Hvers vegna?
- Hagsmunasamtökin hafa frá stofnun leitað eftir samningum við stjórnvöld
í lánamálum heimilanna - Almenn leiðrétting stökkbreyttra lána og afnám verðtryggingar er eina lausnin
á lánamálum heimilanna sem er bæði skynsöm og réttlát út frá almannahagsmunum - Því hafa stjórnvöld hafnað, bæði almennum lánaleiðréttingum og afnámi verðtryggingar
- Við teljum af þessum sökum brýnt að almenningur fái að segja hug sinn milliliðalaust
Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 í þeim tilgangi að berjast fyrir almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar. Þann 12. febrúar 2009 litu tillögur samtakanna um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar dagsins ljós.
Tillögurnar fólu meðal annars í sér ofangreindar kröfur. Samtökin lögðu frá upphafi áherslu á að vinna með stjórnvöldum að lausn mála til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni, enda gerðu samtökin sér vonir um að stjórnvöld myndu hafa milligöngu um samninga við lánveitendur og kröfuhafa vegna þess tjóns sem lántakendur urðu fyrir.
Þrátt fyrir að samtökin hafi fljótlega eftir stofnun þeirra og allar götur síðan fengið umtalsverða áheyrn stjórnvalda hefur ávallt staðið á almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar þrátt fyrir þann víðtæka samfélagslega stuðning sem fyrir liggur, sjá t.d. hér, hér og hér.
Fjölmörg önnur úrræði hafa aftur á móti verið kynnt til sögunnar af hálfu stjórnvalda. Þau úrræði gagnast fólki misvel og hafa réttilega verið gagnrýnd fyrir það að taka ekki á rót vandans. Hvernig sem á málin er litið hefur sá forsendubrestur sem lántakendur urðu fyrir vegna þeirra aðgerða lánveitenda og stjórnvalda sem leiddu til hruns efnahagskerfisins ekki verið leiðréttur. Sú niðurstaða er bæði óréttlát og óásættanleg.
Vaxandi óánægju meðal almennings hefur gætt vegna framgöngu stjórnvalda og fjármálastofnana í þessum málaflokki. Þann 4. október 2010 sauð upp úr þegar ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar áttu sér stað. Mörg þúsund manns komu saman á Austurvelli og tunnur voru barðar. Í kjölfarið sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fjöldann allan af sérfræðingum úr stjórnkerfinu og fjármálageiranum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu koma til með að kosta og hvernig þær myndu gagnast fólki.
Þannig keyptu stjórnvöld sér frest fram yfir jól og áramót þar til reiðiöldurnar lægði. Á tímabili var látið líta svo út fyrir að allt kæmi til greina af hálfu stjórnvalda. Meira að segja almenn leiðrétting lána eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað mælt fyrir. Að endingu fór hins vegar svo að sjónarmið samtakanna voru blásin út af borðinu og fulltrúi samtakanna sá sig tilneyddan til að skila séráliti sem stjórnvöld hafa neitað að birta.
Þegar á hólminn var komið höfnuðu lánveitendur samkomulagi við lántakendur um sanngjarna og skynsamlega niðurstöðu. Stjórnvöld létu svo hjá líða að bregðast við forherðingu fjármálastofnana með nauðsynlegu boðvaldi. Á bak við þá afstöðu skýldu stjórnvöld og lánveitendur sér með því að vísa til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda kröfuhafa og höfðu þannig eignarrétt húsnæðiseigenda að engu.
Af þessu er ljóst að kröfur samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar munu ekki ná fram að ganga með samningum líkt og samtökin vonuðust upphaflega til. Viðurkenning á forsendubresti þarf að eiga sér stað til þess að viðurkenna þörfina fyrir leiðréttingum lána.
HH kalla eftir að þessi viðurkenning komi frá stjórnvöldum og að ekki þurfi að leita til dómstóla með öll mál til að útkljá svo augljósa staðreynd. Sú leið sem á endanum verður valin til leiðréttingar er og verður alltaf pólitísk ákvörðun. Til þess að ganga fram fyrir hönd heimilanna og færa til baka þá eignatilfærslu sem átt hefur sér stað frá heimilunum til fjármagnseigenda þarf pólitískt hugrekki, kjark og þor.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa því, í nafni almannahagsmuna, ákveðið að blása nýju lífi í kröfur sínar með breyttri nálgun. Samtökin telja brýna þörf á því að fólki gefist tækifæri til að segja hug sinn í þessum efnum með undirskrift sem tekur undir kröfuna um almenna leiðréttingu lána heimilanna og afnám verðtryggingar og jafnframt um þjóðaratkvæðagreiðslu, verði stjórnvöld ekki við þessum kröfum.
Samhliða þessari undirskriftasöfnun kynna samtökin fjórar ólíkar leiðir til leiðréttingar, sem þau telja mögulegar og gætu fallist á. Þessar fjórar leiðir eru hugsaðar sem grundvöllur fyrir umræðu og er því ekki um tæmandi lista að ræða. Samtökin minna á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og nú er brýn þörf fyrir pólitíska ákvörðun sem skilar sér alla leið til heimilanna í landinu.
Taka þátt í undirskriftasöfnuninni
Fara á Hvernig - nokkrar leiðir til leiðréttingar
Fara á Framtíðarsýn - nýtt húsnæðislánakerfi