Ályktun funda um greiðsluverkfall
Ályktun
Fundur Hagsmunasamtaka heimilanna þriðjudaginn 23. júní 2009 styður ákvörðun fjölda Íslendinga um að grípa til greiðsluverkfalls til að knýja fram leiðréttingar á húsnæðislánum vegna forsendubrests af völdum kreppunnar. Markmið greiðsluvekfallsins er að ná fram eftifarandi kröfum:
- Lán sem hvíla á íbúðarhúsnæði með viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla verði leiðrétt og yfirfærð í íslenskar krónur frá lántökudegi á gengi þess tíma.
- Verðtryggð lán sem hvíla á íbúðarhúsnæði verði leiðrétt þannig að að verðbætur verði að hámarki 4% á ári frá 1. janúar 2008.
- Lagabreyting leiði til þess að ekki verði gengið lengra í innheimtu veðlána en að leysa til sín veðsetta eign.
- Lagabreyting leiði til þess að við uppgjör skuldar fyrnist eftirstöðvar innan 5 ára og verði ekki endurvakin.
- Gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar lána innan skamms tíma og vaxtaokur verði aflagt.
Þátttaka í greiðsluverkfallinu getur falið í sér:
- Að hætta að greiða af lánum og/eða draga greiðslur í tiltekinn tíma.
- Að takamarka greiðslu af lánum við greiðsluáætlun.
- Hvetja til úttekta og flutnings á innistæðum.
- Auglýsa brotaaðila; lista upp þá sem vinna með og á móti heimilum
- Hvetja til sniðgöngu; beina viðskiptum frá aðilum, takmarka neyslu og veltu við nauðsynjar.
- Hvetja til uppsagna á kortaviðskiptum og greiðsluþjónustu
- Opinber mótmæli.
Fundurinn felur stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna að skipa 5 manna verkfallsstjórn. Í verkallsstjórninni skal vera einn lögfræðingur og tveir stjórnarmenn í samtökunum.