Staðfest: 10 þúsund fjölskyldur sviptar heimilum sínum á 10 árum
Í síðustu viku svaraði dómsmálaráðherra fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti. Svar hennar staðfesti þann málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna að heimilum landsins hafi verið fórnað á altari fjármálafyrirtækjanna í kjölfar hrunsins 2008.
Samanlagðar heildartölur fyrir einstaklinga á árunum 2008-2017 eru sem hér segir:
Nauðungarsölur: 8.846
Gjaldþrotaskipti: 2.973
Árangurslaus fjárnám: 116.939
Að auki hafði áður komið fram í svari félagsmálaráðherra í júní síðastliðnum að 349 fasteignir skuldara hefðu verið seldar til kröfuhafa í tengslum við greiðsluaðlögun.
Við getum því staðfest alls 9.195 tilvik um nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar á tíu ára tímabili eða að jafnaði um 920 á ári sem þýðir að allar líkur eru á því að heildarfjöldinn verði komin vel yfir 10.000 í lok þessa árs.
Málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna sem hefur ítrekað verið véfengdur og enn oftar hunsaður af yfirvöldum, er hér með opinberlega staðfestur.
Fjármálafyrirtæki hafa einnig leyst til sín heimili vegna gjaldþrotaskipta, nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða á annan hátt samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að engar tölur eru til yfir fjölda þessara heimila. Einnig kom fram í svari fjármálaráðherra í júní síðastliðnum að engar slíkar tölur lægju fyrir varðandi sértæka skuldaaðlögun einstaklinga.
Hagsmunasamtök heimilanna telja óviðunandi að engar tæmandi opinberar upplýsingar liggi fyrir um fjölda þessarra heimila. Þær tölur vantar því í sundurliðun á fjölda þeirra sem hafa misst heimili sín frá hruni. Þar sem fólk leitar yfirleitt allra leiða til að forðast nauðungarsöluferli, er varlegt er að áætla að þar sé a.m.k. um jafn mörg heimili að ræða og þau sem voru seld nauðungarsölu.
Það má því gera ráð fyrir að heimilin sem hafa verið afhent fjármálafyrirtækjum á silfurfati séu á bilinu 15-20.000. Til að setja þennan fjölda í samhengi eru heimili landsins u.þ.b. 137.000 en í Kópavogi búa 36.000 manns þannig að þar eru heimili í mesta lagi 17.000. Þetta eru 11 - 14,5% heimila landsins eða líkt og Kópavogur hefði verið þurrkaður út og jafnvel Garðabær líka!
117.000 árangurslaus fjárnám
Fjöldi árangurslausra fjárnáma er sérstaklega sláandi og mun meiri en við hjá Hagsmunasamtökunum gerðum okkur grein fyrir.
Staða þeirra sem lent hafa í árangurslausu fjárnámi er skelfileg. Þetta er stór hópur fólks sem er ekki gjaldþrota en er haldið í endalausu skuldafangelsi án allra réttinda. Árangurslaust fjárnám er aðferð bankamanna til að halda fólki „í snörunni“ og herða stöðugt að til að mjólka síðustu blóðdropana.
Flest hefur þetta fólk misst húsnæði sitt en það getur ekki tekið lán og á erfitt með að fá leigt, það á ekki rétt á neinni fyrirgreiðslu hjá bönkum þar sem það sætir oft mikilli niðurlægingu, það fær ekki kreditkort og getur ekki eignast neitt. Það getur ekki einu sinni leigt sér vinnutæki í einn dag fyrir kr. 5000 nema einhver skrifi upp á leiguna fyrir það eins og við höfum nýlegt dæmi um.
116.939! Við hljótum að staldra við þessa tölu. Þó ekki sé ljóst hversu margir einstaklingarnir eru á bakvið hana er ljóst að þeir skipta þúsundum. Þetta samsvarar því að einn af hverjum þremur Íslendingum hafi lent í árangurslausu fjárnámi. Þetta eru 45 árangurlaus fjárnám á hverjum virkum degi í 10 ár! Já það er nóg að gera hjá bankamönnum.
Fæst ber þetta fólk sök á stöðu sinni, sökin liggur hjá þeim sem beita refsivendinum af miskunnarleysi, bankamönnunum sjálfum!
Ábyrgð alþingismanna – Rannsóknarskýrsla heimilanna
Það eru 10 ár frá hruni og löngu tímabært að fara í saumana á þessum málum og leiðrétta óréttlætið sem tugþúsundir hafa orðið fyrir. Þetta eru ekki „gömul mál“, þau eru enn þá í gangi og afleiðingar þeirra hafa verið og eru enn, hræðilegar fyrir tugþúsundir.
Við krefjumst þess að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, Rannsóknarskýrsla heimilanna, því á bak við hvert heimili sem fjármálafyrirtækin leystu til sín eru þjáningar nokkurra einstaklinga, manna, kvenna og barna. Hvert og eitt þeirra á rétt á skýringum, leiðréttingum og RÉTTLÆTI!
Hagsmunasamtök heimilanna kunna Ólafi Ísleifssyni alþingismanni bestu þakkir fyrir samstarfið og elju hans við að leita svara. Án hans lægju þessar upplýsingar ekki fyrir.
Nú er komið að ykkur hinum sem sitjið á Alþingi. Það er ykkar hlutverk að sjá til þess að ekki séu brotin mannréttindi á þegnum þessa lands. Hver ykkar eru tilbúin að rísa yfir flokkadrætti og krefjast rannsóknar og réttlætis fyrir þær þúsundir sem brotið hefur verið á?
Það er erfitt að ímynda sér verri afglöp í starfi en að hunsa brotin sem framin hafa verið á tugþúsundum á 10 ára tímabili. Alþingi veitti bönkunum skjólið til að fara gegn heimilunum með þessum hætti og það er Alþingis að leiðrétta eigin mistök.
Alþingismenn og konur það er löngu kominn tími til aðgerða, boltinn er hjá ykkur!
Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið – við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna!