Menu
RSS

Yfirlýsing frá greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Merki HHÞúsundir heimila standa nú frammi fyrir því að geta ekki samtímis greitt af íbúðarlánum og brauðfætt fjölskyldu sína. Þeim fjölgar einnig sem ekki sjá glóru í því að borga af stökkbreyttum lánum sem eru hærri en verðmæti íbúðarinnar og vonlaust að greiða nokkurn tíma upp.

Lánasöfn heimilanna voru færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með 40 - 60% afslætti. Þessir tæpu 600 milljarðar eiga að skila sér til lántakenda sem leiðrétting vegna forsendubrests en bankarnir ætla að stinga þeim í eigin vasa sem aukagróða.

Svokölluð úrræði ríkisstjórnarinnar vegna greiðsluerfiðleika eru ekkert annað en sjónhverfingar til að halda fólki í gíslingu sem galeiðuþrælum fjármálakerfisins. Lánþegum er boðið upp á smánarlegar höfuðstólslækkanir sem verða að engu á fáeinum árum vegna hærri vaxta. Stefnt er að því að keyra af stað þúsundir nauðungaruppboða á íbúðum almennings frá 1. mars. Undir þessari ógn reyna bankarnir að knýja fólk til að skrifa undir nýjar skuldbindingar sem draga lítillega úr greiðslubyrðinni framan af en þyngja hana til lengri tíma.

Ótímabundið greiðsluverkfall frá 19. febrúar

Í ljósi þess að stjórnvöld og fjármálastofnanir hafa daufheyrst við kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna er nú boðað til ótímabundins greiðsluverkfalls.

Með greiðsluverkfallinu:

  • Lýsum við yfir stuðningi við þúsundir lántakenda sem eru hættir að borga af húsnæðislánum og standa frammi fyrir þeirri ógn að verða sviptir fjárræði um langa framtíð.
  • Mótmælum við þeirri valdníðslu ríkisins að standa fyrir innheimtu okurlána, okurvaxta og verðbóta sem knýja áfram verðbólguna.
  • Vörum við eindregið við nýjum svokölluðum úrræðum sem veikja lagalega stöðu lántakenda.
  • Krefjumst við að gengið verði til samninga um sanngjarnar leiðréttingar á lánum heimilanna vegna forsendubrests.
  • Krefjumst við afnáms verðtryggingar af húsnæðislánum.
  • Krefjumst við tafarlausrar afgreiðslu og samþykktar lyklafrumvarps og frumvarps um tímasetta fyrningu skulda auk frumvarps um 4% þak á verðbætur húsnæðislána frá 1. jan. 2008.

Ofangreint er í samræmi við kröfugerð HH en hana má finna á heimasíðu samtakanna:

http://www.heimilin.is/varnarthing/skjalasafn-greidsluverkfalls/krofugerd

Þeir sem ekki treysta sér í ítrustu aðgerðir eins og að hætta greiðslum af lánum geta eftir sem áður sýnt samhug og samstöðu með leiðum sem útlistaðar eru á heimasíðunni heimilin.is.

Heimili landsmanna verða nú að verja sig gegn ágangi lánastofnana með öllum ráðum. Ríkisvaldið verður að láta af stuðningi við glæpsamlega okurlánastarfsemi og koma í veg fyrir að hálf þjóðin verði knúin í gjaldþrot.

Verkalýðshreyfingin ætti að vera bandamaður okkar í þessari baráttu. Um forystu ASÍ er það að segja að  heggur sá er hlífa skyldi. Hagsmunasamtök heimilanna skora á félagsmenn stéttarfélaganna að berjast fyrir stuðningi við réttlátan málstað okkar innan sinna félaga.

Samtökin vilja ítreka að þátttaka í greiðsluverkfalli getur því miður leitt til persónulegs fjárhagstjóns og jafnvel gjaldþrots. Þrátt fyrir að við hjá HH séum þess fullviss að samstaða lántakenda geti orðið til að brjóta á bak aftur ríkjandi okurvaxtastefnu, bendum við á að hver og einn ber ábyrgð á sínum fjármálum.

Í þetta sinn býðst þátttakendum í greiðsluverkfalli að skrá sig til þátttöku. Smellið hér til að opna skráningarformið.

Greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

 

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna