Jóla- og áramóta hugleiðingar frá formanni
Eftirfarandi ávarp frá formanni HH er úr fréttabréfi sem sent var til félagsmanna í desember. Athygli er vakinn á því að fréttabréf eru send reglulega til skráðra félagsmanna en hægt er að skrá sig í samtökin HÉR til að komast á póstlista félagsmanna.
Eftir að hafa staðið í þessari baráttu með beinum og óbeinum hætti í 10 ár, er ég sannfærð um að vonin sé eitt það dýrmætasta sem við eigum. Það er fyrst þegar við glötum henni sem við töpum baráttunni.
Þess vegna berst ég við að halda henni vakandi í mér sjálfri og þeim sem eru í kringum mig og þess vegna bregst ég stundum „reið við“ þegar lítið er gert úr „litlum sigrum”, því til að halda voninni lifandi verðum við að leyfa þeim að virka sem olía á þann eld sem eftir er, því annars deyr hann.
Hafandi sagt þetta þá skil ég samt vel þá sem hafa glatað voninni því ofureflið sem við stöndum frammi fyrir er gríðarlegt og svo skelfilega óréttlátt.
Það á enginn að þurfi að ganga í gegnum það sem mörg okkar höfum gengið í gegnum og það á ekki að vera hægt að fara svona með LÍF fólks.
Í haust voru 10 ár frá hruni og í gær, 18. desember, voru 8 ár frá setningu hinna skelfilegu Árna Páls laga. Ég var að vona að þetta yrði haustið þar sem stjórnmálamenn myndu rísa upp fyrir almenning í landinu og að 10 árum eftir hrun yrði hægt að fagna jólum vitandi að réttlæti kæmi á nýju ári. Svo fór þó ekki, baráttan þarf enn að halda áfram en það er samt von í lofti. Uppáhaldsmálsháttur okkar hjá HH er „Dropinn holar steininn“ og að undanförnu hefur okkur fundist „jarðvegurinn“ vera að breytast og við vera að fá aukinn hljómgrunn – að vatnið sé farið að vætla og molna undan fúastoðum spillingarinnar.
Þar kemur margt til, sumt stærra og annað minna, sumt getum við rakið til okkar vinnu að einhverju eða öllu leyti, annað kemur úr öðrum áttum en styður málstað okkar engu að síður. Það eru engar einfaldar skilgreiningar í þessum málum og margir hafa lagt sitt af mörkum.
Tíminn vinnur með okkur og í hvert sinn sem hulunni er svipt af einhverju, er málflutningur Hagsmunasamtakanna staðfestur á einhvern hátt.
Hingað til hefur engum enn tekist að hrekja málflutning okkar.
Við skulum því mæta nýju ári með von í hjarta – réttlætið mun sigra að lokum og það er nær en við höldum. Förum því aðeins yfir nokkuð af því sem er jákvætt og vinnur með okkur með beinum eða óbeinum hætti.
Það hafa orðið miklar breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar og ég vænti þess að von bráðar muni ASÍ lýsa yfir stuðningi við Rannsóknarskýrslu heimilanna. Það verður að rannsaka þær aðgerðir sem stjórnvöld réðust í eftir hrun og afleiðingar þeirra fyrir heimili landsins og er algjörlega óhugsandi annað en að „vorið í verkó“ fylki sér á bak við þá kröfu.
Meðal þess sem þyrfti að rannsaka er:
- Stofnun nýju bankanna og yfirfærsla lánasafna gömlu bankanna til þeirra
- Afhending stórra eignarhluta í bönkunum til þrotabúa föllnu bankanna
- Úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskilmála og framferðis kröfuhafa
- Hversu margar fjölskyldur hafa verið sviptar heimilum sínum frá hruninu?
- Hversu margar þeirra voru hraktar út á vonlausan leigumarkað?
- Hver væri staða húsnæðismála núna ef þetta hefði ekki verið gert?
- Greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem hefur reynst mörgum illa
- Ólöglegar vörslusviptingar heimilisbíla og ökutækja einstaklinga
- Skortur á samráði við fulltrúa neytenda og samtaka þeirra
Það eiga sér stað hræringar víða um heim. Almenningur er að rísa upp gegn þessum „nýja aðal“ sem bankar og fjármálafyrirtæki eru. Það er farið að molna undan þessu fólki sem hefur farið með almenning sem fóður fyrir bankana. Réttlæti mun ná fram að ganga!
Á stjórnarfundi HH í síðustu viku ræddum við að sjálfsögðu „gulu vestin“ og hvernig við gætum nýtt okkur þau, t.d. í sambandi við 10 ára afmæli HH í janúar. Hvort við gætum selt þau til fjáröflunar og gert okkur, þessi „þöglu fórnarlömb hrunsins“ sýnileg með þeim hætti, og hvort við ættum að láta merkja þau.
Fleiri hafa greinilega fengið svipaðar hugmyndir og það verður að koma í ljós hvað við gerum. En hvernig svo sem það fer, þá er alveg ljóst að það er e.k. „vakning“ í gangi út í heimi sem allar líkur eru að að berist hingað til lands.
Umfjöllun fjölmiðla um málefni Hagsmunasamtakanna er skammarlega lítil, en þá kann maður betur að meta það sem vel er gert. Frá því í vor hefur Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins tekið undir málflutning Hagsmunasamtakanna í a.m.k. fjórum greinum og einu sjónvarpsviðtali. Styrmir er maður sem hefur áunnið sér virðingu þvert á flokka og á hann er hlustað. Stuðningur hans er því mikils virði og við kunnum honum hinar bestu þakkir fyrir.
Einn stærsti áfangi baráttunnar frá upphafi er beiðni um skýrslu frá félags- og jafnréttismálaráðherra um úttekt á stöðu ólíkra hópa fólks með tilliti til eigna-, tekju- og atvinnustöðu tíu árum eftir hrun.
Enn ein skýrslan, segja sumir en þetta er ekki bara „enn ein skýrslan“. Vissulega hafa verið gerðar margar skýrslur en það hefur ekki verið gerð ein einasta skýrsla um afdrif heimilanna eftir hrun.
Það skal tekið fram að hér er ekki um Rannsóknarskýrslu heimilanna að ræða. Sú skýrsla þyrfti að verða mun víðtækari en þessi sem aðeins er beint að einu ráðuneyti. Hins vegar er ekki erfitt að sjá fyrir sér að þessi skýrsla gæti verið undanfari annarrar og viðameiri skýrslu enda tel ég nokkuð víst að niðurstöður hennar munu kalla eftir nánari rannsókn.
Það er því miður þannig að við hjá HH berum ekki mikið traust til „kerfisins“ og þegar skýrslubeiðnin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi, þá heyrðust raddir um að þetta yrðir aldrei neitt og yrði bara þaggað niður.
Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að verið er að hrinda þessu af stað í góðu samstarfi við okkur í Hagsmunasamtökunum, en ráðherra hefur frá upphafi óskað eftir aðkomu HH og tekið fullt tillit til óska og athugasemda okkar í undirbúningnum.
Nokkrir mjög hæfir aðilar hafa komið til greina til að leiða þessa vinnu en á næstu dögum verður tilkynnt hver það verði og erum við í stjórn HH mjög ánægð með það val.
Vonandi er þetta merki um að þingmenn séu farnir að setja hagsmuni heimilanna ofar pólitík og því að fela gjörðir eigin flokka. Það er löngu tímabært.
Töluvert margar fyrirspurnir hafa verið lagðar fram á Alþingi undanfarið ár að beiðni eða í samstarfi við Hagsmunasamtökin, auk tveggja frumvarpa og einnar þingsályktunartillögu.
Að öðrum þingmönnum sem hafa aðstoðað okkur ólöstuðum, er Ólafur Ísleifsson sá þingmaður sem hefur reynst okkur einna best á þingi í vetur. Hann hefur í samstarfi við Hagsmunasamtökin lagt fram margar fyrirspurnir á þessu ári og á m.a. heiðurinn að þeirri sem staðfesti málflutning okkar um að a.m.k. 10.000 fjölskyldur hefðu misst heimili sín frá hruni auk þess sem hann hefur lagt fram lyklafrumvarp og frumvarp með tillögum um verulegar takmarkanir á verðtryggingu.
Maður hvorki gleymir né vanþakkar það sem vel er gert hvað svo sem síðar gerist. Hver svo sem framtíð Ólafs verður á Alþingi eða í stjórnmálum þá hefur hann á sínum stutta tíma á Alþingi verið einn sterkasti talsmaður hagsmuna heimilanna frá hruni og við kunnum honum miklar þakkir fyrir það. Staðan væri verri ef hans hefði ekki notið við og persónulega vona ég að við fáum að njóta krafta hans áfram.
Við í stjórn HH höfum mætt á marga fundi í vetur til að tala fyrir málstað heimilanna. Við hittum alla sem við okkur vilja tala og sem við teljum að geti hjálpað málstað okkar, hvar í flokki sem þeir standa. Við höfum þannig hitt marga ráðherra, alþingismenn, þingflokka, embættismenn úr mörgum ráðuneytum, og forystufólk úr verkalýðshreyfingunni svo eitthvað sé nefnt.
Við getum ekki talað um alla þessa fundi. Eins og aðrir ávinnum við okkur traust og orðspor og til að skemma það ekki þurfum við að sýna trúnað hvort sem fundurinn hefur verið „góður“ eða „vondur“. Við getum t.d. ekki opinberað það ef einhver stjórnmálamaður tekur undir allt sem við segjum því það gæti hreinlega skemmt fyrir honum, og þar með baráttu okkar, í hans flokki.
Í samtölum við ráðamenn merkjum við ákveðinn hljómgrunn sem við höfum ekki fundið áður. „Jarðvegurinn“ fyrir málflutning okkar er allt annar og betri en hann var fyrir, svo sem, tveimur árum síðan.
Auk þessa höfum við mætt á ýmsa viðburði þar sem fjallað er um húsnæðismál eða málefni sem við teljum snerta hagsmuni heimilanna. Það háir okkur að slíkir viðburðir eru oft haldnir á tímum þar sem við, ásamt flestu vinnandi fólki, erum föst í vinnu og getum ekki mætt. Ef við mögulega getum, þá mætir samt eitthvert okkar.
Við mættum t.d. nokkur á „Hrunið þið munið“ í Háskóla Íslands og vorum ekki vinsælasta fólkið á svæðinu þegar við spurðum spurninga sem köstuðu skugga á dýrðarljóma þessa „skemmtilega rannsóknarefnis“ sem hrunið var í augum Háskólafólks, og sýndum fram á að það hefði hreint ekki tekist jafn vel til í endurreisn landsins og fyrirlesarar Háskólans vildu margir vera láta.
Dropinn holar steininn og þar sem Styrmir Gunnarsson hefur bæði talað og skrifað um þessi „inngrip“ okkar, vöktu þau meiri athygli en okkur hafði órað fyrir.
Ég bið ykkur um að halda í vonina og leggja ykkar af mörkum í baráttunni með því að líka og deila á facebook og mæta, ef við skyldum nú blása til einhverskonar viðburðar á nýju ári.
Ef eitthvert ykkar gæti séð af nokkrum krónum til að styrkja samtökin til góðra verka væri það mjög vel þegið – vegna kostnaðarsamra málaferla er frekar lítið í sjóðum okkar þessa stundina.