ESA kvörtunin - yfirlit
Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á inntaki kvörtunarinnar sem send var til Eftirlitsstofnunar EFTA nú á dögunum en samtökin eru auk annarra aðili að kvörtuninni. Tilgangur þessa yfirlits er að miðla til almennings upplýsingum um kvörtunina á einfölduðu máli og á íslensku. Mikilvægt er að kvörtunarefnin komist til skila í umræðuna og hún sé efnislega í samræmi við inntak hennar.
Í kvörtuninni segir að stjórnvöld fari ekki að neytendatilskipun EES. Ágallar séu á innleiðingu og framkvæmd Evróputilskipun neytendalaga nr. 93/13/EEC sem kveður m.a. á um bann við beitingu aflsmunar í samingsgerð og bann við afturvirkri og íþyngjandi lagasetningu gagnvart neytendum.
a. Þessi kvörtun beinist að löggjafanum vegna nýmæla laga nr. 151/2010.
b. Þessi kvörtun beinist að dómsvaldinu vegna vanrækslu þess við að verja réttaröryggi neytenda skv. Evróputilskipun, og vegna vanrækslu við að leita ekki álits EFTA dómstólsins í dómsmáli um gengislánin.
c. Þessi kvörtun beinist að framkvæmdarvaldinu sem hefur vanrækt skyldu sína við að vernda neytendur fyrir aðgerðum fjármálafyrirtækja í krafti aflsmunar.
1. Meginregla í evrópskum neytendarétti bannar ákvæði eða breytingar á samningi sem er íþyngjandi fyrir neytendur og eru ekki í samræmi við upphaflegar forsendur hans.
Í kvörtuninni er löggjafinn ásakaður um að hafa gerst brotlegur gagnvart evrópskum neytendarétti við samþykkt laga nr. 151/2010 sem breytti lögum nr. 38/2001. Neytendatilskipun EES bannar breytingar á gerðum samingum sem skaða hagsmuni neytenda.
2. Kvörtunin beinist að þeim aðferðum sem fjármálastofnanir eru að nota til að endurreikna lán og þar með endurnýja kröfur þessara lána á grundvelli laga nr. 151/2010.
Lög nr. 151/2010 hafa afturvirk- og skaðleg áhrif á hagsmuni neytenda.
Hæstiréttur hefur kosið að horfa framhjá Evrópurétti við endurskoðun á þeim lögum.
Afturvirkni laganna bætti við íþyngjandi álögum á skuldir sem þegar höfðu verið greiddar. Skyldu samningum á annað borð breytt ættu þær breytingar ekki að vera íþyngjandi fyrir neytandann miðað við upphaflegar forsendur lánsins. Með að hækka upphaflega vexti afturvirkt hagnast fjármálafyrirtæki á ólögmæti samninganna.
Endurútreikningur á vöxtum ólöglegra gengislána gengur í berhögg við Evrópurétt þar sem þau skaða hagsmuni og réttindi neytenda. Mjög fáir, ef nokkrir neytendur hefðu sóst eftir gengislánunum hefðu þeir vitað að á þeim hvíldu vextir Seðlabankans en ekki upphaflegir LIBOR tengdir vextir á samningi. LIBOR tenging vaxta á reyndar ekki við í öllum tilfellum. T.d. voru samningar Kaupþings í stórum hluta tilfella án tilvísana í LIBOR.
Í gr. 18 í lögum nr. 151/2010 var ákvæði um bætur vegna ólöglegra samninga vikið í burtu, en ákvæði bætt í staðinn, sem kvað á um afturvirkan endurútreikning lánasamninga á miklu hærri vöxtum, sem skaðar klárlega hagsmuni neytenda.
Talsmaður neytenda hefur sagt að það standist ekki íslensk lög að hækka álögur á greiðslur sem þegar hafa verið greiddar -samt gera fjármálafyrirtækin einmitt þetta. Hæstiréttur neitaði að gefa álit á málinu og sótti ekki eftir áliti EFTA dómstólsins í prófmáli þó þess væri óskað af málsaðila.
Lög nr. 151/2010 viðheldur ólögmæti gengistryggðra lána. Upphaflegu vextirnir voru LIBOR tengdir vextir frá 1,5-3,5%. Neytendur höfðu borgað vexti af afborgunum sínum og þurfa því afturvirkt að borga vaxtavexti með tilkomu laga 151/2010 sem kveður á um afturvirkni vaxtaútreiknings miðað við vexti Seðlabankans. Því bætast aukavextir á greiðslur sem höfðu áður borið vexti og verið greiddar.
Fjármálafyrirtækjum hefur verið gert kleyft með lögum nr. 151/2010 að gera kröfur á fyrrum eigendur bíla ef neytandinn hafði komið úr endurútreikningnum í skuld. Fjármálastofnanir hafa ekki nýtt sér þessa heimild gagnvart fyrri eigendum, en öðru máli gegnir með núverandi eigendur.
3. Fjármálastofnanir eru að gefa út ný lán, sem neytendur neyðast til að skrifa undir. Það gera þau án tillits til greiðslugetu neytenda. Gengur það í berhögg við evrópska neytendalöggjöf.
4. Alþingi hafnaði álitum neytenda og stofnunum á borð við Umboðsmanns neytenda og Umboðsmanns skuldara við samningu laga 151/2010.
Þessir aðilar bentu Alþingi á að brotið væri á neytendum í ljósi EES samningsins með tilkomu afturvirkra og íþyngjandi lagasetningar á neytendur sem skerðir eignarrétt þeirra í skilningi evrópskra mannréttindasjónarmiða. Var bent á að veikari aðilinn í viðskiptum ætti að njóta góðs af afleiðingum ólöglegra viðskiptahátta en ekki hljóta skaða af eins og raunin hefur orðið.
Mikilvægt er að hafa í huga að fjármálastofnanir buðu upp á gengistryggð lán meðvituð um að þau voru ekki leyfð skv. íslenskum lögum. Það er mjög vafasamt að hinir brotlegu eigi að hagnast af ólöglegum verkum sínum.
5. Skortur réttaröryggis. Hæstiréttur horfir framhjá evrópskum neytendarétti sem innleidd hafa verið í íslensk lög.
Evrópskur neytendaréttur kveður skýrt á um tvenna hluti:
a. Ekki er hægt að breyta skilmálum lánasamnings eftir á ef það skaðar hagsmuni neytandans.
b. Það er ólöglegt að bæta vöxtum við höfuðstól með afturvirkum hætti.
Í kvörtuninni kemur fram sú ásökun að Hæstiréttur hafi farið á skjön við evrópska neytendatilskipun nr. 93/13/EEC sem hafði þegar verið innleidd í íslensk lög.
6. Þegar Hæstiréttur ákvað að þegja yfir ólögmæti/lögmæti laga nr. 151/2010 um afturvirka endurútreikninga lánasamninga, skerti hann réttaröryggi neytenda.
Þetta gerði hann þrátt fyrir að hafa verið sérstaklega beðinn um það tiltekna álit.
7. Hæstiréttur hafnaði beiðni um að hann leitaði álits EFTA dómstólsinsins í dómsmáli um lögmæti gengisbundinna lána þrátt fyrir beiðni þar um og álit eins dómarans.
8. Framkvæmdarvaldið brást ekki við beiðni um að verja neytendur fyrir aflsmunum fjármálafyrirtækja við endurútreikningum á lánasamningum neytenda.
9. Verðtryggingin gengur í berhögg við evrópskan neytendarétt.
Verbólga hefur verið viðvarandi vandamál á Íslandi. Meðalverðbólga frá árinu 1940 hefur verið um 15% og um 7% frá árinu 1984. Til að bregðast við verðbólgusveiflum var komið á verðtryggingu lána. Verðtrygging lána leggur áhættu vegna fjármálalegs óstöðugleika eingöngu á herðar lántakenda.
Þrátt fyrir að hækkanir launa hafi reynst meiri en verðbólguprósentan í gegnum tíðina hefur höfuðstóll verðtryggðra lána hækkað meira en útborguð laun hækka á ársgrundvelli, þannig að höfuðstóllinn hækkar en lækkar ekki þrátt fyrir stöðuga skilvísi.
Verðtrygging er andstæð evrópskum neytendarétti vegna þess að neytendur geta ekki metið skuldbindingar sínar við samningsgerð þegar ein breytan er algerlega óviss og verðbólgan er sjálfkrafa sett á þeirra herðar.