Menu
RSS

Yfirlýsing stjórnar HH vegna dóms um lánaskuldir stofnfjáreigenda

Hagsmunasamtök heimilanna gleðjast yfir nýföllnum dómum í Héraðsdómi Reykjavíkur sem dregur fjármálastofnanir til ábyrgðar á markaðsmisnotkun og fyrir ranga upplýsingagjöf til viðskiptavina/stofnfjáreigenda sinna, enda byggir niðurstaða þeirra á því að lántakendur voru blekktir. Lánveitendur komu ekki rétt fram við viðskiptavini sína við eigin stofnfjáraukningu, frekar en þeir gerðu við heimilin í landinu er þeir lánuðu til húsnæðiskaupa og tóku síðan stöðu gegn krónunni og þorra viðskiptavina, sjálfum sér til hagsbóta. Heimilin í landinu eru þolendur markaðsmisnotkunnar og blekkinga, en ætlast er til að þau beri tjónið óbætt og gott betur svo ekki sé minnst á auknar skattaálögur.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að í ljós er komið að bankakerfið getur boðið enn betur en samtökin hafa farið krafist og vilja nú skora á stjórnvöld að koma því svo við að húsnæðislán heimilanna verði einnig leiðrétt með sama hætti og fái ekki síðri vaxtakjör en stofnfjáreigendum sparisjóða hefur nú verið boðið, óverðtryggð með 3,75% vöxtum.

Fjárfesting landsmanna í heimilum sínum er ein mikilvægasta stoð íslensk samfélags nú á tímum. Mun slík aðgerð án efa stöðva eða jafnvel snúa við brottflutningi fjölda landsmanna sem ofbýður aðgerðarleysi og úrræðaleysi stjórnvalda gagnvart heimilunum. Gott fordæmi um sátt hefur nú verið gefið.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
25. janúar 2011

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna