Málskostnaðartryggingar lántaka
Áríðandi tilkynning vegna málskostnaðartryggingar lántaka
Hagsmunasamtök heimilanna vilja árétta við þá sem ætla í málaferli vegna húsnæðislána sinna, að málskostnaðartrygging er oft til staðar í heimilistryggingum. Í mörgum tilvikum ættu þessar tryggingar að ná til málaferla vegna húsnæðislána heimilanna, þótt skilmálar geti verið mismunandi. Rétt er að fólk athugi slíkt og leiti réttar síns, hvort sem um ræðir gengisbundin lán eða verðtryggð.
Umboðsmaður skuldara hefur sett tilkynningu á heimasíðu embættisins varðandi lög nr. 151/2010 sem taka á endurútreikningi gengisbundina lána. Þar segir að verulegar líkur séu á að lögin fari gegn evróputilskipun um neytendavernd og skerðingu á eignarétti. Talsmaður neytenda hefur einnig tilkynnt á heimasíðu embættis síns að endurútreikningar séu vafasamir.
Þykir stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna eðlilegt í ljósi þess að tvö opinber embætti hafa tjáð sig með þessum hætti um málið, að fólk leiti réttar síns fyrir dómstólum þar sem sáttaumleitanir hafa ekki borið árangur.
Tilvísun í Umboðsmann skuldara hér http://www.ums.is/fraedsla-og-frettir/nr/302
Tilvísun í Talsmann neytenda hér http://talsmadur.is/Pages/57?NewsID=1429
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
6. arpíl 2011