Fundur með ríkissáttasemjara og blaðamannafundur
Greiðsluverkfallsstjórn HH átti fund með ríkissáttasemjara Magnúsi Péturssyni kl. 9:00 föstudaginn 28. ágúst 2009. Á fundinn mættu fyrir hönd HH Þorvaldur Þorvaldsson formaður greiðsluverkfallsstjórnar, Ólafur Garðarsson varaformaður greiðsluverkfallsstjórnar, Gunnar Kristinn Þórðarson ritari, Elín Kjartansdóttir vararitari og Ragnar Þór Ingólfsson úr verkfallsstjórn og stjórn VR.
Ríkissáttasemjara var afhent bréf frá samtökunum með ósk um að hann miðlaði málum í tilvonandi samninga-viðræðum milli HH annarsvegar og ríkissins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Landsambandi Lífeyrissjóða hinsvegar. Meðfylgjandi var kröfugerð samtakanna, ályktun frá félagsfunum HH 23. júní 2009 auk samfélagssáttmála HH og ályktunar greiðsluverkfallsstjórnar HH.
Fundinn sóttu einnig fulltrúar fjölmiðla með myndavélar og slíkt eins og gengur og gerist en ríkissáttasemjari leyfði ekki viðveru þeirra á fundinum sjálfum.
Á fundinum reifaði Þorvaldur sjónarmið HH og réttlætingu samtakanna fyrir því að leita aðstoðar ríkissáttasemjara en aðrir fundarmenn veittu frekari rökstuðning eins og færi gafst og svöruðu spurningum ríkissáttasemjara. Góður andi var á fundinum og Magnús tók vel í erindið og gaf vilyrði fyrir sinni aðstoð við lausn vandans ef allir aðilar væru sáttir við hans aðkomu. Greiðsluverkfallsstjórnin getur vart ætlast til meira af ríkissáttasemjara og hélt því sátt við sinn hlut af fundinum.
Í lok fundar tók Lóa Pind fréttamaður frá Stöð2 viðtal við Þorvald formann en kl. 10:00 hófst blaðamannafundur á Amokka af þessu tilefni þ.e. boðun greiðsluverkfalls 1. október. Þorvaldur opinberaði á fundinum áætlanir greiðsluverkfallsstjórnar HH um greiðsluverkfall frá 1. október til 15. október og stjórnarmenn svöruðu spurningum fréttamanna eftir bestu getu. RÚV tók síðar viðtal við Þorvald og Ólaf. Þórður formaður stjórnar HH kom að forvitnast um gang mála í lok blaðamannafundar og var umsvifalaust kippt inn í viðtal við RÚV. Það var greinilega mikill áhugi hjá fréttamönnum á greiðsluverkfallinu.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú náð traustri fótfestu í umræðunni og halda ótrauð áfram að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, íslenskra fjölskyldna af öllum stærðum og gerðum. Samtökin tilheyra heimilunum og þjóna engum pólitískum línum stjórnmálaflokka. Stjórn samtakanna skipa einstaklingar þvert á alla stjórnmálaflokka og langt út fyrir þá og þeirra áherslur.