Nýtt húsnæðislánakerfi
- Category: Aðsetur o.s.frv.
Brjótum heimilunum leið út úr kreppunni
- Eitt brýnasta hagsmunamál heimilanna er að nýju húsnæðiskerfi verði komið á fót
- Tryggir að rekstur þeirra hvíli framvegis á traustari grunni
- Ekki framkvæmanlegt nema stökkbreytt lán verði leiðrétt og verðtryggingin afnumin
- Ein helsta forsenda þess að við brjótum okkur leið út úr kreppunni
Hagsmunasamtök heimilanna leggja til að íslensku húsnæðislánakerfi verði breytt verulega og varanlega. Hið nýja fyrirkomulag nái einnig til núverandi húsnæðislána þannig að fólki verði gert kleift án tilkostnaðar að breyta yfir í nýtt lán.
Ekki er gert ráð fyrir að haldið verði áfram að bjóða önnur form húsnæðislána, enda er það meðal annars markmiðið með hinu nýja kerfi að lán og lánskjör í íslenskum krónum verði fyllilega samkeppnishæf við okkar samanburðar- og samkeppnislönd.
Tillagan krefst víðtækrar samvinnu stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, fulltrúa neytenda, samtaka atvinnulífs og launþega um kerfisbreytingu og innleiðingu.
- Verðtryggð húsnæðislán:
Hætt verði að veita verðtryggð lán til einstaklinga vegna húsnæðiskaupa. - Óverðtryggð húsnæðislán:
Sett verði 5 - 6% þak á óverðtryggða vexti húsnæðislána. Vextir ákvarðist í samningi milli lánveitanda og lántaka, samið verði til 3 til 5 ára í senn, þó mánaðarleg greiðslubyrði lánanna miði við lán til lengri tíma. Vextir geti verið breytilegir samkvæmt nánari ákvæðum samningsins; fljótandi í samræmi við fyrirfram ákveðið viðmið eða fastir. Hámarksvextir verði 6%. - Aukin samkeppni um ný og þegar tekin húsnæðislán.
Öll áhvílandi lán greiðist upp við eigendaskipti á húsnæði, þannig að eitt kauplán hvíli á fasteign. Við þetta styttist sá tími sem lánveitandi þarf að fjármagna útlán sín. Að meðaltali má gera ráð fyrir að hver eign hér á landi skipti um eiganda á tæplega 7 ára fresti. Styttri fjármögnun er háð minni óvissu og kostar almennt minna en fjármögnun til lengri tíma, sem ætti að leiða til lægri vaxta.
Við endurákvörðun vaxta verði lántaka heimilt að færa húsnæðislán sín til annars fjármálafyrirtækis, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða, án uppgreiðslugjalda. Slíkt ætti að leiða til samkeppni um viðskipti, ekki bara hvað varðar húsnæðislán heldur líka um önnur viðskipti viðkomandi lántaka.
Stimpilgjald verði aflagt eða verði föst, hófleg umsýsluþóknun óháð fjárhæð láns. Það verði ekki af lántöku þegar lánsviðskipti eru flutt frá einu fjármálafyrirtæki til annars (endurfjármögnun), þar sem ekki er um nýtt lán lántakans að ræða.
Lántökugjald verði föst, hófleg umsýsluþóknun óháð fjárhæð láns. Það verði ekki eða mjög óverulegt af lántöku þegar lánsviðskipti eru flutt frá einu fjármálafyrirtæki til annars (endurfjármögnun).
Ávinningurinn af breyttu lánakerfi
Ávinningurinn af nýju og breyttu lánakerfi er meðal annars:
Með tilfærslu yfir í óverðtryggt lánakerfi eru fjármálafyrirtæki gerð virkari þátttakendur í að koma á fjármálastöðugleika á Íslandi. Við núverandi aðstæður getur óstöðugleiki og þensla í sumum tilvikum haft jákvæð áhrif fyrir afkomu fjármálafyrirtækja. Hvoru tveggja veldur verðbólgu sem skilar sér í verðbótum á verðtryggða lánasamninga. Með óstöðugleika og þenslu geta fjármálafyrirtækin tryggt sér hagnað af rekstri. Þetta sást vel árið 2008, þegar hagnaður fjármálafyrirtækja virtist á víxl stafa af veikingu krónunnar og verðbótum ofan á lánasamninga.
Hagsmunasamtök heimilanna telja mjög mikilvægt fyrir hagkerfið, að allir stærri leikendur taki þátt í að halda niðri verðbólgu og stuðla að stöðugleika. Benda má á að tillögur samtakanna hafa til dæmis engin áhrif á afkomu fjármálafyrirtækja, ef verðbólga er lægri en þakið. Sé verðbólga lág geta 5 – 6% vextir gefið góða raunávöxtun. Með 1,5% verðbólgu myndu til dæmis lífeyrissjóðunum duga 5% óverðtryggðir vextir til að ná markmiði laga um 3,5% raunávöxtun. Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna fela því í sér innbyggðan hvata til að viðhalda stöðuleika og lágri verðbólgu. Telja samtökin að fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur muni sjá hag sínum best borgið með því að halda verðbólgunni niðri og stuðla þannig að jákvæðri raunávöxtun útlána sinna.
Mikilvægi lækkunar ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða og vaxta ríkisskuldabréfa
Samhliða þessu telja Hagsmunasamtök heimilanna að endurskoða þurfi rökin fyrir reglugerðarkröfu um 3,5% raunávöxtun eigna lífeyrissjóða. Vaxtastig í landinu tekur að mjög miklu leyti mið af þessari ávöxtunarkröfu og gerir það að verkum að íslenskum húsnæðislántökum bjóðast ekki eins hagstæð lán og húsnæðiskaupendum í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.
Samtökin telja nauðsynlegt að þetta viðmið verði lækkað eða að minnsta kosti hvað varðar ríkistryggð skuldabréf og húsnæðisbréf Íbúðalánasjóðs. Horfa verður til þess að vextir sem ríkissjóður og Íbúðalánasjóður greiða til lífeyrissjóðanna koma nánast að öllu leyti frá sjóðfélögum. Há ávöxtunarkrafa vegna slíkra skuldabréfa gerir því lítið annað en að færa fé frá einum vasa sjóðfélaga til annars með ára- eða áratuga bið. Eins og góð ávöxtun lífeyrissjóðanna er mikilvæg, hljóta heildarhagsmunir sjóðfélaga að vega þyngra. Vissulega eru ekki allir sjóðfélagar greiðendur húsnæðislána hjá Íbúðalánasjóði, en stærsti hlutinn er það. Samtökin telja einnig að endurskoða þurfi ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða til að tryggja betur að lífeyrissjóðir séu fjárfestar til langs tíma. Breytingar á áunnum lífeyrisréttindum, sem verða vegna góðrar eða slakrar afkomu viðkomandi sjóðs, skuli einnig gera með langtíma breytingar á afkomu í huga. Með þessu er dregið úr sveiflum, eins og þeim sem margir lífeyrisþegar hafa upplifað á tekjum sínum á síðustu árum.
Til að lækka enn frekar vaxtastig í landinu, telja Hagsmunasamtök heimilanna nauðsynlegt að setja þak á vexti ríkisskuldabréfa. Vextir ríkisskuldabréfa eiga alltaf að senda þau skilaboð út til fjárfesta, að hér á landi sé búist við stöðugleika. Ríkissjóður á því ekki að þurfa og á jafnvel að vera óheimilt að gefa út skuldabréf með hærri en 5% óverðtryggðum vöxtum. Takist ríkissjóði ekki að selja skuldabréf með slíkum vöxtum án þess að því fylgi mikil afföll, þá verður ríkið einfaldlega að draga saman í útgjöldum. Vextir ríkisskuldabréfa setja neðri mörk þeirra vaxta sem atvinnulífið og fjármálakerfið getur boðið á sínum skuldabréfum. Í flestum tilfellum verður atvinnulífið meira að segja að bjóða 2 - 4% hærri vexti á sínum skuldabréfum til að fjárfestar líti við þeim. Það veldur meðal annars hærra vöruverði og þar með meiri verðbólgu. Fjármálafyrirtæki telja sig síðan geta elt ríkissjóð með sína vexti sem skilar sér í hærri vöxtum Seðlabanka Íslands, hærri fjármögnunarkostnaði bæði atvinnulífs og heimila, hærra vöruverði og loks endar þetta allt í verðbótum verðtryggðra lána, eins og framkvæmd verðtryggingarinnar er því miður í dag.
Taka þátt í undirskriftasöfnuninni
Fara á Hvers vegna - aðdragandi og markmið undirskriftasöfnunarinnar
Fara á Hvernig - nokkrar leiðir til leiðréttingar