Guð blessi heimilin - aftur?
YFIRLÝSING STJÓRNAR HAGSMUNASAMTAKA HEIMILANNA
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna krefst þess að þingmenn, ráðherrar og ríkisstjórn Íslands taki pólitíska ákvörðun um að verja heimilin fyrir afleiðingum Covid faraldursins, ekki síður en fyrirtæki.
Það á enginn, ekki ein einasta fjölskylda, að eiga á hættu að missa heimili sitt af völdum Covid-19. Heimili landsins eru ekki einhver „afgangsstærð“ eins og (sumir) ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðast halda. Þau eru þvert á móti grunnur samfélagsins, því án heimila væru engin fyrirtæki og ekkert samfélag til.
Hagsmunasamtökin lýsa vonbrigðum sínum yfir því að í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra viku stjórnarþingmenn og ráðherrar varla einu orði að heimilum landsins. Það virðast ekki vera nokkur áform eða vilji til að draga einhvern lærdóm af skelfilegum afleiðingum síðasta hruns, og verja heimili landsins áður en skaðinn er skeður.
Það er einfaldlega röng forgangsröðun að líta á hagsmuni heimilanna sem einhverskonar afleiður af hagsmunum atvinnulífsins, þó vissulega skipti gott atvinnulíf heimilin máli.
Í þessu sambandi er rétt að minna á að þó margir hafi orðið atvinnulausir eftir hrunið, þá var það ekki ekki eini vandinn hjá þeim þúsundum sem misstu heimili sín eftir hrun, heldur frekar stökkbreyttar afborganir húsnæðislána, m.a. vegna verðtryggingar, sem þau gátu ekki staðið undir þrátt fyrir að hafa bæði vinnu og auka við sig vinnu í viðleitni til þess.
Auk þess verður ríkisstjórnin að svara því hvað eigi að verða um heimili þeirra sem ekki tekst að tryggja atvinnu, nú þegar heilu atvinnugreinarnar hafa hrunið?
Ríkisstjórnin virðist vera tilbúin til að veita fyrirtækjum bein fjárframlög til að verja þau fyrir niðursveiflunni og sé vel að því staðið á það örugglega eftir að skila sér til baka til þjóðfélagsins.
En hvað með heimilin? Hvað með áhrif niðursveiflunnar á heimilin?
Ef þingmenn, ráðherrar og ríkisstjórn Íslands láta hjá líða að verja heimili landsins þá verða þau hvert um sig að svara því hvað eigi að verða um þær fjölskyldur sem missa heimili sín af þeirra völdum.
Auðvelt er að færa rök fyrir því að pólitísk ákvörðun um að verja heimilin myndi spara þjóðfélaginu háar fjárhæðir, því ekki má vanmeta þann vanda sem fylgir upplausn heimila, vanda sem getur kallað á ýmsa þjónustu og lausnir sem annars þyrfti hvorki að veita né finna.
Stjórnarskráin var skrifuð fyrir almenning. Hún var ekki skrifuð fyrir fjármagnseigendur heldur til að verja varnarlaust fólk fyrir yfirgangi. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar á því fyrst og fremst við um venjulegt fólk og heimili þeirra en ekki fjármálafyrirtæki.
Það er ekki verið að svipta bankana einu né neinu þó þeir fái ekki að hirða heimilin af fólki vegna tímabundins ástands sem ekkert okkar ber neina sök á. Það væri í mesta lagi verið að fresta hagnaði þeirra um einhvern tíma, og ef slík frestun er sett á vogarskálar á móti heimilismissi, getur ekki verið spurning hvort vegur þyngra.
Á þessum degi, 6. október, þegar það eru nákvæmlega 12 ár síðan þáverandi forsætisráðherra bað Guð um að blessa Ísland, er við hæfi að minna á allt of margar skelfilegar afleiðingar bæði aðgerðaleysis og vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda, fyrir heimili landsins.
Þau mistök sem gerð voru þá mega aldrei endurtaka sig!
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna krefst þess að ríkisstjórnin verji heimilin í landinu með afgerandi hætti og taki pólitíska ákvörðun um að enginn missi heimili sitt vegna áhrifa Covid-19.
Það minnsta sem ríkisstjórnin gæti gert er að setja þak á verðbætur lána heimilanna í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Sú aðgerð myndi ein og sér hjálpa mörgum heimilum.
Samhliða því verður að stöðva nauðungarsölur á heimilum a.m.k. út næsta ár, svo þau heimili sem verða fyrir hvað mestum tekjumissi fái tækifæri til að vinna sig úr tímabundnum erfiðleikum í því skjóli sem heimilið er.
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess jafnframt sem eini hlutlausi aðilinn á Íslandi með sérþekkingu á sviði neytendaverndar heimilanna á fjármálamarkaði, að fá aðkomu að öllum útfærslum á lausnum fyrir heimilin í samstarfi við Ríkisstjórn Íslands.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna