum innan verkalýðshrefingarinnar.

Hagnaðartölur bankanna eru ekki í neinu samræmi við kjör venjulegs fólks sem samviskusamlega greiðir af fasteigna- og neytendalánum sínum, verðtryggðum eða með breytilegum vöxtum, eins og samtökin hafa ítrekað vakið athygli á mörg undanfarin ár. Dropinn holar þó steininn og á undanförnum vikum hafa nokkrir stjórnmálamenn loksins stokkið um borð með okkur og stutt við málflutning samtakanna um ofurhagnað bankanna og þau áhrif sem hann hefur á heimili landsins.

Það er ánægjulegt að sjá málflutning Hagsmunasamtakanna hljóta hljómgrunn stjórnmálamanna og samtökin fagna öllum stuðningi við málstað heimilanna. Það hefði þó óneitanlega verið gott ef þeir, hvort sem er fólk eða flokkar, hefðu stutt okkur fyrr, því þá er hugsanlegt að heimilin á Íslandi væru betur stödd en þau eru í dag, auk þess sem samtökin hafa ýmsa fjöruna sopið í þessum málum og lært það af reynslu að ekki fylgir alltaf hugur máli þegar stjórnmálamenn tala. Við verðum samt að vona að svo sé og að orðum fylgi athafnir.

Hagsmunasamtökin hafa haldið uppi umræðunni um varnir fyrir heimilin frá upphafi heimsfaraldurs og spurt áleitinna spurninga. Til dæmis höfum við spurt hver samfélagsleg ábyrgð banka sé, ekki síst í heimsfaraldri. Er hún einhver eða engin? Geta bankar virkilega haldið áfram að hækka vexti og mala gull á venjulegu fólki í þrengingum? Fulltrúar hæsta tekjulags samfélagsins vísa í sterka fjárhagsstöðu heimilanna og aukinn kaupmátt til að réttlæta stýrivaxtahækkun fyrir hagkerfið í heild sinni, aðgerð sem þó hefur eingöngu slæm áhrif í för með sér fyrir stóran hóp fólks, ekki síst lág- og millitekjuhópa og þá sem bundnir eru í klafa verðtryggðra lána eða skilmála um breytilega vexti. Í raun má segja að húsnæðislán landsmanna séu óútfylltur tékki, því við vitum aldrei fyrir víst hvað við eigum að borga mikið frá mánuði til mánaðar. Verðtrygging eða breytilegir vextir. Alltaf eru bankarnir með belti og axlabönd. Réttindi neytenda eru hins vegar lítils virt. Þessu þarf að breyta og það hefur verið meginstef samtakanna í umræðunni frá upphafi.

 

Starfið á árinu

Hagsmunasamtök heimilanna sendu á síðastliðnu ári áskoranir til ríkisstjórnarinnar, töluðu fyrir málefnum heimilanna í starfshópi um efnahagsaðgerðir í kjölfar Covid-19 og funduðu með forsætisráðherra og fjármálaráðherra og fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, ásamt því að senda frá sér fjölda tilkynninga, greina og umsagna. Það er gert til að hafa áhrif á umræðuna um húsnæðis- og lánamál heimilanna og hvetja til aðgerða. Ákall samtakanna hófst löngu áður en verðbólgan komst í óefni eða heimsfaraldur skall á, í mars 2020. Krafan hefur einfaldlega verið sú að heimilin séu varin fyrir verðbólgunni og verðtryggingunni sem og að bankarnir sýni samfélagslega ábyrgð í verki.

Það er hins vegar fyrst á þessu ári sem umfjöllun um áhrif verðbólgunnar hefur loks komist að í stjórnmálaumræðunni, enda er hún komin nálægt sex prósentustigum. Svo há verðbólga er alvarleg ógn við stöðugleika í fjárhag heimila, eins og margir félagsmenn þekkja af eigin raun. Það eitt og sér er verulega ámælisvert og óhætt að segja að ríkisstjórnin hafi verið í algjörri afneitun og flotið sofandi að feigðarósi á meðan augljóst var í hvað stefndi. Það er ekki merki um þá “traustu efnahagsstjórn” sem ríkisstjórnin þykist geta státað af, að láta reka á reiðanum með þessum hætti auk þess sem hún virðist ekki skilja að það eru heimilin sem eru undirstaða efnahagslífsins, því án þeirra hefðu hvorki bankar né fyrirtæki neitt að gera.  

 

Er “faðmur” verðtryggingarinnar “hlýr”? 

Hagsmunasamtökin hafa barist fyrir afnámi verðtryggingar á lánum neytenda frá stofnun sinni í byrjun árs 2009. Verðtrygging á hins vegar fullan rétt á sér í réttu samhengi og hreinlega verður að vera fyrir hendi á lánum milli fagfjárfesta og banka, sem og ríkisskuldabréfum, því þannig hafa þessir aðilar hag að því að halda verðbólgunni í skefjum. 

Á Íslandi hefur þessu hins vegar verið snúið við. Hér er verðtrygging á lánum neytenda, sem hafa enga möguleika á því að hafa áhrif á verðbólguna, en ekki í sama mæli á skuldbindingum fagfjárfesta og banka sem hafa þess vegna haft gríðarlegan hag af því að verðbólga sé alltaf til staðar og græða beinlínis á henni. Verðtryggð lán eru flókin afleiðulán og eiga aðeins að vera á boðstólum fyrir fagfjárfesta sem gera ekkert annað en að fylgjast með markaðnum og spá í afleiðingar hans á lán sín og fjárfestingar. Neytendur hafa hins vegar hvorki bolmagn né þekkingu til þess auk þess sem þeir hafa enga leið til að hafa áhrif á markaði eða afleidd áhrif þróunar þeirra á lán þeirra og skuldbindingar.

Inni í félagsmálaráðuneytinu liggur skýrsla sem ekki fæst birt, enda leiðir hún í ljós hversu alvarlega ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa brotið gegn heimilum landsins og það má fullyrða að þær ríkisstjórnir sem setið hafa frá hruni hafi sýnt einbeittan vilja til þess að viðhalda því broti gagnvart þjóðinni sem felst í útbreiðslu verðtryggingar á skuldbindingum almennings. Það skal tekið fram að þáverandi félagsmálaráðherra segist hafa haldið að skýrslan hefði verið birt og gefið fyrirmæli um það og núverandi félagsmálaráðherra hefur tekið mjög vel í að skoða málið og athuga hvort hún fáist birt vegna reglna um birtingu skýrslna samkvæmt beiðnum frá fyrri þingum, en niðurstaða hefur ekki enn fengist í það mál. 

Skýrslubeiðnin var lögð fram haustið 2018 á Alþingi til þáverandi félags og jafnréttismálaráðherra um úttekt á stöðu ólíkra hópa fólks með tilliti til eigna-, tekju- og atvinnustöðu tíu árum eftir hrun. Frummælandi var Þórunn Egilsdóttir heitin, þingmaður Framsóknarflokksins en alls stóðu 12 þingmenn úr 5 flokkum að skýrslubeiðninni. Skýrslubeiðnin var útfærð í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna sem komu liðnum „Áhrif verðtryggingar lána heimilanna á heimilin og hagkerfið“ að í skýrslubeiðninni.

Aðrir liðir skýrslubeiðninnar snerust aðallega um mikilvægar tölulegar upplýsingar sem gætu komið að góðum notum þegar Rannsóknarskýrsla heimilanna verður loksins gerð. Ólafur Margeirsson hagfræðingur var fenginn til að leiða vinnu við skýrslugerðina enda er skýrslan vel og fagmannlega unnin þó teymið hans hafi ekki fengið svör við öllum sínum spurningum. Ástæða þess að vinnan við skýrsluna tók jafn langan tíma og raun ber vitni er að opinberir aðilar svöruðu fyrirspurnum oft bæði seint og illa eða jafnvel neituðu að veita upplýsingar sem þeir búa yfir. Það er annarra að takast á við þann vanda stjórnsýslunnar og verður ekki nánar fjallað um það hér.

Í stuttu máli leiðir kaflinn um “Áhrif verðtryggingar á hagkerfið og heimilin” það glögglega í ljós að verðtryggingin veldur:

 • Aukinni verðbólgu
 • Háum stýrivöxtum
 • Óstöðugra gengi krónunnar
 • Auknum sveiflum efnahagslegra mælikvarða
 • Hækkun húsnæðisverðs sem aftur leiðir til hærri skuldsetningar

Verðtryggingin hreinlega breytir almenningi í fóður fyrir bankanna. Um þetta fjölluðum við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í grein sem birtist á visir.is skömmu fyrir kosningar og heitir Saga um staðfestan glæp gegn þjóðinni. Til nánari skýringa vísast í hana. 

Eftir stendur sú staðreynd að verðtryggingin er hunangsgildra sem fólk er veitt í með fyrirheitum um lægri afborganir húsnæðislána en í raun má frekar líkja þessu við það að pissa í skóinn sinn. Vissulega eru afborganirnar lægri til að byrja með, en eins og staðan er í dag þá tekur það ekki nema um tvö ár fyrir mánaðarlega greiðslubyrði verðtryggðs láns að ná sambærilegu óverðtryggðu láni. Þá eru 38 ár eftir af lánstímanum og á þeim tíma hækkar greiðslubyrði verðtryggðs láns í takti við hækkandi höfuðstól. Í fyrstu hægt en svo koma snjóboltaáhrifin í ljós og hún hækkar í veldisvexti til loka lánstímans.

Neytandinn borgar og borgar en eignast í raun ekki neitt, fyrr en á allra síðustu metrunum, ef hann ræður yfirleitt við þær margföldu afborganir sem hann þarf þá að standa undir. Áður en þar að kemur hafa flestir endurfjármagnað og fest sig í vítahring verðtryggingar út lífið. Margoft hefur verið reynt að réttlæta verðtryggingu með því að án hennar standist þeir tekjulægstu ekki greiðslumat bankanna. Þannig að lausnin sem boðið er upp á fyrir þá tekjulægstu, eru óhagstæðustu lán sem fyrirfinnast í víðri veröld. Er það ekki hreinlega brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar fyrir utan þær óteljandi siðferðislegu spurningar sem setja má við slík viðhorf? 

Kjarni málsins er náttúrulega sá að Íslendingar búa við fársjúkt lánaumhverfi og það verður ekki lagað með því að festa þá sem verst eru staddir í gildru verðtryggðra lána. Hún felst í því að banna þau með öllu til að verja neytendur fyrir þeim og þá um leið munu vextir lækka því bankarnir verða að lána og þá verður fólk að hafa efni á því að taka lán. Nú er verðtryggðum lánum hampað sem lausn í verðbólgu og jafnvel gengið svo langt að tala um “hlýjan faðm verðtryggingarinnar” á óvissu tímum. Þetta er hrein og klár lygi. Það er ekki hægt að nota mildara orð um það. Þetta er lygi og blekking til að tæla neytendur sem flúið hafa verðtrygginguna aftur í gildruna. Þegar svo fjármálaráðherra sjálfur ræðir um verðtrygginguna sem “lausn” er hann að skorast undir sinni ábyrgð til að takast á við vandann sem fyrir er. Hann á einfaldlega að krefjast þess að bankarnir taki samfélagslega ábyrgð og lækki sína vexti.

Fimm ára gamalt verðtryggt lán upp á 30 milljónir stendur núna í um 32,5 milljónum króna. Haldist verðbólgan í 5,7% út þetta ár, mun neytandinn borga 7,3 milljónir í viðbót á lánstímanum, vegna þessa eina árs og eins og staðan er í dag er ekki útlit fyrir að verðbólgan lækki í bráð. Jafnvel þó verðbólgan lækki á næsta ári, mun þetta lán líka hækka þá um einhverjar milljónir ofan á það sem þegar er og þá bætist verðbólgan ekki aðeins á 30 milljónir heldur ofan á 33,5 milljónir, samkvæmt mjög einfölduðum útreikningi. Þannig verða til snjóboltaáhrif og veldisvöxtur í afborgunum lánsins út lánstímann. 

Það er skylda ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að vöxtum verið stillt í hóf, þannig að heimilin ráði við skuldbindingar sínar án þess að flýja í faðm úlfs sem gleypir þau lifandi. Verðtryggingin gerir ekkert annað en að seinka vandanum og lengja í snörunni. Afleiðingarnar verða samt þær sömu eða svipaðar á endanum.

 

Hagnaður bankanna

Stjarnfræðilegur hagnaður bankanna er náttúrulega úr öllu korti og nær ekki nokkurri átt. Þrír stærstu bankar landsins högnuðust um 81,3 milljarða á síðasta ári og ef öll þjóðin, 360.000 manns væri í viðskiptum hjá þeim, þá hefði hvert og eitt okkar greitt 225.000 krónur til bankanna á síðasta ári. Við höfum reyndar greitt mun meira til bankanna en það, því þetta er það sem bankarnir hafa innheimt af okkur umfram þörf þeirra til að reka sig en það höfum við þegar greitt til þeirra með einum eða öðrum hætti. Það er algjörlega sjálfsagt að greitt sé af lánum og kannski eitthvað fyrir raunverulega veitta þjónustu, en er virkilega hægt að réttlæta að hvert og eitt okkar greiði 225.000 krónur í HAGNAÐ bankanna? Þetta er langt umfram “þörf” þeirra til að geta rekið sig. 225.000 krónur á mann, þýðir 450.000 krónur á hjón eða pör.

Margir fá ekki meira en 450.000 krónur í útborguð laun og sumir enn minna. Það má því segja að heil mánaðarlaun hafi runnið frá hverju pari til bankanna árið 2021. En þá erum við ekki farin að taka með í reikninginn að inni í þessum tölum eru líka börn, þannig að hjón með tvö börn hafa séð á eftir 900.000 krónum til bankanna á síðasta ári. Heil mánaðarlaun frá báðum fyrirvinnum fjölskyldunnar. Ætli þau hefðu viljað styðja eitthvað annað frekar ef þau hefðu fengið að velja? Eða ætli þeim hefði munað um þessa upphæð í heimilisbókhaldinu? 900.000 Á EINU ÁRI eða 75.000 krónur á hverjum mánuði síðasta árs! Þessum stjarnfræðilega hagnaði vill ríkisstjórnin ólm koma í hendur fjárfesta. Mantran um að ríkið eigi ekki að eiga banka hefur aldrei verið rökstudd en hins vegar endurtekin svo oft í sértrúarsöfnuði frjálshyggjunnar að ótrúlegasta fólk trúir henni án þess að efast um sannleiksgildi hennar.

Hagsmunasamtök heimilanna benda á að eftir að hafa verið tugi ára í ríkiseigu, sem gekk að mestu stóráfallalaust fyrir sig, tók það fjárfesta aðeins örfá ár, að setja bankana á hausinn auk þess að draga þjóðina alla með sér í fallinu. Á hverjum lenti svo áhættan, sem fjármálaráðherrann vill ólmur verja þjóðina fyrir? Hún lenti á okkur. Þjóðinni. Heimilunum í landinu og sum þeirra guldu hreinlega fyrir þetta glæfraspil með lífi sínu. Þeim var fórnað á altari bankanna og hent í gráðugan kjaft þeirra. Það sama mun gerast “næst”. Því “næsta skipti” mun svo sannarlega koma á endanum fái fjárfestar, vogunarsjóðir, fjárfestingarsjóðir og fjárglæframenn að fara sínu fram, sem sagan sýnir að þeir muni vissulega fá að gera. 

Það er algjörlega ljóst að bankarnir eru að taka allt of mikið til sín af fjármagninu í landinu. Því þarf að breyta en það er morgunljóst að hagnaður þeirra mun ekki minnka þegar svokallaðir “fagfjárfestar” sem hugsa ekki um neitt annað en eigin hagnað verða komnir með öll völd. Það versta sem ríkisstjórnin getur gert er að láta allan þennan hagnað flæða til þeirra einkanota. Í versta falli á hann að koma þjóðinni til góða í gegnum eignarhald ríkisins á bönkunum. Það besta sem ríkisstjórnin gæti gert væri að stofna samfélagsbanka og minnka álögur bankanna á heimilin, því þessum fjármunum er best komið í þeirra höndum. En nú á selja þannig að það er erfiður slagur á næsta leiti.

 

Framtíðin

Hagsmunasamtökin standa á tímamótum. Það má segja sem svo að þau hafi fyrir löngu slitið barnsskónum án þess að hafa getað flutt almennilega að heiman og það hefur hamlað vexti þeirra. Samtökin eru aðallega rekin fyrir félagsgjöld og þeim hefur alltaf verið skorinn þröngur stakkur fjárhagslega. Af þeim sökum eru allir stjórnarmenn í sjálfboðavinnu og einungis ein launuð staða sem hefur skipst á tvo aðila, lögfræðing samtakanna og starfsmann skrifstofu sem heldur utan um allt starf samtakanna. Án starfsmanns skrifstofu væri ekki nokkur leið fyrir stjórnarmenn að reka samtökin, meðfram annarri vinnu. Það þarf svo ekki að ræða mikilvægi lögfræðings samtakanna því mjög stór hluti af starfi samtakanna byggist að meira eða minna leyti á lögfræðilegum grunni. Þessir tveir starfsmenn hafa í sameiningu sinnt ráðgjöf við þá sem til okkar leita.

Það hefur verið stefna Hagsmunasamtakanna frá upphafi að vísa engum frá. Allir sem til okkar leita fá aðstoð og leiðbeiningar við lausn sinna mála. Það er algengt að þeir sem til okkar leita hafi leitað eftir aðstoð annars staðar fyrst, hjá lögfræðingum eða Umboðsmanni skuldara, en ekki fengið ráðleggingar sem komu að gagni eða þá aðstoð sem þau þurftu til að leysa úr sínum málum, fyrr en hjá HH. Ástæða þess er í mörgum tilfellum sú að margir lögfræðingar og Umboðsmaður skuldara, virðast ekki þekkja réttindi neytenda nógu vel eða líta á kröfur bankanna sem “endanlegan dóm”. Oft liggja t.d. inni fyrndar kröfur hjá innheimtuaðilum eða Creditinfo, sem einungis þarf að skrifa eitt eða tvö bréf út af til kröfuhafa til þess að leysa málin.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu ekki á valdi HH að hjálpa öllum, en við getum þó nánast alltaf leiðbeint í gegnum frumskóginn sem þessi mál eru í augum flestra og veitt stuðning í gegnum það ferli. Oft er sá stuðningur mikils virði fyrir þau sem upplifa sig ein í erfiðum aðstæðum. Hagsmunasamtökin stefna að því að efla mikið ráðgjöf sínar og leiðbeiningar á þessu ári. Til þess að svo megi verða þurfum við aukinn fjárhagslegan styrk úr opinberum sjóðum og erum bjartsýn á að árangur náist í þeim efnum áður en langt um líður. Draumurinn væri að fá sem svarar launakostnaði tveggja starfsmanna í styrk frá ríkinu en við værum mjög sátt við einn. Þetta er ekki stór krafa þegar litið er á málin í víðara samhengi. Til Hagsmunasamtaka heimilanna hafa leitað álíka margir frá hruni og Umboðsmaður skuldara hefur veitt liðsinni.

Einn stærsti munurinn á þessum tveimur aðilum, fyrir utan það að Umboðsmaður skuldara er ríkisstofnun en Hagsmunasamtökin grasrótarfélag sem að meginstofni er rekið af hugsjón og í sjálfboðastarfi, er að Umboðsmaður skuldara hjálpa skuldurum að standa undir kröfum bankanna á meðan Hagsmunasamtökin skoða kröfurnar með tilliti til lögvarinna réttinda neytenda og hafa oftar en ekki fundið út að þær standast ekki slíka skoðun. Að auki má nefna starfsmannafjöldann, því hjá Umboðsmanni skuldara hafa stöðugildi mest verið um 80 en voru 15,3 árið 2020. Hagsmunasamtök heimilanna eru með eitt. Umboðsmaður skuldara hefur, samkvæmt heimasíðu sinni, sent þrjár umsagnir um lög til Alþingis, á meðan Hagsmunasamtök heimilanna hafa í hundruðum tilfella séð ástæðu til að standa upp fyrir hagsmuni neytenda og heimilanna frammi fyrir löggjafanum með umsögnum um ýmis mál. (Reyndar vantar eina umsögn inn í tölfræðina hjá Umboðsmanni skuldara, en það er umsögn embættisins um hin svokölluðu “Árna Páls lög” árið 2010, enda beygði embættið sig einfaldlega undir lögin sem það gagnrýndi svo harkalega og vill því kannski ekki halda henni á lofti). Umboðsmaður skuldara hefur kostað ríkið hátt í 6 milljarða frá hruni. Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá upphafi fengið 30 milljónir af skúffufé ýmissa ráðherra en þriðjung af því, eða 10 milljónir fengu samtökin frá þáverandi félagsmálaráðherra á síðasta ári. 

Skekkjan er því mikil og Umboðsmaður skuldara er alls ekki að sinna því mikilvæga hlutverki sem Hagsmunasamtökin sinna, sem er barátta fyrir neytendur á fjármálamarkaði, fyrir réttindum þeirra og hagsmunum heimila landsins. Það munu margir þurfa aðstoð þegar líður á þetta ár og afleiðingar vaxtahækkana og verðbólgu fara að koma í ljós. Við þurfum því að auka sýnileika okkar með föstum opnunartímum í góðu skrifstofurými og a.m.k. einum starfsmanni í viðbót.

 

Lausnir sem ríkisstjórnin þarf að grípa til án tafar

Það er ástæða til að hafa gríðarlegar áhyggjur af stöðu heimilanna í vaxandi verðbólgu og þeim vaxtahækkunum sem þegar hafa orðið og fyrirsjáanlegar eru á næstu dögum, vikum og mánuðum. Fyrir mörg heimili, ekki síst þau sem eru á leigumarkaði, mun hækkandi húsnæðiskostnaður lenda á þeim eins og skriða sem ekkert fær stöðvað og þar þarf ekki spyrja að leikslokum. Hjá öðrum munu áhrifin eiga sér stað hægar en þau munu vera langvarandi, verði ekkert að gert. Í þessari kreppu gerist allt hægar en í bankahruninu 2008 þegar það sauð upp úr í einu vetfangi eftir að bankarnir féllu einn af öðrum. Núna erum við meira eins og froskurinn í vatninu sem hitnar smátt og smátt þannig að hann áttar sig ekki á því fyrr en það er orðið of seint fyrir hann að stökkva upp úr pottinum og bjarga sér. 

Núna er enn hægt að grípa inn í og koma í veg fyrir skaðann sem annars mun verða og einmitt þess vegna er þyngra en tárum tekur að sjá ríkisstjórnina fórna heimilunum með aðgerða- og sinnuleysi. Það er vægast sagt mjög hæpið að vaxtahækkanir Seðlabankans og svo viðskiptabankanna í kjölfarið, geri nokkuð til að slá á verðbólgu. Til þess eru verðtryggð lán allt of stór hluti af lánasöfnunum en auk þess er verðbólgan að mestu leyti innflutt, þannig að minni neysla íslenskra heimila mun alls ekki slá á hana. 

Það sem vaxtahækkanirnar hins vegar gera er að auka verulega á byrðar heimilanna sem kemur að sjálfsögðu harðast niður á þeim sem verst standa, því þau hafa ekkert fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við öllum þessum hækkunum. Enn fremur er þetta hrein og klár eignatilfærsla frá heimilunum til bankanna sem, svo vægt sé til orða tekið, hafa ekkert við meira fé að gera. Um það skrifuðum við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, grein sem birtist hjá Kjarnanum og heitir Hrein og klár eignatilfærslaRíkisstjórnin flýtur enn og aftur sofandi að feigðarósi og virðist ekki gera sér neina grein fyrir samhengi hlutanna, til dæmis því hvernig kjaraviðræður verði í haust verði ekkert gert til að verja heimilin fyrir því “force majeure” ástandi sem skapast hefur vegna heimsfaraldurs Covid-19. Aðgerðirnar sem þyrfti að ráðast í eru hvorki margar né flóknar.

Ríkisstjórnin þarf í aðalatriðum að ráðast í þrennar aðgerðir. Hún þarf að:

 • Taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni
 • Krefja bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð
 • Frysta verðtryggingu á lánum og leigu í a.m.k. eitt ár

Förum aðeins nánar yfir ástæður og áhrif þessara einföldu aðgerða.

 • Taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni.
  • Verðbólgan er 5,7% en án húsnæðisliðar væri hún 3,7%.
  • Með þessari einföldu aðgerð væri slegið á verðbólguna og hennar keðjuverkandi áhrif eins og t.d. hækkandi leiguverð og vexti.
 • Krefja bankanna um að sýna samfélagslega ábyrgð.
  • Lækka vexti og álögur á viðskiptavini.
  • Minnka arðsemiskröfur.
 • Frysta verðtryggingu á lánum og leigu allt þetta ár.
  • Frumvarp þess efnis er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
  • Það er eðlileg krafa að bæði bankar og leigusalar séu ekki einir undanþegnir tekjufalli vegna afleiðinga heimsfaraldurs og óeðlilegt að þeir hagnist á ástandinu.
  • Heimilin, sérstaklega á leigumarkaði, standa ekki undir þessum hækkunum.
  • Þetta er það ALLRA MINNSTA sem hægt er að gera til að verja heimilin sem verst standa.

Bara þessar einföldu ráðstafanir myndu milda höggið og erfiðleika heimilanna og þannig liðka fyrir kjaraviðræðum sem verða nógu erfiðar samt.

 

Samtökin eru óflokksbundin

Formaður Hagsmunasamtakanna, sú sem hér ávarpar félagsmenn, er kominn inn á Alþingi. Hagsmunasamtökin eru eftir sem áður óflokksbundin samtök og rétt er að taka fram að formaður hefur algjörlega lagt það í hendur stjórnar hvort hann gegni áfram formennsku í stjórn samtakanna eða það verði falið öðrum. Sú stjórn sem nú situr hefur verið sammála um að það sé málstað samtakanna og heimilanna til framdráttar að formaður þeirra sé kominn inn á Alþingi.

Það er svo undir þeirri stjórn komið, sem nú verður kjörin að skipta með sér verkum og ákveða hvort hún sé sama sinnis og treysti mér til áframhaldandi forystu. Núverandi formaður mun að sjálfsögðu beygja sig undir ákvörðun nýrrar stjórnar í þeim efnum. Það er ljóst að barátta Hagsmunasamtaka heimilanna mun skipta miklu máli á næstu vikum og mánuðum.

Krafa okkar frá upphafi faraldursins hefur verið að enginn missi heimili sitt vegna hans. Því miður virðist stefna í harðan slag fyrir þessari hógværu og sjálfsögðu kröfu, við ríkisstjórn sem virðist líta á heimilin sem fóður fyrir bankanna. Þetta er slagur sem Hagsmunasamtökin munu taka án þess að gefa nokkuð eftir.

Núna er full ástæða til að biðja Guð að blessa Ísland.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og alþingismaður fyrir Flokk fólksins

 

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum