Málaferlum um verðtryggð neytendalán frestað fram í janúar 2015
Málaferlum vegna verðtryggðra neytendalána hefur verið frestað til 5. janúar 2015.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá því snemma árs 2012 staðið að undirbúningi dómsmáls í því skyni að láta reyna á lögmæti kynningar á eiginleikum verðtryggðra lána fyrir neytendum. Eftir mikla þrautagöngu um refilstigu dómskerfisins verður málið nú loksins tekið til aðalmeðferðar, en það hafði verið sett á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 8. desember 2014.
Á þeim tíma sem liðið hefur síðan þessi vegferð hófst hafa fleiri aðilar höfðað til svipaðra eða sambærilegra mála. Leitað hefur verið álits EFTA-dómstólsins vegna tveggja þeirra, og liggja þau álit nú fyrir. Samkvæmt upplýsingum sem nýlega bárust frá héraðsdómi hefur dómstjóri ákveðið að þau þrjú mál sem hér um ræðir verði flutt fyrir fjölskipuðum héraðsdómi. Þá hefur dómari í því máli sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að lýst því yfir að við úrlausn þess ætli hann að taka mið af álitum EFTA-dómstólsins úr hinum tveimur málunum.
Þessi breyting á meðferð málsins hefur í för með sér frestun aðalmálfutnings fram yfir áramót, og er núna búið að ákveða dagsetningu aðalmeðferðar hinn 5. janúar 2015. Þrátt fyrir að þetta séu í raun jákvæðar fréttir, þýða þær að meðferð málsins mun frestast enn um sinn, og verður því ekki að vænta niðurstöðu héraðsdóms fyrr en í janúar eða febrúar næstkomandi.
Málatilbúnaður á vegum samtakanna hefur frá öndverðu byggst á því að ekki hafi verið gætt að skilyrðum laga um neytendalán þegar veittar voru upplýsingar um lánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við að verðbólga yrði 0% þannig að raunverulegur kostnaður við verðtryggingu var ekki tekinn með í reikninginn og voru neytendum þar af leiðandi veittar rangar upplýsingar um kostnað við slíka lántöku. Þetta sjónarmið var í raun staðfest í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/13þann 24. nóvember síðastliðinn, en að mati Hagsmunasamtaka heimilanna er það til þess fallið að styrkja grundvöll málaferlanna auk þess að renna sterkum stoðum undir ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014.
Hagsmunasamtök heimilanna leggja þrátt fyrir allt áherslu á að málaferlum þessum verði flýtt eins og kostur er, í samræmi við 183. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem kveður á um flýtimeðferð dómsmála er varða lögmæti vísitölubundinna lána. Samkvæmt almennum reglum um málshraða má búast við því að niðurstaða héraðsdóms geti legið fyrir í janúar en þó eigi síðar en í febrúar á næsta ári. Fastlega má búast við áfrýjun þeirrar niðurstöðu til Hæstaréttar, sem gæti tekið nokkra mánuði til viðbótar, og dómur því fallið um mitt næsta ár. Á meðan munu nauðungarsölur og gjaldþrot halda áfram á grundvelli verðtryggðra neytendalána sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
Neytendur eru hvattir til að fylgjast vel með framgangi málaferla um verðtryggð neytendalán, sem verður tilkynnt nánar um eftir því sem fram vindur. Einnig eru þeir sem sótt hafa um leiðréttingu verðtryggða fasteignaveðlána á vegum stjórnvalda hvattir til að nýta sér þann frest sem veittur verður fram í marsmánuð 2015, til þess að samþykkja niðurstöður leiðréttingar eða gera athugasemdir við þær eftir því sem tilefni þykir í hverju tilviki.