Ný stjórn HH kosin á aðalfundi
Í gær var kosin ný stjórn HH á aðalfundi samtakanna. Andrea J. Ólafsdóttir lét af störfum, eftir árangursríkt og farsælt ár sem formaður. Nokkrir stjórnarmenn úr síðustu stjórn buðu fram krafta sína áfram, og nokkrir nýjir bættust í hópinn. Stjórn samtakanna skipa 7 aðalmenn og 7 varamenn sem kosnir eru á aðalfundi, en stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Nýja stjórn HH skipa eftirfarandi.
Aðalmenn
Björk Sigurgeirsdóttir
Guðmundur Ásgeirsson (ritari síðustu stjórnar)
Gunnar Magnússon (meðstjórnandi í síðustu stjórn)
Kristján Þorsteinsson
Ólafur Garðarsson (gjaldkeri síðustu stjórnar)
Sigrún Viðarsdóttir (meðstjórnandi í síðustu stjórn)
Þóra Guðmundsdóttir
Varamenn:
Vilhjálmur Bjarnason (varformaður síðustu stjórnar)
Bjarni Bergmann
Jón Tryggvi Sveinsson
Una Eyrún Ragnarsdóttir (varamaður í síðustu stjórn)
Sigrún Jóna Sigurðardóttir
Guðrún Harðardóttir
Björg Sigurðardóttir
Samþykkt að sækja um aðild að Landssamtökum heimilanna.
Fyrir fundinum lá að taka afstöðu til þess hvort Hagsmunasamtök heimilanna sæki um aðild að Landssamtökum heimilanna sem stofnuð hafa verið, og hafa það að markmiði að vinna að hagsmunum félagsmanna með því að samþætta launa- og lánakjarabaráttu. Á félagsfundi HH í mars var samþykkt að fela stjórn að undirbúa umsókn HH að Landssamtökunum, en aðalfundi falið að taka endanlega ákvörðun um málið. Aðalfundurinn samþykkti að leggja fram aðildarumsókn HH að Landssamtökum heimilanna.
Bráðabirgðasamþykktir Landssamtaka heimilanna má lesa hér
Lagabreytingatillögur
Nokkrar lagabreytingatillögur við samþykktir samtakanna voru bornar upp á fundinum, og var tveimur þeirra vísað frá en þrjár samþykktar.
9. gr. Stjórn
- Stjórn samtakanna skal skipuð sjö mönnum og sjö varamönnum sem kjörnir skulu á aðalfundi samtakanna. Stjórnin kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi.
- Stjórnarmaður sem setið hefur full fimm kjörtímabil telst hafa lokið stjórnarsetu sinni fyrir samtökin og getur ekki verið kjörinn aftur í stjórn. Ákvæðið gildir ekki um kjörtímabil varamanna.
- Stjórnarstörf eru ólaunuð.
- Stjórnin skal koma saman til fundar að minnsta kosti mánaðarlega og skal hún halda fundargerðir. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til fundar í stjórninni þegar einn stjórnarmaður óskar þess.
----------------------------------------------
Breytingatillögur við 9. grein sem samþykktar voru
a) Þriðja málsgrein falli út, en í stað hennar komi eftirfarandi málsgrein.
- Stjórnarstörf eru ólaunuð, svo og þau verkefni sem stjórnarmenn taka að sér fyrir samtökin. Þó er heimilt að greiða fyrir útlagðan kostnað sem til fellur vegna rekstrar samtakanna.
b) Við 9. grein bætist eftirfarandi
- Stjórnarmenn skulu boða forföll, komist þeir ekki á stjórnarfund.
- Nú sækir aðalmaður ekki stjórnarfundi um þriggja mánaða skeið. Afsali hann sér þá sæti sínu í stjórn nema um lögmæta ástæðu er að ræða, taki sæti í varastjórn og fyrsti varamaður taki sæti í stjórn í hans stað.
10. gr. Verkefni stjórnar
- Stjórn samtakanna fer með æðsta vald í málefnum þeirra milli aðalfunda. Hún undirbýr aðalfund og aðra félagsfundi. Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti. Stjórnarfundireru lögmætir ef mættur er meirihluti stjórnarmanna.
- Við afgreiðslu mála á stjórnarfundum fer hver stjórnarmaður með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns fundarins. Varamaður hefur aðeins tillögurétt á stjórnarfundi nema hann leysi af stjórnarmann.
- Stjórn semur stefnuskrá hvers starfsárs. Stjórn skal hafa yfirumsjón með daglegri starfsemi samtakanna eða ræður sérstakan aðila til þess og til sértækra verkefna.
- Stjórn setur nefndum samtakanna reglur þar sem fram kemur hlutverk nefndanna.
----------------------------------------------
Breytingartillaga við 10. grein sem samþykkt var
- Fastráðnir starfsmenn samtakanna skulu ekki samhliða gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.
Í samþykktum þessum eru stjórnmálasamtök skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Trúnaðarstörf fyrir stjórnmálasamtök eru störf í stjórnum, ráðum og nefndum og önnur sambærileg störf á vegum eða í þágu stjórnmálasamtaka. Formlegir talsmenn stjórnmálasamtaka, frambjóðendur þeirra, starfsmenn og kjörnir fulltrúar teljast einnig gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.