Menu
RSS

Í tilefni 1. maí

Hagsmunasamtök heimilanna skora á verkalýðsöfl í landinu að hugsa nýjar leiðir í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum.

Það er tillaga okkar að meðal krafna í kjarasamningsviðræðum sé  að veðlán heimilanna verði leiðrétt með réttmætum, sanngjörnum og almennum hætti. Enda er það er algerlega ljóst öllu sanngjörnu fólki að þegar verðbætur á lán rjúka upp án nokkurra takmarkana þá er um óréttmæta eignatilfærslu að ræða, og einungis eðlilegt að tryggja að á þeim sé fyrirfram skilgreint þak eins og samtökin hafa áður lagt til.

Á þennan hátt má ná fram í einni svipan gríðarlegri kjarabót sem hefði veruleg áhrif til lækkunar á framfærslukostnaði þorra almennings. Þær afkomutölur sem nýlega bárust úr bönkunum skjóta enn styrkari stoðum undir þá kröfu.

Samtökin hafa nú farið þá leið að kvarta til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) undan óréttmætum endurútreikningum og innheimtu gengistryggðra lána en þá leiðréttingu teljum við grundvöll frekari uppbyggingar. Einnig er í kvörtuninni óskað svara um hvort sá lagarammi verðtryggingar sem er við lýði á Íslandi, þar sem fjárhagslegri áhættu og afleiðingum verðbólgu er sjálfkrafa velt yfir á neytendur, brjóti gegn grundvelli Evrópuréttar.  Samtökin telja það ekki forsvaranlegt að hvert og eitt heimili eigi að þurfa að fara dómstólaleiðina með öllum þeim tilkostnaði og biðtíma sem það myndi hafa í för með sér til endurreisnar.

Að lokum skorum við á forystumenn í kjarasamningaviðræðum að halda á lofti kröfunni um að lægstu laun taki mið af nýútgefnu neysluviðmiði velferðarráðuneytisins.  Í því sambandi má minna Alþingi á að skv. 76. grein stjórnaskrárinnar hvílir sú skylda á herðum löggjafans að lögfesta lágmarks framfærsluviðmið.  Sameiginleg ábyrgð Alþingis SA og ASÍ, þeirra aðila sem ber að hafa almannahag að leiðarljósi, er rík.

 

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna