Starfsemin

Hagsmunasamtök heimilanna starfa í þágu íslenskra heimila um viðskipti þeirra á fjármálamarkaði. Markmiðið samtakanna er að hafa áhrif á umræðuna um málefni heimilanna og stuðla þannig að lagabreytingum til að bæta kjör og efla réttindi og vernd heimilanna í viðskiptum sínum. Eitt meginbaráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna frá stofnun er að verðtrygging neytendalána verði afnumin enda hækkar hún lán, leigu, vöruverð og framfærslukostnað allra heimila. Á stefnuskrá samtakanna er lögð rík áhersla á að réttur fjölskyldunnar til heimilis sé virtur sem grundvallarmannréttindi, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenskra ríkissins. Umræða um hagsmuni heimilanna á fjármálamarkaði var og er brýn.

Óháð ráðgjafarþjónusta

Samtökin veita félagsmönnum óháða ráðgjöf um viðskipti sín á fjármálamarkaði, með hliðsjón af vernd í löggjöfinni og reynslu samtakanna af efnahagshruninu. Ráðgjöf Hagsmunasamtaka heimilanna er óháð starfsemi fjármálastofnanna að öllu leyti, því stuðningur og úrlausn mála er eingöngu veitt með hliðsjón af hagsmunum þess skjólstæðings sem um ræðir hverju sinni. Fyrirspurnir til samtakanna eru margbreytilegar og hafa verið á milli 200 til 300 á ári hverju - um nokkurt skeið. Þær voru lengst af lagalegs eðlis og fjölluðu því oftar en ekki um réttindi, skyldur og önnur álitamál lánasamninga. Aukinn þungi hefur hinsvegar færst í fyrirspurnir og aðstoð vegna greiðsluerfiðleika tengdum húsnæðisskuldbindingum og öðrum lánum. Slík ráðgjöf er þó ávallt nátengd almennri réttindagæslu og lögfræðilegu mati.

Einstaklingar geta því leitað til samtakanna ef greiðslubyrgði lána er orðin íþyngjandi, réttarstaða þeirra er óljós eða lánveitendur veita ekki þá þjónustu sem viðkomandi þarfnast. Afstaða samtakanna er sú að heimilin eigi ekki að vera háð ráðgjöf eða afstöðu fjármálafyrirtækja í viðskiptum sínum enda eru þau ekki hlutlaus í þeirri afstöðu. Það er því nauðsynlegt að óháð ráðgjöf sé öllum aðgengileg. Það er ekki raunhæft að búast við því að bankarnir sýni réttindum fólks til heimilis umhyggju.

Fjármál

Hagsmunasamtök heilmilanna eru rekin af félagsgjöldum og styrkjum. Megintekjulind samtakanna eru félagsgjöld. Greiðsluseðill er sendur félagsmönnum einu sinni á ári, á vormánuðum og því er stillt í hóf, til að tryggja aðgengi sem flestra að samtökunum og mikilvægri réttindagæslu. Samtökin eru almannaheillafélag og þeir sem hafa áhuga á að styrkja samtökin geta lagt inná tilgreindan reikning neðst á forsíðu vefsins eða sent fyrirspurn á skrifstofu samtakanna - heimilin@heimilin.is. Þess má geta að styrkur til samtakanna er frádráttarbær til skatts, samkvæmt lögum um almannaheillafélög og almannaheillaskrá.

 

 

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum