Eignarnámsleið
Með svokölluðum neyðarlögum nr. 125/2008 var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að kaupa húsnæðislán bankanna og ráðherra ætlað að útfæra það nánar með reglugerð. Með minniháttar breytingum á núgildandi reglugerð væri hægt að kveða á um að Íbúðalánasjóður skuli taka húsnæðislán landsmanna eignarnámi, “enda séu kaupin til þess fallin að tryggja öryggi lána á íbúðalánamarkaði og hagsmuni lántakenda” eins og segir í 1. gr. reglugerðarinnar nr. 1081/2008 sem sett var af þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.
Samkvæmt lögum og reglum sem lúta að eignarrétti er slíkt eignarnám heimilt teljist það í þágu almannahagsmuna, en þá þurfi að koma sanngjarnt verð fyrir. Þessi aðferð á það sameiginlegt með svokallaðri gerðardómsleið samkvæmt tillögu Talsmanns Neytenda að hingað til hefur þótt erfitt að leggja mat á hvað teljist sanngjarnt verð og þar af leiðandi kostnað við aðgerðina og önnur hagræn áhrif. Það sem af er þessu ári hafa hins vegar bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaráðuneytið birt gögn þar sem kemur fram að útlán bankakerfisins til heimila voru metin á rúmlega hálfvirði þegar þau voru færð yfir í nýju bankana. Þar með er kominn mælikvarði á sanngjarnt endurgjald fyrir eignarnámið.
Eftir að öll húsnæðislán landsmanna væru komin undir hatt Íbúðalánasjóðs myndi svigrúm til niðurfærslu aukast enn vegna lægri kröfu um eiginfjárhlutfall, og um leið yrði mun einfaldara að láta jafnt yfir alla ganga. Það afskriftasvigrúm sem er til staðar í lánasöfnunum mætti nýta og láta það ganga að fullu áfram til lántakenda og dreifast til þeirra með sanngjörnum hætti. Mat á kostnaði við þessa aðgerð bendir til þess að hún gæti verið ríkinu nánast að kostnaðarlausu. Dugi það svigrúm sem við þetta skapast til almennra leiðréttinga ekki fyrir þá sem verst eru staddir mætti hugsa sér að samtvinna það blönduðum úrræðum, til dæmis eins og lýst er í skattaleiðinni.