Hagsmunasamtök heimilanna 10 ára
Hrunið hefur ekki verið gert upp!
Fjárhagslegt, félagslegt og samfélagslegt tjón er gríðarlegt.
Um 15.000 fjölskyldur, eða 45.000 einstaklingar, hafa verið á hrakhólum eftir gjaldþrot þriggja banka.
Að missa heimili sitt og óöryggi hefur áhrif á líðan barna.
Vanlíðan íslenskra unglinga hefur aldrei verið meiri.
Traust til stjórnmálamanna er ekki til staðar!
Í dag, þriðjudaginn 15. janúar, eru 10 ár frá stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna.
Venjulega er afmælum fagnað og vissulega er ástæða til að fagna því að Hagsmunasamtökin séu enn til staðar og enn að styrkjast nú þegar þau ná 10 ára aldrinum. En engu að síður er það sorglegt að samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna þurfi yfirleitt að vera til. Það er ekkert eðlilegt við það að rúmum 10 árum eftir hrun sé ekki enn búið að gera upp hrunið og að ennþá þurfi að að berjast fyrir þeim sjálfsagða hlut að lög- og stjórnarskrár varin réttindi almennings á fjármálamarkaði séu virt.
Það er staðfest að 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum frá hruni og við vitum að þau eru mun fleiri. Varlega áætlað teljum við að um 15.000 heimili sé ræða eða um 45.000 manns.
Þetta er ekki léttvægt og áhrif þessara hörmunga eru víðtækari en ljóst er við fyrstu sýn. Missir heimilis hefur gífurleg og langvarandi áhrif á líf, afkomu og heilsu einstaklinga, svo ekki sé minnst á áhrif svona áfalla á börn og unglinga. Samkvæmt rannsóknum hefur vanlíðan unglinga aldrei verið meiri og óhætt að velta fyrir sér áhrifum heimilismissis og álags vegna þess á fjölskyldur og á öryggi og líðan barna og unglinga.
Tölfræðin sýnir að um 15% þjóðarinnar hafi misst heimili sín á Íslandi undanfarin 10 ár án þess að hér hafi ríkt stríðsástand eða orðið stórfelldar náttúruhamfarir. Þessar fjölskyldur hafa ekki enn fengið réttindi sín viðurkennd og munu búa við afleiðingar þessa um langa framtíð.
Það er því eitt helsta baráttumál Hagsmunasamtakanna að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og áhrifum þeirra og afleiðingum fyrir heimilin.
Það væri vel við hæfi ef Alþingi léti það verða sitt fyrsta verk þegar það kemur saman eftir jólafrí að samþykkja gerð Rannsóknarskýrslu heimilanna og gefa Hagsmunasamtökunum og þjóðinni allri skýrsluna í afmælisgjöf. Sé stjórnmálamönnum alvara í að vilja endurreisa traust í samfélaginu verða þeir að þora að horfast í augu við eigin aðgerðir og afleiðingar þeirra eftir hrun.
Þeir stjórnmálamenn sem ekki veita Rannsóknarskýrslu heimilanna stuðning sinn hljóta að þurfa að rökstyðja þá afstöðu sína. Þjóðin þarf að fá svör.
Hagsmunasamtökin munu ekki halda upp á afmælið með formlegum hætti að svo stöddu, en halda áfram baráttu sinni fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði af fullum krafti. Það er löngu kominn tími til að réttlætið fái framgang á Íslandi og að lög- og stjórnarskrárvarin réttindi almennings séu virt.
Við munum að sjálfsögðu halda áfram að berjast fyrir afnámi verðtryggingar á lánum heimilanna. Það er ótrúlegt en satt að ein stærsta barátta Hagsmunasamtakanna hefur verið fyrir því að lögbundinn réttur neytenda á fjármálamarkaði sé virtur af stjórnvöldum og dómurum og henni verður að sjálfsögðu haldið áfram.
Andstaðan gegn réttindum neytenda er sterk innan „kerfisins“ en Hagsmunasamtökin hafa ítrekað neyðst til að leita á náðir dómstóla og eru núna með tvö stór dómsmál í gangi.
Í desember lögðu Hagsmunasamtök heimilanna fram kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þess hvernig lög og réttur voru ítrekað brotin í meðferð stjórnvalda og dómstóla á ólögmætum gengistryggðum lánum eftir hrun. Þann 30. janúar verður jafnframt dómtekið mál á vegum Hagsmunasamtakanna vegna verðtryggðra neytendalána.
Dropinn holar steininn og Hagsmunasamtökin líta með bjartsýni fram á nýtt ár enda finnum við sífellt aukinn meðbyr með málstað okkar.
Núverandi stjórn Hagsmunasamtakanna vill nota þessi tímamót til að þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa Hagsmunasamtökunum lið á þessum árum. Fyrrverandi formenn og stjórnarmenn eiga þakkir skildar, auk allra þeirra einstaklinga sem með sinni eigin baráttu hafa lagt sameiginlegri baráttu okkar allra lið. Sérstakar þakkir eru til félagsmanna okkar sem hafa gert okkur kleift að vinna að baráttumálum okkar með því að greiða félagsgjöld og einnig þeim sem hafa verið styrktarmeðlimir okkar og greitt sérstakar mánaðarlegar greiðslur inn á styrktarsjóð okkar. Þessar greiðslur hafa gert okkur mögulegt að greiða laun til starfsmanna okkar sem eru ómetanlegir og vinna mikið meira en launahlutfall þeirra segir til um og einnig til að standa í þeim málaferlum sem við höfum ráðist í.
Þeir sem vilja sýna Hagsmunasamtökunum stuðning sinn í verki í baráttu sinni við ofurefli fjármálafyrirtækja og stjórnvalda, geta lagt framlög inn á nær tóman málskostnaðarreikning samtakanna. Öll framlög eru vel þegin og verða vel nýtt.
Reikningsnúmer málskostnaðarsjóðs:
1110-05-250427 kt. 520209-2120
Íslendingar þurfa Rannsóknarskýrslu heimilanna!