Menu
RSS

Yfirlýsing vegna endurútreiknings lána

Hagsmunasamtök heimilanna telja rétt að vara almenning við því að undirrita nýja samninga byggða á endurútreikningum sem varða gengisbundin lán og afturvirka vexti af þeim. Þau lög sem viðkomandi endurútreikningar byggja á (151/2010) stríða beinlínis gegn neytendarétti Evrópu eins og kemur fram í umsögn Umboðsmanns skuldara um lögin, en íslendingar hafa innleitt neytendavernd samkvæmt Evrópurétti.  Þá veitir Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands þegnum landsins grundvallar vernd gegn aðför að eignarrétti þeirra, sem og afturvirkrar skattheimtu og íþyngjandi álaga hvers konar.

Mikilvægt er að átta sig á að lögin gefa lánveitendum ENGAR heimildir til innheimtu samkvæmt nýjum útreikningum nema gerður sé nýr samningur við lánþegann. Með nýjum samningi er lánið slitið frá upphaflega samningnum og engin leið að segja til um meðferð slíks samnings í kjölfarið. Sé ekki settur fyrirvari á sjálfan samninginn kann sá fyrirvari að vera haldlítill. Gefi lánastofnun ekki færi á að fyrirvari sé settur við undirskriftina með tilvísun í upphaflegan lánasamning, mælum við sterklega gegn undirritun samnings.

Samtökin vilja einnig vekja athygli á því, að í nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur (mál E-5215/2010) var kveðið upp úr um að Arion banki væri eingöngu aðili máls frá þeim tíma sem hann tók lánið yfir en það var upphaflega í eigu hins fallna Kaupþings banka.  Í því tilfelli var lántaki að sækja endurgreiðslu til bankans. Virki þetta eins í hina áttina, þýðir það að hugsanlegar afturvirkar vaxtakröfur eru í eigu þrotabúa gömlu bankanna en ekki nýju bankanna (í þeim tilfellum sem lánin eru hjá nýjum banka).  Nýi bankinn getur því ekki krafið lántakann um vexti sem koma í hlut gamla bankans og þar með getur hann ekki lagt “vangreidda” vexti ofan á höfuðstól lánsins til hækkunar.  Nýi bankinn er ekki aðili þess hluta málsins skv. niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur.

Að mati samtakanna er hyggilegast að undirrita enga nýja samninga sem festa í sessi brot gegn lántaka. Samtökin vinna nú, ásamt samstarfsaðilum, að kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna þeirra brota á neytendarétti sem felast í dómi hæstaréttar 16. september 2010 (mál 471/2010) og lögum nr. 151/2010.  Sú umleitan er í fullu samræmi við yfirlýsingu umboðsmanns skuldara um endurútreikning ólögmætra gengislána frá 15. mars 2011 og umsögn umboðsmanns um frumvarpið sem varð að lögum nr. 151/2010.

Hér má finna skapalón að mótmælabréfi og höfnun endurútreiknings

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna