Alvarleg afbrot kunna að hafa verið framin af sýslumanni
Hagsmunasamtök heimilanna taka undir ummæli Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, í morgunþætti Útvarps Sögu síðastliðinn föstudag. Snorri sagði þá að sér hefði verið brugðið eftir að hafa skoðað gögn frá tveimur aðilum og myndbandsupptöku annars þeirra af nauðungaruppboði á húsnæði hans hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Gögnin gæfu vísbendingar um að málsmeðferð við nauðungarsölur þessar hefði verið með þeim hætti að um talsvert alvarleg lögbrot gæti verið að ræða af hálfu opinberra aðila, og ef það sem hann hefði séð væri ekki tilefni til lögreglurannsóknar þá vissi hann í raun og veru ekki hvað væri tilefni til lögreglurannsóknar.
Þessi ummæli vöktu talsverð viðbrögð, meðal annars þau að Sýslumaðurinn í Reykjavík sendi frá sér yfirlýsingu síðar sama dag þar sem ummælunum var vísað á bug. Yfirlýsing sýslumannsins er afar þversagnakennd svo vægt sé til orða tekið, og er þar meðal annars reynt að nota það sem rök að Snorri hafi tekið fram að hann hafi ekki rannsakað málið formlega. Að sjálfsögðu hefur formleg lögreglurannsókn ekki farið fram þar sem málið er nýtilkomið, og eru ummæli Snorra fullkomlega eðlileg þar sem hann er eingöngu að lýsa því viðhorfi að hann telji að slík rannsókn þurfi að hefjast. Eins og kom fram í umræddu viðtali hafði hann einmitt kynnt sér málið rækilega, og er því enginn fótur fyrir aðdróttunum sem koma fram í yfirlýsingu sýslumannsins um að það hafi hann ekki gert.
Sýslumaður heldur því einnig fram að ekki verði séð að Snorri hafi kynnt sér lög og reglur sem gilda um meðferð nauðungarsölumála, né greint frá því í hverju möguleg brot séu fólgin. Þessi ummæli í garð Snorra um að hann hafi kynnt sér mál og dregið af því ályktanir, án þess að kynna sér þau lög sem eiga við, eru bersýnilega út í hött og allt að því fjarstæðukennd. Ekki síst í ljósi þess að umrædd gögn koma frá landskunnum baráttumanni gegn óréttmætum nauðungarsölum, Sturlu Jónssyni. Sturla er þekktur fyrir það meðal annars að ganga um með útprentað eintak af lögum um nauðungarsölu næstum hvert sem hann fer, og eru því engar líkur á öðru en að Snorri hafi á þessum fundum fengið kynningu á þeim lögum og öðrum lögum sem eiga við um slík mál.
Fulltrúar á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna hafa frá miðju ári 2010 gert ítarlegar rannsóknir á málsmeðferð við nauðungarsölur og fullnustugerðir hér á landi með hliðsjón af lögum á sviði neytendaréttar og þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Niðurstöðum þeirra rannsókna hafa samtökin komið á framfæri með greinargerð um fullnustur án undangengins dóms. Í meginatriðum eru þær á þá leið að sú málsmeðferð brjóti í bága við reglur um neytendavernd sem eiga að gilda hér á landi vegna EES-samningsins, auk þess að ganga í berhögg við Mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæði stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð. Hafi slíkt brot af hálfu embættismanns í för með sér velferðarmissi fyrir brotaþola getur það jafnframt verið refsivert með 2-16 ára fangelsisvist samkvæmt 2. mgr. 130. gr. almennra hegningarlaga ef sök sannast.
Fulltrúar samtakanna hafa líka kynnt sér gögn Sturlu Jónssonar, þau sem ummælin vísa til, og hafa komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og Snorri. Það er að segja að gögnin gefi sterkar vísbendingar um að alvarleg lögbrot kunni að hafa verið framin af fulltrúa sýslumanns við fyrirtöku og málsmeðferð í viðkomandi nauðungarsölumáli.
Nauðsynlegt er að stemma stigu við því óréttlæti og mannréttindabrotum sem eiga sér iðulega stað á skrifstofum sýslumanna og heimilum landsmanna þegar þar eru framkvæmd nauðungaruppboð. Þolendur slíkra brota eiga rétt á skaðabótum vegna þeirra, og hætta er á því að næstu misseri muni flóðbylgja slíkra skaðabótamála dynja á dómskerfinu verði ekkert að gert.
Jafnframt er samtökunum kunnugt um dæmi þess að slík brot hafa verið kærð til Alþjóða glæpadómstólsins, enda er mjög alvarlegt þegar þeir opinberu embættismenn sem eiga að standa vörð um réttindi fólks gera sér far um að brjóta gegn þeim. Að minnsta kosti eitt slíkt tilvik hefur nú þegar verið tekið til athugunar dómstólsins, sem metur hvort það skuli hljóta formlega meðferð.
Ráðamenn þjóðarinnar stæra sig gjarnan af því við hátíðleg tilefni að Ísland sé meðal fremstu landa heims á sviði mannréttinda og að hér sé til staðar öflugt réttarríki. Það skýtur því skökku við að hér skuli vera framin mannréttindabrot nánast daglega og það af opinberum embættismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnvöld til að standa við stóru orðin og sýna það í verki að þeim sé alvara með slíkum yfirlýsingum, en þær séu ekki aðeins ætlaðar sem skrautfjaðrir.