Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Neytendaréttur og ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á:

ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar
stuðningi samtakanna við aðgerðir formanns VR vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
ólöglegum lánaskilmálum og vaxtabreytingum Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
kvörtun Hagsmunasamtakanna til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að Neytendastofa úrskurðaði nýlega að lánaskilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans (nú Arion banka) væru ólöglegir. Þessir skilmálar áskilja lánveitanda einhliða heimild til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar en slík ákvæði eru skýrt brot á neytendarétti eins og Neytendastofa staðfesti með ákvörðun sinni.

Nú ættu neytendur að geta fagnað og treyst því að bankar þurfi að leiðrétta ólöglegar aðgerðir sínar og að það muni gerast sjálfkrafa. Ekki væri heldur óeðlilegt að vænta þess að þeir þyrftu að bæta þann skaða sem hlotist hefði að ólöglegum aðgerðum þeirra, svona eins og gengur og gerist í siðmenntuðum réttarríkjum.

En það er því miður ekki svo á Íslandi. Engar leiðréttingar munu eiga sér stað nema lánþegar sæki þær sjálfir, jafnvel í gegnum dómstóla. Það fellur nefnilega utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um einstakar uppgjörskröfur, þannig að í stað þess að neytendur njóti vafans þá er hann, eins og alltaf, metinn bankanum í vil. Bankinn fær þannig að halda áfram lögbrotum sínum nema lánþeginn átti sig á brotunum og leiti réttar síns. En sé bankinn ekki tilbúin til samninga þarf hver og einn að draga hann fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Þetta er víst kallað að leita réttar síns á “jafnræðisgrundvelli”.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til að leita réttar síns. Nánari upplýsingum, leiðbeiningum og aðstoð má óska eftir með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..">This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hagsmunasamtök heimilanna styðja forystu VR

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir fullum stuðningi við forystu VR og formann þess Ragnar Þór Ingólfsson í aðgerðum þeirra vegna vaxtahækkana stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem ganga þvert gegn hagsmunum neytenda og munu hækka kostnað hlutaðeigandi heimila umtalsvert, eða um 2.000 krónur af hverri milljón fyrir utan verðbætur.

Hagsmunasamtökin fagna því að verkalýðsforystan sé loksins farin að standa í fæturna og taka undir þá sjálfsögðu kröfu að lífeyrissjóðirnir starfi með hag almennings (allra sjóðsfélaga) að leiðarljósi og taki hag þeirra fram yfir þá taumlausu græðgi og siðleysi sem þessi þjónkun sjóðsins við fjármálakerfið ber með sér.

Lánaskilmálar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ólöglegir

Það er ekki nóg með að boðuð vaxtahækkun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna brjóti í bága við nýgerða lífskjarasamninga eins og formaður VR hefur bent á, heldur brjóta skilmálar lánasamninga lífeyrissjóðsins hreinlega í bága við lög að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
 
Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum breytingarnar taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir vaxtabreytingum. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.
 
Í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem hefur verið samið um.
 
Hagsmunasamtök heimilanna telja slíka skilmála ekki aðeins ósanngjarna heldur einnig ólögmæta og óskuldbindandi.

Kvörtun til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna skilmála Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og einhliða breytingar á viðmiði breytilegra vaxta.

Af yfirlýsingum stjórnar sjóðsins hefur mátt ráða að nýboðuð vaxtahækkun hafi ekki einungis átt að ná til nýrra lána, heldur eigi hún að hafa áhrif á 3.700 útistandandi lán neytenda sem gátu engan veginn gert sér í hugarlund að síðar kynni lánveitandinn að ákveða einhliða að skipta í einni svipan um vaxtaviðmiðun. Aukin kostnaður þessara 3.700 heimila mun hlaupa á hundruðum milljóna króna auk þess sem ofan á það munu leggjast verðbætur.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að ákvörðun sjóðsins um breytingu vaxtaviðmiða feli í sér óréttmæta viðskiptahætti og samræmist ekki ákvæðum laga um fasteignalán til neytenda. Samtökin fara þess því á leit við Neytendastofu að hún taki þessi álitaefni til meðferðar og veiti þeim úrlausn með rökstuddri ákvörðun.

Erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Hagsmunasamtökin hafa einnig sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem stofnunin er minnt á að í verkahring hennar sé að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.


 

Meðfylgjandi er afrit af erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins.

Erindi vegna ólöglegra skilmála um breytilega vexti

Í tilefni frétta um að Fjármálaeftirlitið hafi til skoðunar málefni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lánveitenda.

Hlutverk lífeyrissjóða lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda til greiðslu lífeyris. Til að ávaxta fjármuni sjóðfélaga geta þeir meðal annars veitt fasteignalán til neytenda sem endurgreiðast með vöxtum samkvæmt umsömdum kjörum. Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum þeir taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir breytingum á þeim. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.

Komið hefur í ljós að í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem var samið um. Slíkir skilmálar eru ekki aðeins ósanngjarnir heldur ólögmætir og óskuldbindandi. Hætta er á því að sjóðfélagar verði fyrir tjóni fari sjóðurinn á mis við vænta ávöxtun af eignum sínum.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 hefur Neytendastofa hins vegar eftirlit með því að ákvæðum þeirra laga sé fylgt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa því ákveðið að beina kvörtun til Neytendastofu yfir skilmálum Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einhliða breytingum á vaxtaviðmiði.

Neytendastofa hefur ítrekað staðfest með ákvörðunum sínum að skilmálar sem áskilja lánveitanda einhliða rétt til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar séu ólöglegir, nú síðast í liðinni viku þegar birt var ákvörðun þess efnis að slíkir skilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú tilheyra Arion banka, væru sama marki brenndir. Samkvæmt ákvörðuninni fellur þó utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um uppgjörskröfur einstaklinga vegna ofgreiddra vaxta og þarf því hver og einn að sækja rétt sinn sérstaklega, sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu sem komu fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um eftirlit stofnunarinnar (þskj. 687 - 148. löggj.) er meðal annars í verkahring hennar að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum