Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Málaferlum um verðtryggð neytendalán frestað fram í janúar 2015

Málaferlum vegna verðtryggðra neytendalána hefur verið frestað til 5. janúar 2015.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá því snemma árs 2012 staðið að undirbúningi dómsmáls í því skyni að láta reyna á lögmæti kynningar á eiginleikum verðtryggðra lána fyrir neytendum. Eftir mikla þrautagöngu um refilstigu dómskerfisins verður málið nú loksins tekið til aðalmeðferðar, en það hafði verið sett á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 8. desember 2014.

Á þeim tíma sem liðið hefur síðan þessi vegferð hófst hafa fleiri aðilar höfðað til svipaðra eða sambærilegra mála. Leitað hefur verið álits EFTA-dómstólsins vegna tveggja þeirra, og liggja þau álit nú fyrir. Samkvæmt upplýsingum sem nýlega bárust frá héraðsdómi hefur dómstjóri ákveðið að þau þrjú mál sem hér um ræðir verði flutt fyrir fjölskipuðum héraðsdómi. Þá hefur dómari í því máli sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að lýst því yfir að við úrlausn þess ætli hann að taka mið af álitum EFTA-dómstólsins úr hinum tveimur málunum.

Þessi breyting á meðferð málsins hefur í för með sér frestun aðalmálfutnings fram yfir áramót, og er núna búið að ákveða dagsetningu aðalmeðferðar hinn 5. janúar 2015. Þrátt fyrir að þetta séu í raun jákvæðar fréttir, þýða þær að meðferð málsins mun frestast enn um sinn, og verður því ekki að vænta niðurstöðu héraðsdóms fyrr en í janúar eða febrúar næstkomandi.

Málatilbúnaður á vegum samtakanna hefur frá öndverðu byggst á því að ekki hafi verið gætt að skilyrðum laga um neytendalán þegar veittar voru upplýsingar um lánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við að verðbólga yrði 0% þannig að raunverulegur kostnaður við verðtryggingu var ekki tekinn með í reikninginn og voru neytendum þar af leiðandi veittar rangar upplýsingar um kostnað við slíka lántöku. Þetta sjónarmið var í raun staðfest í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/13þann 24. nóvember síðastliðinn, en að mati Hagsmunasamtaka heimilanna er það til þess fallið að styrkja grundvöll málaferlanna auk þess að renna sterkum stoðum undir ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014.

Hagsmunasamtök heimilanna leggja þrátt fyrir allt áherslu á að málaferlum þessum verði flýtt eins og kostur er, í samræmi við 183. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem kveður á um flýtimeðferð dómsmála er varða lögmæti vísitölubundinna lána. Samkvæmt almennum reglum um málshraða má búast við því að niðurstaða héraðsdóms geti legið fyrir í janúar en þó eigi síðar en í febrúar á næsta ári. Fastlega má búast við áfrýjun þeirrar niðurstöðu til Hæstaréttar, sem gæti tekið nokkra mánuði til viðbótar, og dómur því fallið um mitt næsta ár. Á meðan munu nauðungarsölur og gjaldþrot halda áfram á grundvelli verðtryggðra neytendalána sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Neytendur eru hvattir til að fylgjast vel með framgangi málaferla um verðtryggð neytendalán, sem verður tilkynnt nánar um eftir því sem fram vindur. Einnig eru þeir sem sótt hafa um leiðréttingu verðtryggða fasteignaveðlána á vegum stjórnvalda hvattir til að nýta sér þann frest sem veittur verður fram í marsmánuð 2015, til þess að samþykkja niðurstöður leiðréttingar eða gera athugasemdir við þær eftir því sem tilefni þykir í hverju tilviki.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum